kjosa.betrireykjavik.is

Það er ástæða til að hrósa Besta Flokknum fyrir að auka beint lýðræði borgarbúa með beinni aðkomu að framkvæmdaákvörðunum í borginni.  Þótt ekki sé um stórar upphæðir að ræða þá er ferlið mjög lýðræðislegt.  En það sem mér finnst samt merkilegast við þessa tilraun, er kosningafyrirkomulagið.  Að kjósa rafrænt með persónuskilríkjum er framtíðin.  Og þegar búið er að ná tökum á þessari aðferð þá opnast möguleiki á beinu lýðræði við stjórn landsins án aðkomu forsetans.  Með rafrænum kosningum eru engin takmörk fyrir því hvað hægt er að kjósa um.  Við gætum meira að segja hæglega kosið um allar 112 greinar frumvarps stjórnlagaráðs, en ekki bara þessar takmörkuðu spurningar Stjórnskipunar og Eftirlitsnefndarinnar.  Ég hef margoft talað um nauðsyn á að taka upp rafrænar kosningar og nefnt sem möguleika að nota heimabankaauðkennið, en þessi leið sem betrireykjavik er að þróa er ekki síðri. Næsta skref verður væntanlega að setja ákvæði um rafrænar kosningar inní nýju stjórnarskrána.  Því við hljótum að stefna að bindandi kosningum í framtíðinni og raunverulegu beinu lýðræði en ekki ráðgefandi kosningum eins og nú er. 

Látið þá Samherja kosta göngin

Ef Eyfirðingar og Þingeyingar trúa að Vaðlaheiðargöng verði sjálfbær framkvæmd þá liggur beinast við að Samherji kosti þá framkvæmd og ríkið komi þar hvergi að. Menn tala um að arðurinn af auðlindinni eigi að skila sér í auknum mæli til heimabyggða og hvaða verkefni eru þá meira aðkallandi en einmitt samgöngubætur?  Þar að auki skuldar Samherji Norðurþingi* skaðabætur eftir að hafa sölsað undir sig kvótann, bæði frá Húsavík og Raufarhöfn. Hvað varðar afgreiðslu ríkisstjórnarflokkanna, með þá Kristján Möller og Steingrím J. í farabroddi, á þessari útfærslu, þá er bara eitt orð yfir hana og það er skandall.  Hvernig í ósköpunum ætla stjórnmálamenn að ná tökum á hagstjórninni ef svona óútfylltir víxlar eru gefnir út við hverjar kosningar? Ef einkaaðilar (og þá er ég ekki að tala um lífeyrissjóðina okkar), vilja fjármagna samgöngubætur gegn vegtollum þá er það bara hið besta mál.  En Alþingismenn eiga að halda sig við samgönguáætlun þingsins!  Annað er ekki ásættanlegt.

* leiðrétt vegna ábendingar. Takk fyrir Vilborg


mbl.is Styður ekki göngin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talandi um ráðherravæðingu

Ég hef harðlega gagnrýnt Alþingi fyrir lélega lagasetningu í gegnum tíðina þar sem stjórnvöldum og sérstaklega fagráðherrum er veitt ótakmörkuð heimild til að setja reglugerðir og útfæra hin aðskiljanlegustu lög.  Má segja að Alþingismenn hafi vanrækt þessa frumskyldu sína. Og ef menn halda  að núverandi stjórn sé eitthvað öðruvísi þá nægir að skoða nýjasta stjórnarfrumvarpið um stjórn fiskveiða. En í því kemur orðið ráðherra fyrir 148 sinnum.  Þetta segir mér að ef þetta frumvarp verður samþykkt þá sé endanlega búið að ríkisvæða sjávarútveginn hvað varðar afskipti ráðherra af stjórnun og eftirliti. Frumvarp Jóns Bjarnasonar kemst ekki í hálfkvist við þennan óskapnað hans Steingríms.  En það sem veldur mér samt mestum vonbrigðum eru viðbrögð þingmanna Sjálfstæðisflokksins.  Þeir sjá ekkert athugavert við þessi ríkisafskipti, en setja bara út á útfærsluna.  Pottana og upphæðir veiðigjaldanna.  Af hverju í ósköpunum staldra menn nú ekki við og reyna að hugsa fiskveiðistjórnunina upp á nýtt?  Í 40 ár, frá 1940-1980, var meðalþorskafli á Íslandsmiðum milli 400 og 500 þúsund tonn. Og þetta var á þeim tíma sem sóknin var óheft. Engar skyndilokanir, engar reglur um lágmarksstærðir og engar reglur um veiðarfæri. Það voru stundaðar Ólympískar veiðar.  Þessi staðreynd, að jafnstöðuaflinn hafi verið þetta mikill segir bara eitt og það er, að afrakstursgeta fiskimiðanna er 400-500 þúsund tonn af þorski.  Það er magnið, sem þessi úthagi stendur undir.  Því hafið er eins og afréttur.  Þolir bara ákveðna beit. Ef beitt er of mikið, þá drepast fiskar úr hungri.  Og ef beitt er of lítið, þá er afrakstursgetan vannýtt, sem er einmitt það, sem hefur gerst undanfarin ár. Afrakstursgeta fiskimiðanna hefur ekki verið nýtt. Og það hlýtur að teljast meiriháttar pólitísk mistök að það skuli gerast vegna afskipta stjórnmálamanna.  Allir, sem vit hafa á fiskveiðum segja, að ekki sé hægt að ofveiða stofna, ef eðlilegum varúðaraðferðum er beitt við veiðistjórn. Og með eðlilegum varúðaraðferðum er ekki átt við kvótasetningu tegunda, heldur sóknarstýringu og veiðarfærastýringu. Þegar slíkum aðferðum er beitt þá minnkar sóknin sjálfkrafa þegar stofnar eru í lægð og að sama skapi þá eykst sóknin þegar stórir stofnar koma inní veiðina eins og hefur alltaf gerst. Það þarf ekki annað en, að skoða gögn Hafró til að sjá þetta.  Og þá sést berlega hvernig stóru stofnarnir, sem komu inní veiðina eftir að kvótakerfið var sett á, hreinlega hurfu, en nýttust okkur ekki í aukinni veiði.  En það er eðlileg ráðstöfun náttúrunnar, að horfella tegundir þegar ætið er takmarkað.  Þetta samspil skilja allir sjómenn og fiskifræðingar örugglega líka.  En hér hafa vísindaleg rök lotið í lægra haldi fyrir sérhagsmunum fjársterkra útgerðarmanna, sem tókst að sölsa undir sig fiskimiðin með hjálp spilltra stjórnmálamanna.  Það sem stjórnmálaflokkar fengu að launum voru molar af borðum stórútgerðarinnar í formi styrkja.  Því það kostar, að halda völdum og stunda áróður eins og fjórflokkurinn gerir.  Hitt sem stjórnmálamenn fengu í gegnum kvótakerfið voru völd.  Völd til að deila og drottna. Útbýta ölmusu í formi byggðakvóta, skötuselskvóta og strandveiðikvóta. Þessi völd vilja þeir ekki missa og alls ekki Sjálfstæðisflokkurinn.  Þess vegna er gagnrýni hans máttlaus.  Samtryggingin tryggir þessu frumvarpi hans Steingríms nægt fylgi til að verða samþykkt.  Menn vilja nefnilega ekki hverfa aftur til frelsis í sjávarútvegi.  Ef menn meintu eitthvað með því, væri búið að afnema kvótakerfið hér fyrir 20 árum eða svo!
mbl.is Hækka gjaldið og þrengja að útveginum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samviska þjóðarinnar

Illugi Jökulsson er réttnefndur "samviska þjóðarinnar".  Þegar Illugi grætur,  þá grætur þjóðin og þegar Illugi hlær, þá hlær þjóðin.  En einu gleymir Illugi og það er, að hann þarf ekki að bera ábyrgð á geðheilsu þjóðarinnar.  Þjóðin sjálf er stjórnarskrárgjafinn, en ekki stjórnlagaráðið. Stjórnlagaráðið var kosið af einungis 34% kjósenda og átti því ekki að taka sér það vald, að setja þjóðinni algerlega nýja stjórnarskrá.  Þeir hefðu betur látið nægja, að skoða þau atriði, sem þeim var falið í frumvarpinu um stjórnlagaráðið. Þá værum við örugglega í öðrum fasa en núna.  En ef stjórnin þorir að bera þetta frumvarp undir þjóðina og meirihluti þjóðarinnar samþykkir það, þá er hægt að tala um að þjóðin hafi sett sér stjórnarskrá.  Fyrr ekki. Og alls ekki ef aðeins lítill hluti þjóðarinnar sýnir málinu áhuga. Um þetta ættum við öll að geta verið sammála.  Líka Jón Gunnarsson!

Bakkabræður

Einu sinni voru 3 bræður sem hétu Steingrímur, Indriði og Svavar.  Dag einn voru þeir sendir til útlanda til að semja um skuld. þegar nokkur tími var liðinn fóru sveitungar þeirra að undrast um þá.  Þeir sendu því mann að Bakka til að spyrja frétta.  Þegar sendimaðurinn bankar upp á kemur Steingrímur til dyra, illa til hafður og býður gestinum að ganga í bæinn. Gesturinn þiggur það.  Setjast þeir nú að kaffidrykkju og dýfa í það gömlum hörðum kleinum sem Steingrímur sagði að kelling af næsta bæ, Jóhanna að nafni hefði sent sér með vinnumanninum Hrannari. Fannst gestinum naumt skammtað. Eftir almennt hjal um hörmungar tíðarfarið og ástandið í pólitíkinni, ber gesturinn loks upp erindið. Og spyr hvort eitthvað sé að frétta af sendiferð þremenninganna og hvernig gangi að semja um skuldina.  Steingrímur kveður ekkert að frétta.  Og þess sé örugglega langt að bíða, að Indriði og Svavar komi heim með samninginn.  Að því sögðu slíta þeir talinu og gesturinn kveður.  En hann hafði ekki lengi gengið þegar hann mætir þeim Indriða og Svavari rallfullum.  Hann kastar á þá kveðju og spyr hverju valdi að þeir séu heim komnir, og segir að Steingrímur hafi ekki átt von á þeim á næstunni. Við það koma vöflur á tvímenningana uns Svavar segir að þeir hafi ekki nennt að hanga lengur yfir þessum samningum.  Enda ekki alveg skilið þetta flókna tæknimál, sem var talað. En þeim hafi verið sagt að þetta væru góðir samningar,  og það þyrfti ekkert að borga næstu 6 árin og eftir það væri örugglega hægt að slá lán fyrir afborgununum.  "Hafið engar áhyggjur" sagði Indriði. "Þetta reddast örugglega því við seljum bara beljurnar og heyið ef við lendum í vandræðum með afborganirnar og svo getur líka vel verið að við verðum bara fluttir til útlanda áður en við þurfum að borga og þá þurfum við ekkert að borga" Jóhanna, kellingin frá Skjaldborg, hafi talað um að miklu betra væri að búa í Eessbélandi.  Með það hurfu þeir Indriði og Svavar heim á leið en sendimaðurinn flýtti sér til fundar við sveitunga sína til að segja þeim tíðindin.  Sveitungarnir brugðust hissa við og sendu fulltrúa heim að Bakka og sem kröfðust þess að sjá þennan samning.  Steingrímur kvað enga þörf á því.  Svavar hefði komið heim með snilldar samning. Eftir stutt málþóf féllst hann þó að lokum á að þeir gætu lesið samninginn inní betri stofu, einn í einu svo framarlega sem þeir færu ekki með hann útúr húsi. Á þetta sættust menn en Indriði og Svavar voru hvergi sjáanlegir.  Sagði Steingrímur að Svavar hefði lagst til svefns að sofa úr sér ölvímuna eftir veisluna sem hann hélt í tilefni samninganna.  Líður nú nokkur tími uns dregur til tíðenda.  En svo gerist það að efni samningsins spyrst út meðal sveitunganna.  Sem að vonum þykja þetta alls ekki góðir samningar.  Eiginlega bara arfavondir samningar. Og 90% þeirra samþykkja að greiða ekki.  Og senda þau skilaboð til útlanda, að þessi samningur væri ómark því vondu útlendingarnir hefðu  hellt Svavar fullan og platað hann til að skrifa undir. Þessu gátu útlendingarnir ekki mótmælt og lýkur þar með þessari sögu af Bakkabræðrum hinum nýju.  En lærdómurinn sem dreginn var af þessum viðskiptum var lítill.  Meira af því seinna Cool

Auðlindarenta Indriða

Nú eru nokkrir dagar síðan frumvarp um veiðigjöld var útbýtt á þinginu og öllum Íslendingum sem áhuga hafa á málinu því gefist tími til að kynna sér málið.  Ég hef kynnt mér þetta frumvarp og verð að segja að hugmyndafræðin að baki auðlindaskatti á fiskveiðar og vinnslu gengur ekki upp. Hugmyndafræðin gengur ekki upp einfaldlega vegna þess að útgerð og vinnsla byggir á einkarekstri en ekki ríkisrekstri. Ef ríkið sæi alfarið um að veiða og vinna þá væri þetta ekkert mál. Þá myndi fara fyrir útgerð ríkisins eins og fór fyrir Orkuveitunni og Hitaveitu Suðurnesja.  En bæði þessi fyrirtæki eru dæmigerð fyrir opinberan rekstur, þar sem eigandinn skammtar sér óhóflega rentu út úr opinberu fyrirtæki sem svo aftur gerir það ógjaldfært til mikils fjárhagslegs skaða fyrir umbjóðendurna sem er hinn eiginlegi eigandi.

Þetta er sá veruleiki sem blasir við að muni gerast ef hugmyndir Indriða um veiðigjald og auðlindaskatt á útgerðina kemur til framkvæmda. Rentuna á að taka af hagnaðinum og þar með er kvatinn til að byggja upp blómleg fyrirtæki í sjávarútvegi tekinn af eigendum þess áhættufjármagns sem í fyrirtækjunum er bundinn. 

Ef ríkið vill þjóðnýta hagnaðinn þá verður það líka að fjármagna reksturinn.  Svo einfalt er það nú

Lausnin sem blasir við er að gefa veiðar frjálsar innan dagakerfis og innkalla þar með allan kvóta á einu bretti. Rökin fyrir kvótasetningu fiskstofna og þar með lagalega ábyrgðin byggðist á kenningum um ofveiði. Með því að afnema kvótakerfið er því lýst yfir að þessar forsendur séu brostnar og stofnarnir þoli óheftar veiðar því myndast engin skaðabótaábyrgð.  Þegar kvótakerfið hefur verið lagt af og eðlileg samkeppni komist á þá er auðvelt að setja lög sem skyldar útgerð til að greiða eðlilegt hráefnisverð fyrir þann afla sem dreginn er á land og seldur á opinberum fiskmarkaði. Þetta væri gjald en ekki skattur.  Og þetta myndi skila meiri tekjum fyrir ríki og sveitarfélög heldur en boðaður auðlindaskattur.  Auðlindaskatt er aðeins hægt að leggja á opinberan rekstur það hljóta allir skynsamir menn sem velta þessu fyrir sér að sjá.  Líka Alþingismenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar þótt vitlausir séu
mbl.is Opnaði á breytingar á frumvarpinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn hannaði glæpi

Jónas bloggaði um að framsókn bannaði glæpi en réttara er að Framsókn hannaði flesta þessara fjármálaglæpa með aðild sinni að einkavinavæðingunni. Og með aðstoð vina sinna í skilanefndum og slitastjórnum og bankastjórnum nýju bankanna virðast þessir guttar ætla að halda öllu sínu!   Og þótt þeir verði hankaðir á tækniatriðum þá verður aldrei hægt að bæta almenningi tjónið sem einkavinavæðingin olli þjóðfélaginu.

Gunnlaugur, Finnur, Ólafur, Þórólfur, Helgi og Halldór Ásgrímsson ættu að skammast sín og skila ránsfengnum en umfram allt sína iðrun og biðjast afsökunar á röngum gjörðum.  Fyrr en einhver slík yfirbót fer fram getur þetta þjóðfélag ekki gróið um heilt.  En ef menn vilja búa í þjóðfélagi tortryggni, heiftar, sársauka og hefnigirni, þá umfram allt bara yppta öxlum og láta sem ekkert hafi gerst og vona að þetta svokallaða hrun gleymist sem fyrst.  En svona stórfelld og skipulögð glæpastarfsemi eins og rekin var hér af eigendum og stjórnendum gömlu bankanna gleymist ekki næstu hundrað árin. Þetta mun rata í annála og allir sem áttu hlut að máli munu verða úthrópaðir sem landráðamenn og svíðingar hvernig svo sem réttarhöldin yfir þeim fara. Það hlýtur að vera þeim meira áfall heldur en að vera ákærðir.  Ekki öfunda ég neinn af þessum mönnum þrátt fyrir allt þeirra ríkidæmi


mbl.is „Verulegt áfall að vera ákærður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Benediktsson boðaði reyndar málþóf

Skrítin túlkun MBL af orðaskiptunum á Alþingi áðan, en kemur ekki mjög á óvart.  Bjarni gerði athugasemdir við aðdróttanir um málþóf og tók sem dæmi að hann væri að hefja sína fyrstu ræðu í þessari umræðu....Þetta var rúmlega 5 í dag, en umræðum verður að ljúka fyrir miðnætti til að gagn sé að. Síðan þá hefur Bjarni verið ötull í andsvörunum en það eru einmitt þessi ómálefnalegu andsvör sem  flokka má sem sem málþóf.  Hvað varðar það efni málsins, hvað ræðumönnum finnst um skoðanir eða hugsanleg álit þriðja aðila?  En þetta heyrir maður oft þegar sjálfstæðismenn og framsóknarmenn fara í andsvör við hvern annan. Ef stjórnarandstæðingar nýta rétt sinn til að taka til máls og ekki síst að fara í andsvör við hvern annan þá er málið ónýtt fyrir ríkisstjórnina.  Ég græt það svo sem ekki því mér finnst þessi skoðunarkönnun sem ætlunin er að gera, alls óþörf á þessu stigi málsins. Ríkisstjórnin klúðraði þessu máli algerlega hjálparlaust
mbl.is Hafna ásökunum um málþóf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sævar Gunnarsson er aumingi

Viðtal Helga Seljan í kastljósinu í gærkvöldi við Sævar Gunnarsson, formann Sjómannasambandsins, hefur víða orðið mönnum tilefni til gagnrýni á útgerðarmenn.  Ég get alveg tekið undir gagnrýnina en mér finnst framganga Sævars Gunnarssonar lítilmannleg. Þessi maður er búinn að vera formaður Sjómannasambandsins í 19 ár(frá 1994) og hefur ekki í eitt skipti hreyft mótmælum við yfirgangi útgerðarmanna fyrr en núna. Er þetta merki um að Sævar hyggist ekki gefa kost á sér áfram sem formaður SSÍ?  Er ekki sagt að rottur flýi sökkvandi skip?  Sjómannsambandið er reyndar löngu sokkið undir forystu Sævars Gunnarssonar og klíkufélaga hans.  Hann hefur aldrei tekið upp hanskann fyrir félagsmenn sína þegar útgerðarmenn hafa beitt sjómenn yfirgangi.

  • Ekki þegar sjómenn hafa verið látnir taka þátt í kvótakaupum
  • Ekki þegar útgerðarmenn hafa selt sjálfum sér aflann á undirverði
  • Ekki þegar sjómenn hafa verið reknir fyrir að leita réttar síns
  • Ekki þegar útgerðarmenn hafa neitað að semja við sjómannafélög
  • Ekki þegar útgerðarmenn hafa látið sjómenn taka þáttí öðrum útgerðarkostnaði
  • Ekki þegar útgerðarmenn hafa landað fram hjá vigt
Gat Sævar eitthvað gert?  Já auðvitað gat hann vakið athygli yfirvalda á framferði útgerðarmanna.  Og auðvitað átti hann að fylgja því eftir með kærum til viðkomandi eftirlitsstofnana. Ég fullyrði að flest allar áhafnir á íslenskum fiskiskipum hafa einhvern tímann þurft að leita til sína stéttarfélags vegna yfirgangs útgerðar.  En jafn oft hafa þeir talað fyrir daufum eyrum sjómannasamtakanna sem hafa aldrei beytt sér gegn LÍÚ vegna hræðslu um að sjómönnum yrði sagt upp störfum í stórum stíl .  Samherji hefur til dæmis beytt þessum hótunum ítrekað eins og formaður sjómannafélags Eyjafjarðar getur vitnað um.  En það er einmitt hlutverk hagsmunasamtaka eins og Sjómannasambandsins að standa upp í hárinu á yfirgangssömum vinnuveitendum en ganga ekki í björg með þeim eins og Sævar Gunnarsson gerði.  Þess vegna get ég ekki hrósað honum fyrir að koma fram í Kastljósinu í gærkvöldi. Vegna aumingjaskapar Sævars þá hafa útgerðarmenn komist upp með að níðast á ekki bara sjómönnum, heldur öllu samfélaginu og svíkja það um réttlátan hlut í góðri afkomu útgerðarinnar síðan kvótakerfið var tekið upp.

Dagur Framsóknar

Þingflokkur Framsóknarmanna hefur lagt fram frumvarp til laga um þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta. Frumvarpinu verður dreift á Alþingi í dag. Markmið frumvarpsins er að draga úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi, minnka vaxtakostnað og skuldsetningu heimilanna og tryggja að ábyrgðin af baráttunni við verðbólguna hvíli ekki aðeins á herðum neytenda í samfélaginu.

 

Ég verð að hrósa framsóknarmönnum fyrir þetta frumkvæði.  En ekki síst vil ég hrósa Vigdísi Hauksdóttur fyrir að hafa tekizt að pirra hálfan þingheim nú þegar og þinghald ekki einu sinni hafið! Meira að segja húmoristinn, Björn Valur Gíslason gat ekki leynt gremju sinni þegar Vigdís hraunaði yfir samþingsmenn sína af mikilli list. Hingað til hef ég ekki haft mikið álit á þessum þingmanni. Fundist hún fúllynd og leiðinleg eins og Jón Gunnarsson.  En það verður að segja henni til hróss að hún hefur vaxið sem ræðumaður, jafnhliða því að hafa látið af reiðinni og fúllyndinu. Engu líkara en hún hafi farið í smiðju til erkióvinarins, Össurar Skarphéðinssonar og tekið upp hæðni, sem greinilega svíður meira undan ef mark má taka af andsvörunum sem hún fær. Well done Vigdís!Tounge


mbl.is Vilja þak á hækkun verðtryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband