Hlutdrægur álitsgjafi

 Spurt var;

 Tel­urðu að Sig­mund­ur Davíð sé bú­inn að gera hreint fyr­ir sín­um dyr­um varðandi Wintris-málið?

 „Það þarf eng­inn að ef­ast um að rétt hafi verið farið að" svarar Grétar Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri og gerir þar með sjálfan sig að viðundri og vanhæfum kennara í stjórnmálafræði til framtíðar.  Því það er nokkuð öruggt að Wintris málið verður notað sem kennslubókardæmi um hvernig ekki eigi að standa að málum ef menn vilja vegtyllur í stjórnmálum

Allt frá því Wintris málið kom fyrst upp, hef ég fylgst með því af áhuga. Ekki síst fyrstu viðbrögðum Sigmundar í sjónvarpssal og öllu sem á eftir kom. "Dine spörgsmál bekymrer mig" sagði Sigmundur  þegar hann var spurður út í Wintris af sænska rannsóknarblaðamanninum. Þessi taktík að setja ofan í við fjölmiðlamenn, ber vitni um óheiðarleika og er tilraun til að taka yfir viðtöl sem eru viðmælanda erfið.  Allar götur síðan hefur Sigmundur verið í vörn og kostað til milljónum króna .  Nú síðast var þóknun þeirra hjóna til skattasniðgöngulögfræðingsins, sem sér um skattframtöl þeirra hjóna, rúmar 2 milljónir eins og fram kemur í úrskurði yfirskattanefndar

Kærendur hafa gert kröfu um að þeim verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kærendum málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Samkvæmt framlögðum gögnum nemur kostnaður kærenda vegna meðferðar málsins 2.112.991 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti vegna 65 klukkustunda vinnu umboðsmanna kærenda við málið. Ekki verður talið að hér sé að öllu leyti um kostnað að ræða sem eðlilegt sé að til hafi verið stofnað vegna málsins, sbr. lagaskilyrði fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, og er þá m.a. litið til þess að málið varðar afmarkað sakarefni og getur ekki talist svo umfangsmikið að réttlæti slíkan kostnað. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til starfsreglna yfirskattanefndar 21. nóvember 2014 um ákvörðun málskostnaðar þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 500.000 kr.

En það er einmitt þessi reifun yfirskattanefndar, sem prófessorinn hefði átt að kynna sér áður en hann svaraði spurningu fréttamannsins.  Því í úrskurðinum kemur fram saga Wintris málsins og tilraunir Sigmundar og Sigurlaugar til að fá löggildingarstimpil skattayfirvalda á siðlausum gjörningi varðandi umsýslu peninga sem þau eiga og vilja ekki borga skatta af.

Í tilefni af athugasemdum í kæru um að nægjanlegt sé að ársreikningur sem gerður sé á grundvelli III. kafla laga nr. 145/1994, um bókhald, innihaldi rekstrarreikning og efnahagsreikning auk skýringa eftir því sem við eigi, er tekið fram í umsögninni að hér sé horft fram hjá skýrri kröfu ársreikningalaga um sjóðstreymi, skýrslu stjórnar, áritun endurskoðenda eða skoðunarmanna, nákvæma sundurliðun á breytingum á eigin fé o.fl. Ljóst sé að starfsemi félagsins fylgi ýmsar breytingar, t.d. á áföllnu markaðsvirði eigna og skulda sem færist eftir atvikum til tekna eða gjalda, auk áfallinna fjármagnstekna sem færast ættu með rekstraruppgjöri í gegnum eigið fé félagsins, án þess að mynda fjármuni til úttektar sem áhrif hefðu á eiginlega greiðslugetu félagsins vegna skuldar við kæranda. Því fái ekki staðist að ekki sé til sundurliðað eigið fé í félaginu við uppgjör þess. Jafnframt sé ljóst að þar sem breytingar á eigin fé X Ltd. hafi ekki verið sundurliðaðar liggi ekkert fyrir um hvort greiðslur til eigenda séu endurgreiðslur á lánsfé eða önnur úthlutun af fjármunum félagsins. Þá verði ekki ráðið að vilji hafi staðið til að viðhafa sérstakt ójafnræði á milli þeirra félaga sem gert hafi ársreikning samkvæmt reglum heimilisfestarríkis síns og þeirra sem ekki hafi gert slíkan ársreikning.

Mér virðist að úrskurður ríkisskattstjóra sé samkvæmt eðlilegri túlkun laga,  en sniðganga felst í að finna göt í lagasetningu sem með einbeittum brotavilja megi túlka á annan veg. Eftir lestur á úrskurðarorði yfirskattanefndar læðist að manni grunur um að hér hafi ekki verið farið að lögum sem gilda fyrir okkur skóflupakkið.

Í því sambandi þá bendi ég á að 2 af 3 dómurum í þessu máli voru skipaðir á meðan Sigmundur Davíð var enn forsætisráðherra. Sem hlýtur að teljast afar óheppilegt í ljósi hinna óskráðu reglna klíkusamfélagsins.


mbl.is Wintris-málið óklárað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú hefðir átt að fara í guðfræði Jóhannes. Augljósir hæfileikar þínir í túlkunarloftfimleikum smellpassa þar auk trúarhitans. Það þarf trú til að sjá það sem ekki er sýnilegt og hafa fullvissu um það sem ekki verður sannað. ;)

Jón Steinar Ragnarsson, 3.10.2017 kl. 13:16

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég hef stundum rangt fyrir mér Jón en ekki oft. Í Wintris málinu er enginn vafi í mínum huga að þar var aldrei ætlunin að upplýsa um tilvist félagsins. Þaðan af síður að skila inn áreiðanlegum skattaupplýsingum, byggðum á löglegum ársreikningum.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 3.10.2017 kl. 13:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband