10.3.2012 | 13:18
Lögmál skortsins
Lögmál skortsins ræður afkomu Íslendinga. Jafnvel þar sem enginn skortur er, hefur framboð verið takmarkað til að búa til skort. Þetta er kjarninn í fiskveiðistjórnunni og kvótakerfinu en líka á fasteignamarkaðnum. Hér er fullt af íbúðum frekar látnar standa ókláraðar og auðar heldur en að markaðurinn lækki. Lækkun er bannorð í hugum stjórnmálamanna og hagfræðinga, sem trúa á lögmál skortsins. Lögmáli skortsins má nefnilega stjórna. Það datt ekki þeim hagfræðingum í hug sem uppgötvuðu þetta lögmál og trúðu á frjálst markaðshagkerfi. Þeim datt ekki í hug að ófyrirleitnir hagfræðingar myndu sjá sér leik á borði til að afskræma þessa grundvallarkenningu hagfræðinnar. Á Íslandi er markaðsmisnotkun og markaðsstýring grundvöllur efnahagslífsins. Stjórnmálamenn bera þar stærsta ábyrgð. Þegar setulið Bandaríkjahers yfirgaf base kampinn á Miðnesheiði gafst raunverulegt tækifæri til að búa til búsetuúrræði fyrir efnalítið fólk. Þar losnaði á einu bretti nokkur þúsund íbúðir. Þetta máttu verktakar og braskarar ekki heyra minnst á og beyttu áhrifum sínum á pólitíkusana með þeim afleiðingum að mikill fjöldi þessara íbúða varð fyrir skemmdum en öðrum var ráðstafað til einkavina. Þetta var inngrip á markaði.
Í kjölfar fasteignabólunnar 2008 var búið að byggja hér nokkur þúsund íbúðir umfram eftirspurn. Pólitíkusar kusu frekar að setja 30 milljarða í að klára Perluna heldur en þessar íbúðir. Þetta var líka dæmi um inngrip á markaði.
Í kjölfar efnahagskollsteypunnar þurftu fjármálastofnanir að leysa til sín mikinn fjölda af eignum. Þessar eignir eru ekki settar í sölu vegna þess að þá myndi fasteignaverð almennt lækka. þetta er ljótt dæmi um inngrip á markaði.
Núna vill Betri Flokkurinn í Reykjavík byggja íbúðir fyrir efnalitla. Sjálfstæðismenn sjá því allt til foráttu. Sjálfstæðismenn hafa lengi gengið erinda verktaka sem vilja stjórna framboði á húsnæði. Það er líka dæmi um inngrip á markaði.
Hvers vegna erum við með Samkeppniseftirlit sem sektar bara Símann og Bónus en skiptir sér ekkert af því hvernig bankarnir haga sér eða hvernig fasteignaverði hefur verið kerfisbundið haldið uppi í tugi ára?
Hvers vegna er ekki hægt á skynsamlegan hátt að losa krumlur einkahagsmunanna af tilverugrundvelli alls almennings? Hvers vegna líða svo margir skort í þessu allsnægtaþjóðfélagi? Hvers vegna að búa til skort þar sem enginn skortur þarf að vera?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.