10.3.2019 | 15:35
Arðsemi versus launakröfur
Guðrún Hafsteinsdóttir hélt ein uppi vörnum fyrir láglaunastefnu SA í Silfrinu í dag. Ástæðan er einfaldlega sú að meirihluti þjóðarinnar vill að kjör láglaunahópa verði leiðrétt og krafan um að vinna eigi að skapa velsæld fyrir verkafólk en ekki forstjóra og fjármagnseigendur á vaxandi skilningi að mæta í þjóðfélaginu. Þó er enn langt í land að fjölmiðlar axli sína ábyrgð á að fréttaflutningur sé hlutlægur. Tildæmis er auðhyggjan innan fréttastofu RÚV enn gegnumgangandi í allri fréttaumfjöllun þeirrar hlutdrægu fréttastofu. Öllu er þar snúið uppí krónur og aura eins og það sé sá eini mælikvarði sem skiptir máli.
Nú er til dæmis ekki til sú frétt af kjarabaráttu verkalýðsins, að ekki sé klykkt út með að þjóðarbúið þoli ekki launahækkanir og verkföll muni skaða þjóðarbúið! Og á þessu klifa fréttamenn þangað til fólk fer að trúa því að verkföll séu tilræði gegn þjóðinni. Sem hver hugsandi maður veit að er bull og þvæla. SA er ekki þjóðin.Og eigendur Bláa lónsins eru ekki þjóðin. Svo hættið að rugla fólk með tilreiddum fréttaflutningi úr smiðju stóratvinnurekenda!
Undan farið gullaldartímabil í ferðaþjónustunni hefur vissulega skapað miklar tekjur fyrir þjóðarbúið en við skulum ekki rugla því saman við þann gríðarlega ábata sem þeir sem fjárfest hafa í ferðaþjónustu, hafa rakað saman. Og þegar þeir senda út skilaboð til fjölmiðla að verkföll skaði þjóðarbúið þá eru þeir að segja að gróði þeirra sjálfra muni minnka. Og um það snýst kjarabaráttan, að eigendur atvinnutækjanna skipti gróðanum réttlátlega á milli sín og verkalýðsins sem skapar hann. Þetta ætti ekki að vefjast fyrir neinum að skilja. Á meðan eigendur hótela og gistihúsa, veitingastaða og ferðaleiðsögufyrirtækja eru að greiða sjálfum sér þúsundir milljarða í arð út úr þessum fyrirtækjum þá eru verkföll fyllilega réttmæt og þjóðhagslega nauðsynleg. Að hér sé við lýði hugtak eins og arðsemiskrafa sem stjórnar allri umræðu er til marks um auðhyggjuna sem hefur grafið um sig. En arðsemi og hagvöxtur eru sammantvinnuð hugtök í biblíu þeirra sem trúa á óendanlegan hagvöxt. En verkafólk borðar ekki hagvöxt. Verkafólk þarf laun til að lifa.Og ef hagstjórnin klikkar og húsnæðiskostnaður eykst þá þurfa launin að dekka það. Svo stjórnvöld sem álíta að kjaradeilur komi þeim ekkert við ættu að hugsa það upp á nýtt.
Stjórnvöld gætu stemmt stigu við óhóflegum arðgreiðslum. Stjórnvöld geta stemmt stigu við óhóflegum leigugreiðslum og stjórnvöld eiga að nota skattkerfið til tekju og eignajöfnunar.
Eigendur Íslandshótela og Bláa Lónsins gætu greitt mannsæmandi laun með því að lækka arðgreiðslur. Ef þeir gera það ekki þá geta stjórnvöld hækkað skatta á fyrirtækin og sett arðgreiðslur í 35% skattþrep. Hvað réttlæti er í því að ferðaþjónusta sé ennþá í 11% virðisaukaþrepi? Halda menn að ferðamaður sem er rukkaður um 70 þúsund fyrir rúm á hóteli sé eitthvað að velta því fyrir sér hvort hótelið greiði 11 eða 23% í virðisauka af þeirri okurupphæð? Nei mismunurinn er hreinn gróði sem ferðaþjónustan notar sem gulrót fyrir fjárfesta eins og lífeyrissjóði. Og nú hef ég nefnt fílinn í stofunni. Lífeyrissjóðirnir eru að eyðileggja hagkerfið. Þeir eru alltof stórir og fjárfestingar þeirra hafa skapað þann eignaójöfnuð sem hefur verið að aukast síðustu 10 ár.
Þegar allt þetta er skoðað þá er ekki spurning hvort gengið verði að launakröfum verkalýðshreyfingarinnar heldur hversu fljótt það verður gert. En alæmenningur skal hafa það algerlega á hreinu að verkföll eru fyrst og fremst til þess að kalla fram réttláta skiptingu hagnaðar og minni arðsemi eigenda. Það er helvítis auðhyggjan sem skaðar þjóðfélagið mest.
8.3.2019 | 12:10
Sjómannafélag Íslands ehf.
Stjórn Sjómannafélags Íslands er ólöglega kjörin en situr samt í skjóli eigin túlkana á lögum sem dæmd voru ólögleg. Félag sem stýrt er af fámennri klíku félagsmanna og sem neitar að leyfa almennum félagsmönnum að taka ákvarðanir um hverjum þeir vilja fela umboð til forystu, er ekkert annað en ofbeldisseggir og ribbaldar sem fjarlægja verður með atbeina Félagsdóms.
Bergur Þorkelsson hefur ekkert umboð til að bjóða Heiðveigu Maríu einhverjar dúsur. Hann ætti að kynna sér lög félagsins og sérstaklega greinina sem þeir notuðu til að reka Heiðveigu úr félaginu
-----------------------------------------------------------------------------------------
10. gr.
a) Ef félagsmaður er sakaður um brot á lögum félagsins skal málið tekið fyrir á stjórnarfundi sem ákveður með einföldum meirihluta atkvæða hvort veita skuli áminningu eða víkja félagsmanni úr félaginu. Skjóta má þeim úrskurði til trúnaðarmannaráðsfundar.
b) Hver sá maður er brottrækur úr félaginu, í lengri eða skemmri tíma, sem að áliti trúnaðarmannaráðsfundar hefur unnið gegn hagsmunum félagsins, valdið því tjóni eða gert því eitthvað til vansa. Þetta á einnig við um þá sem ekki hlíta lögum þess eftir gefna áminningu.
c) Hafi félagsmanni verið vikið úr félaginu á hann ekki afturkvæmt í félagið nema inntökubeiðni hans sé samþykkt á lögmætum trúnaðarmannaráðsfundi.
---------------------------------------------------------------------------------------
Eftir dóm Félagsdóms verður ekki betur séð en gera verði breytingar á lögum félagsins og bera þær undir samþykki allra félaga. Þessa endurskoðun verður að framkvæma án aðkomu núverandi stjórnar og trúnaðarráðs. Þessir tindátar sem nú stjórna hafa búið þannig um hnútana að þeir eru nær einráðir um allar ákvarðanir og eina aðkoma hins venjulega félagsmanns er að greiða félagsgjald.
þessir klíkuvinir hafa meira að segja bætt inní lög félagsins heimild fyrir aðra en sjómenn til þess að vera í félaginu og ráðskast með fjármuni þess!
-----------------------------------------------------------------------------------
4. gr.
Sá sem greiðir félagsgjald telst félagsmaður og hefur óskað eftir að vera félagi.
Félagsmenn geta einnig orðið þeir sem sinna málefnum félagsins og aðrir sem stjórnin metur hæfa hverju sinni.
Verður að teljast afar sérstakt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.3.2019 | 10:46
Hræsnari gerist skinhelgur
Bjarni Benediktsson og aðrir úr sjálftökuliði ríkisstjórnar og þingmanna, skýla sér gjarnan bakvið kjararáð þegar þeir svara réttmætri gagnrýni á ofurlaunahækkanir ríkisstafsmanna undanfarin ár. En hverjir bera ábyrgð á því að kjararáð var látið hafa þennan eitraða bikar? Var það ekki þessi sami Bjarni Benediktsson sem nú þykist enga ábyrgð bera. Og hver skyldi hafa mannað stól formanns kjararáðs annar en þessi sami Bjarni! Og til að kóróna skömmina þá skipaði hann persónulegan vin sinn og félaga til margra ára, til að ákveða eigin laun. Jónas Guðmundsson er húskarl Bjarna og dekkar armslengdina , nú sem formaður stjórnar Landsvirkjunar.
Bjarni Benediktsson er narcissisti sem ekki ætti að vera á Alþingi hvað þá í sæti fjármálaráðherra. Narcissistar hugsa ekki um haga annarra. Þeir hugsa bara um eigin hag og eru svo fullir aðdáunar á eigin verkum að þeir bregðast reiðir við allri gagnrýni. Orðaskak Bjarna og Jóns Þórs staðfestir þessa greiningu.
Og að endingu get ég ekki annað en mótmælt þeirri túlkun sjálftökuelítunnar að launabilið sem kjararáð bjó til, hafi sjálfkrafa verið leiðrétt með frystingu þeirra hækkana út 2018. Prósentuhækkanir ofurlauna er aldrei hægt að jafna saman við prósentuhækkanir lág og meðal-launa. Þingmenn fengu 400 þúsund króna hækkun á mánaðarlaunum. Það er sú hækkun sem við eigum að miða við. Ekki 40%.
Þegar allir hafa fengið 400 þúsund króna leiðréttingu eins og sjálftökuliðið þá er komið jafnvægi. Fyrr ekki Bjarni Benediktsson!
Sakaði fjármálaráðherra um hræsni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.3.2019 | 09:55
Þess vegna er verkfall
Úr skýrslu Vinnueftirlitsins:
Of mikið líkamlegt álag
Niðurstöður könnunar meðal starfsfólks sýndu að langflestir sem vinna við hótelþrif hér á landi eru konur af erlendum uppruna. Meirihlutinn er Pólverjar. Íslenska er aðeins tungumál tæplega 9% starfsmanna. Starfsaldur er skammur, eða rúmlega tvö ár á vinnustað.
Verulega skorti á að skipulegt vinnuverndarstarf í forvarnarskyni færi fram á hótelunum því í tæplega 70% tilvika var engin eða aðeins ófullnægjandi áætlun um öryggi og heilbrigði fyrir vinnustaðinn.
Tæp 68% hótelþerna sögðu samskipti við næsta yfirmann valda þeim streitu og pólskir starfsmenn töldu samskipti á vinnustaðnum verri en íslenskumælandi samstarfsfólk.
Kynferðisleg áreitni í vinnu
Rúmlega 2% hótelþerna telja að heilsu þeirra eða öryggi stafi hætta af ofbeldi eða hótunum í vinnunni. Rannsóknir sýna að erlent verkafólk er líklegra til að upplifa hótanir og ofbeldi á vinnustað auk þess sem það er líklegra til að verða fyrir brotum á réttindum. Rúm 3% segjast hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustaðnum
Hvað er þetta annað en lýsing á nútíma þrælahaldi? Mesta furða að starfsaldur skuli þó ná 2 árum. Á sama tíma eru forráðamenn hótelþrælabúða með stórar yfirlýsingar um þann skaða sem verkföll þrælanna valda þeim. Þeir hafa aldrei leitt hugann að þeim skaða sem starfsfólk hefur orðið fyrir.
Áfram Sólveig Anna!
Slæmar aðstæður hótelþerna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.3.2019 | 14:21
1-0 fyrir Eflingu
Efling hafði betur gegn samtökum atvinnulífsins fyrir Félagsdómi í dag. Þessi dómur var gríðarlega mikilvægur og setur fordæmi fyrir áframhaldi á baráttu Sólveigar Önnu fyrir bættum kjörum láglaunastétta á Íslandi. Í fyrsta sinn í meira en 30 ár eiga nú jaðarhópar verkakvenna málsvara innan verkalýðshreyfingarinnar, sem er virkilega annt um sína skjólstæðinga og er tilbúin að beita óhefðbundnum aðferðum til að knýja fram viðurkenningu á því að þessi láglaunastétt hafi í raun verið notuð af íslenzkum atvinnurekendum í fjölda ára án þess að hlusta eftir rödd þeirra sjálfra.
Atvinnukúgun eins og sú sem SA hefur beitt er fyrirlitleg á allan máta. Þeir sem ráða yfir vinnuafli bera mikla ábyrgð gagnvart vinnuaflinu en ekki síður samfélaginu. Þeim ber skylda til að tryggja mannréttindi fólksins sem þeir ráða í vinnu oft með vinnusamningi sem gengur í bága við opinbera samninga á vinnumarkaði. Ég hef oftar en einu sinni tekið útlendinga tali sem hafa ráðið sig í skammtímastörf við þjónustu. Allir sögðust fá borgað langt undir töxtum. Ein tékknesk stúlka sem vann sumarstarf á veitingastað á Stokkseyri í fyrrasumar fékk ekki greidda yfirvinnu eða vaktaálag. Heldur hafði henni verið boðin jafnaðarlaun upp á 1.300 krónur fyrir tímann. Byrjunarlaun samkvæmt taxta Eflingar var í mai 2015; Dagvinna kr.1363 og yfirvinna 2435. Þessi erlendi starfsmaður var þannig hlunnfarinn um stórar fjárhæðir og alls óvíst hvort vinnuveitandinn hafi staðið skil á afdregnum gjöldum. Enda er ekkert eftirlit á svæðinu með því að félagsgjöld, orlof eða skattar séu yfir höfuð greidd vegna tímabundinna ráðningasamninga sem gilda bara í fáeinar vikur.
Af þessu sést að barátta Eflingar er löngu tímabær og nauðsynleg. Og þeir sem gera lítið úr starfi Sólveigar Önnu eru að gera lítið úr íslensku atvinnulífi. Vilhjálmur Birgis hefur reynt en honum mistókst hrapallega enda er hann þessi týpíski kallpungur, sem finnst störf misfín. Honum hefur þess vegna gengið vel að semja fyrir hálaunaverkamenn á Grundartanga en miður fyrir fiskverkakonur á Akranesi. Fyrir Vilhjálm og hina karlfauskana í verkalýðshreyfingunni er Sólveig Anna og Drífa Snædal sannkölluð vítamínsprauta fyrir hreyfingu sem var að koðna niður í gagnvirkri hagsmunagæslu með atvinnurekendum í ávöxtun lífeyrissjóðanna. Þannig fór fyrir Rafiðnaðarsambandinu og þannig fór fyrir Sjómannasambandinu og Starfsgreinasambandinu.
1-0 er góður sigur á drambsömum viðsemjendum Eflingar. En þetta er bara forspilið. Nú hefst orrustan.
Verkfall Eflingar dæmt lögmætt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.3.2019 | 11:24
Hræðslan við sósialisma
Það er ekki bara trúðurinn Trump sem hótar fólki með kommúnistagrýlunni. Við heyrum þetta einnig hér í opinberri umræðu. En samt eingöngu hjá köllum sem komnir eru yfir miðjan aldur og sem tilheyra hræðslubandalagi hægri manna. Þessi hræðsluáróður felst í því að kommúnistar eða sósialistar séu vont fólk sem vilji bara eyðileggja þetta frábæra þjóðfélagsmódel sem þó er alfarið byggt upp á arðráni, misskiptingu, óréttlæti og ójöfnuði innan kerfa sem búin hafa verið til af hagsmunaöflum fyrir hagsmunaöfl. Þannig er okkar módel að samfélagi algerlega einstakt í heiminum. Hvergi þrífst jafn mikil almenn spilling og meðal íslendinga. Spillingin er inngróin og hún viðheldur sér sjálf. Þetta sjáum við kristallast í nær óbreyttu fylgi stjórnmálaflokka. En þetta módel er viðkvæmt. Hér er að myndast viðspyrna sem gæti kollvarpað þessu spillta kerfi. Því grundvöllur hvers þjóðfélags felst í vinnumarkaðsmódelinu. Og hér hafa forystumenn stærstu verkalýðsfélaganna ákveðið að spyrna við fæti og stokka upp í kerfunum. Það er óumdeilt að verkalýðshreyfingin hefur veikst gríðarlega undanfarna 3 áratugi. Sumpart vegna þess að flugumenn djúpríkisins náðu völdum í forystu ASÍ en ekki síður vegna óundirbúinna afleiðinga af EES samningnum sem leyfði frjálsa för verkalýðs. Á Íslandi spruttu upp fyrirtæki sem sögðust vera vinnumiðlanir en voru ekkert nema nútímaþrælahaldarar Afleiðingin varð gríðarleg. Hér varð skyndilega mikill uppgangur og hagvöxtur sem var í grunninn drifinn af þessu erlenda vinnuafli sem flutt var inn í skjóli EES samningsins. Meðan allt lék í lyndi og næg atvinna var fyrir alla, þá gekk þetta á yfirborðinu, En svo þegar niðursveiflurnar urðu þá voru fyrstu fórnarlömbin alltaf erlenda vinnuaflið sem rekið var á guð og gaddinn,svikið um laun og uppihald af þessum glæpa vinnumiðlunum sem leyft var að starfa hér án eftirlits.
Á sama tíma reyndu stjórnvöld og aðilar þessa gallaða vinnumarkaðsmódels að sveipa það hulu hins norræna velferðarkerfis með því að flytja ábyrgðina á hagstjórninni yfir á verkalýðsforystuna. Hagfræðingar voru fengnir til að reikna út svigrúm fyrir launahækkanir. Ekki var spurt að því hvað kostaði að lifa.
Og nú erum við á þessum stað. Vinnumarkaðsmódel í molum. Stjórnvöld sem skilja ekki vandann og herskáa verkalýðsforystu sem krefst kerfisbreytinga. Rödd hræðsluáróðurspenna er orðin hjáróma. Flestir vilja uppstokkun en tengja það ekki við sósialisma eða kommúnisma. Bara ósköp venjulega skynsemi- og réttlætiskröfu, um að hér verði það lagað sem laga þarf og ekkert helvítis kjaftæði. Þeir sem ekki skilja það verða að hætta að þvælast fyrir.
Varar við martröð sósíalismans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.3.2019 | 21:24
Kona líttu þér nær
Katrín og Bjarni hafa fundið sökudólginn. Hann er launahækkanir til bankastjóra ríkisbankanna. Þau halda að þessar hækkanir bankastjóranna séu eina ástæðan fyrir þeirri ólgu sem nú er á vinnumarkaðinum. Þvílík afneitun segi ég nú bara. Launahækkanir og sjálftaka alþingismanna vega miklu þyngra í þeirri óánægju sem nú ólgar og vellur.
Stjórnvöld eru ráðþrota en á sama tíma þiggja þau ekki ráðgjöf skynsamra manna og breyta öllum úrskurðum Kjararáðs síðustu 2 ár. Fyrst þau vita að bankastjóralaunin eru of há þá ætti að vera auðvelt fyrir Katrínu að semja við Bjarna um rétt laun embættismanna, forstjóra, þingmanna, biskups og annarra stertimenna. Hvað um að festa hæstu laun í 2 milljónum á mánuði og laun þingmanna verði ákveðin 1 milljón og allar sporslur afnumdar. Flestir þingmenn voru langt undir þeirri upphæð áður en þeir unnu í kosningalotteríinu svo þeir mega vel við una.
Trúnaðarbrestur milli Katrínar og bankaráðanna breytir engu um að bankaráðin eru sjálfstæð og taka ekki við skipunum frá ráðherrum. Ég er viss um að glottið á Friðriki Sophussyni þurrkaðist ekkert af honum við tilmælin frá ríkisstjórninni.
Svo Katrín skal bara hunskast til að nota vald sitt sem forsætisráðherra og láta til sín taka. Dúkkustælar duga ekki þegar vinnudeilur eru við það að lama þjóðfélagið.
Eins gott að fólk byrgi sig upp, af dósamat og pakkasúpum. Því þetta verður greinilega langt vor.
Trúnaðarbrestur verði tilmæli hunsuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.3.2019 | 15:49
Fósturdráp Svandísar
Þungunarrof er nýyrði til að breiða yfir það sem raunverulega felst í fóstureyðingu.
Vísan er óundirbúin fyrirspurn til Svandísar Svavarsdóttur í tilefni af þungunarrofsfrumvarpinu hennar
Hvers vegna mega hér mæðurnar deyða
"meinvörp" sem eru ekki fædd?
Heilbrigðisráðherra gerði mér greiða
ef gengist við drápunum alveg óhrædd.
Tækifærisvísur | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.3.2019 | 15:20
Þar sem mávarnir skíta
Kristján Þór Júlíusson keppist nú við, að klára skítverkin, sem flokkurinn faldi honum. Greinilegt er, að ráðherrann telur að farið sé að styttast í veru hans á ráðherrastóli, því hann afrekaði tvennt í sömu vikunni. Í fyrsta lagi að breyta reglugerð fyrir Kristján Loftsson og svo í öðru lagi að láta að vilja kaupmannaklíkunnar í flokknum og leyfa innflutning á ferskum kjötvörum frá Evrópusambandinu.
En Kristján Þór er ráðherra, sem skilur ekki alveg vald sitt. Hann heldur að sérhagsmunir eigi að ráða, þegar almannahagsmunir krefjast þess, að stjórnvöld taki af skarið. Þess vegna er svar hans að skipa samráðshópa hagsmunaaðila. Hagsmunaaðila sem eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Ekki hagsmunaaðila sem eru að tala fyrir matvælaöryggi eða lýðheilsu eða umhverfisvernd.
Þess vegna finnst Kristjáni algert aukaatriði hvort hvalskurður fari fram í lokuðu rými eða undir opnum himni, þar sem mávarnir skíta í nýskorin hvalrengin í kappi við hvalskurðarmennina, sem eru að koma kjötinu í skjól. Kristján Loftsson vill gera hlutina með sínum hætti. Að vísu hefur hann kvartað undan ágengni fólks sem kemur í Hvalfjörðinn til að fylgjast með starfsstöðinni þar. En hann vill ekki byggja yfir planið heldur vill hann reka forvitið fólk langt útfyrir sitt umráðasvæði. Slík er frekjan í þessum fyrrum máttarstólpa þjóðfélagsins. Því það var hann svo sannarlega. En því miður fyrir Kristján Loftsson, þá breyttist þjóðfélagið. Nú eru hvalveiðar á svörtum lista umhverfissinna og aðeins tímaspursmál hvenær Ísland bannar þær alfarið.
Varðandi hina umdeildu ákvörðun ráðherrans um að leyfa innflutning á ferskum afurðum þá finnst mér rök vísindamanna vega þyngra en buddan í þessu máli og hefði kosið að ráðherrann hefði dregið lappirnar eins og hann gerði allan tímann sem hann var heilbrigðisráðherra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2019 | 14:16
Bjarni skrifar bréf
Bréf fjármálaráðherra til Bankasýslunnar var óvænt útspil. En algerlega tilgangslaust á þessum tímapunkti málsins. Efni bréfsins varða ákvarðanir bankaráða ríkisbankanna, sem teknar voru fyrir meira en ári síðan og hafa verið á allra vitorði síðan. Það sem við vissum hins vegar ekki var, að Benedikt Jóhannessen frændi Bjarna, hafði sýnt þann manndóm og kjark, að senda tilmæli til undirstofnana ráðuneytisins, sem hann stýrði á þeim tíma og farið fram á, að menn stilltu sig í græðginni. Á það var ekki hlustað, hvorki af stjórnum bankanna eða á fundum djúpríkisins. Þegar Benedikt svo upplýsir um þetta bréf sem Bjarni er búinn að vita af allan tímann, þá sjá pr ráðgjafar Sjálfstæðisflokksins að þetta lítur ekkert sérstaklega vel út fyrir Bjarna og ríkisstjórnina. Það er þá sem hugmyndin að bréfinu til Bankasýslunnar fæðist.
Bréfið er ómerkilegt PR stunt. Og alls ekki til þess fallið að koma á samtali við verkalýðsforystuna. Ekki frekar en viðbrögð ríkisstjórnarinnar vegna gagnrýni á Kjararáð. Það er alveg sama hve oft Katrín Jakobsdóttir endur tekur þvæluna sína um að;
stjórnvöld hafi verið að taka á launamálum hjá hinu opinbera, til dæmis með því að leggja niður kjararáð. Tryggja þurfi að launaákvarðanir stjórnenda hjá hinu opinbera séu teknar með gegnsæjum og fyrirsjáanlegum hætti.
Hvernig í ósköpunum er hægt að halda því fram að stjórnvöld hafi verið að taka á launamálum hins opinbera til lækkunar á óábyrgum úrskurðum Kjararáðs, sem voru líka í andstöðu við heimildir Kjararáðs í lögum? Þessa möntru sína endurtekur Katrín trekk í trekk og aldrei gera fjölmiðlamenn athugasemdir. Hverju breytir að leggja Kjararáð niður ef ekki er meiningin að endurskoða ákvarðanir þess?
Úrskurðir Kjararáðs voru birtir í samráði við Bjarna Ben. Bæði efni þeirra og tímasetning birtinga. Formaðurinn er sérstakur vinur fjármálaráðherra og auðvitað ræddi Jónas við Bjarna um þessa úrskurði. En hvers vegna er ekki hægt að birta fundargerðir Kjararáðs? Er þar eitthvað sem almenningur má ekki vita um....
Launaruðningur hins opinbera kallar á að hér verði settur á 80% hátekjuskattur á laun yfir 2 milljónir. Einnig verði sett í lög að laun á vinnumarkaði megi aðeins hækka um sömu krónutölu og semst um til hækkunar á lægsta mögulega taxta.
Ójöfnuðinn sem felst í prósentuhækkunum verður að stoppa með lögum. Það er ekki hægt öðruvísi. Kannski að Bjarni skrifi nýtt bréf og stíli það á forseta ASÍ, þar sem hann felst á kröfur Verkalýðshreyfingarinnar um breytingar á skattaumhverfinu. Það er bréfið sem beðið er eftir. Hitt bréfið hefði alveg mátt týnast í póstinum enda þarf hann ekkert að senda djúpríkinu opinber bréf. Þeir eru alltaf að hittast hvort sem er.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)