28.3.2019 | 14:02
Verkó og verðbólgan
Að komið verði böndum á verðtryggingu, verðbólguskot og vexti, eru allt atriði, sem vega þungt í kröfugerð alvöru verkalýðsfélaga eins og Eflingar, VR og félaga, sem flykkja sér undir þeirra forystu.
Þegar peningamálastefna og stjórn efnahagsmála eru eins og þau eru, þá hefur almenningur ekki á neinn að treysta nema eigin hagsmunagæslu í gegnum verkalýðsfélögin.
Djúpríkið og stjórnmálastéttin eru smám saman að átta sig á þessum nýja veruleika. Ef stjórnvöld vilja tryggja sátt í landinu þá gjöra þau bezt í því, að hlusta á kröfur verkalýðshreyfingarinnar og beita stjórnvaldinu í þágu fólksins, en ekki fjármagnsins.
Gjaldþrot WOW Air bitnar þyngst á þeim, sem missa vinnuna. Fjármagnseigendur, sem töpuðu á, að lána Skúla Mogensen hafa örugglega allir gert framvirka samninga um hækkun á gengi Icelandair og þeir munu þola höggið. Almenningur getur ekki tryggt atvinnu með framvirkum samningum en almenningur getur kosið stjórnvöld og almenningur getur líka sett af stjórnvöld sem ekki þjóna almannahagsmunum.
Núna eru almannahagsmunir þeir, að gjaldþrot WOW og samdráttur í ferðaþjónustu verði líka fjármagnað af hagnaði þeirra sem ætluðu að greiða sér milljarða í arð út úr fyrirtækjum sínum vegna rekstrarársins 2018, en ekki bara af almenningi í gegnum aukna verðbólgu.. Ef þjóðhagsleg áhrif verða talin valda hér 5% hækkun á verðbólgu þá þarf að kippa vísitölunni úr sambandi strax. Þá ætla menn að láta almenning borga tap banka og fjárfestingasjóða/lífeyrissjóða, vegna WOW og Icelandair.
Hlutur flugsamgangna í grunni neyzluvísitölunnar einn og sér vegur innan við 1%. Þeir sem tala um óðaverðbólgu upp á 5% eru að þjóna fjármagninu og bæta þeim upp útlánatöp síðustu tveggja ára.
Ég treysti á að Ragnar Þór láti ekki bugast gegn sameiginlegum þrýstingi frá því ofurefli sem við er að etja. Nú er ekki rétti tíminn til að semja um lágmarkslaun. Nú þarf að tryggja efnahagslegt jafnræði þegnanna í hinu tvöfalda efnahagskerfi sem viðgengst á Íslandi. Evruhagkerfinu og örhagkerfinu.
Fundað hjá sáttasemjara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.