Hverjir eru fjandvinir sjávarútvegs?

Hagfræðingur LÍÚ til margra ára, Sveinn Hjörtur Hjartarson, skrifar skrítinn pistil í Fréttablaðið í dag þar sem hann dylgjar um þá sem vilja breyta fiskveiðistjórnarlögunum og kallar þá fjandvini. Í orðaflaumi hagfræðingsins, má samt þekkja að hann er m.a. að gagnrýna alþingismanninn Helga Hjörvar sem hefur verið tilnefndur af Samfylkingunni til að vera Jóni Bjarnasyni til ráðuneytis við samningu nýrra fiskveiðistjórnarlaga. Ef marka má þessa grein hagfræðingsins, þá er LÍÚ nokkuð áhyggjufullt yfir gangi mála enda í fyrsta skipti sem lögum um fiskveiðar er breytt án þeirra samþykkis. Það eru nýmæli.

En er ekki dálítið alvarlegt að kalla alþingismenn upp til hópa fjandvini sjávarútvegs? Af hverju er LÍÚ svona umhugað um að halda í kvótakerfið sem stjórnkerfi fiskveiða þótt búið sé að sýna fram á að markmið kerfisins geti ekki náðst? Kvótakerfi sem stýrikerfi hafa aðeins einn tilgang og hann er sá að vernda þá sem nýta kvótana. Og þar með halda öllum öðrum fyrir utan. Kvótakerfi er ekki til að auka afrakstur fiskveiða. Enda er dapurleg niðurstaða 20 ára tilraunastarfsemi með kvótakerfi í fiskveiðum sú að of lítið er fiskað. Friðunin hefur sannarlega borið ávöxt en kerfið meinar mönnum að auka aflann því þá væri náttúrulega ekki lengur þörf fyrir kerfið. Ef eitthvað er að marka LÍÚ, þá þurfa þeir umfram aðra að leggjast í naflaskoðun á þessu kerfi og spyrja sig hvort ekki sé rétt að fram fari gagnrýnin umræða og endurskoðun á þeim rökum sem lágu til grundvallar því þegar kvótakerfinu var komið á og einnig rifja upp rök þeirra sem í áratug hafa gagnrýnt þetta sama kerfi. Ég hef til dæmis nýlega lesið tæplega 10 ára gamla grein Valdemars Jóhannessonar, sem birtist í Morgunblaðinu þar sem Valdemar fer yfir helstu galla kvótakerfisins og framsalsins og bendir á kosti sóknarkerfisins. Valdimar segir:

Helstu almennir gallar kvóta- stýrðra fiskveiða

  • Ósveigjanleg kvótasetning. Þrátt fyrir hæpnar forsendur krefst kerfið að heildarkvótinn sé ákveðinn fyrirfram. Nóg þekking er alls ekki fyrir hendi. Of mikill heildarkvóti skaðar fiskistofna; of lítill skerðir aflatekjur.
  • Brottkast og rjómafleyting. Brottkast afla fylgir allri kvótastjórnun. Í aflamarkskerfi er hvati til að koma aðeins með verðmætasta fiskinn að landi. Svindlað yrði á mjög dýru veiðilöggukerfi með myndavélum í hvert skip.
  • Hliðartegundir ofveiddar eða hent. Kvótastjórnun veldur ofveiði fiskstofna sem eru utan kvóta. Þegar hliðarafli er kvótasettur er hvati kominn til brottkasts. Í kvótastjórnun eru báðir kostir slæmir.
  • Verðfall í hafi. Verðfall á fiskimarkaði á heimsiglingu gefur ástæðu til að henda jafnvel unnum afla fyrir borð til að fórna ekki verðmætum kvóta fyrir verðlítinn fisk.
  • Kvótasvindl. Mikill hvati er til að svindla á kvótakerfinu enda gert í stórum stíl.
  • Léleg nýting verksmiðjutogara. Vinnsluskip nýta illa veiddan afla. Kvótinn er miðaður við landaðan afla. Ekki borgar sig að leggja kostnað í nýtingu þegar vel veiðist. Í landvinnslu skiptir nýtingin sköpum enda a.m.k. tvöfalt betri en í sjóvinnslu.
  • Of- eða vannýting miða. Kvótastjórnun beinir veiðunum þangað sem von er á verðmætasta fiskinum. Önnur mið eru vannýtt (kvótinn of dýr fyrir verðlítinn fisk) þó að nýting þeirra væri hag landsins fyrir bestu.
  • Skekkja í gögnum. Brottkast, kvótasvindl, misnýting fiskimiðanna og léleg nýting aflans í sjóvinnslu gefur vísindamönnum og fiskveiðistjórn rangar upplýsingar um veiðiálag og gerir mat á fiskstofnum og veiðiþoli erfitt.
  • Hrun fiskistofna. Kvótastjórnun hefur ekki byggt upp sterkari fiskistofna. Þvert á móti.. Virðist valda hruni eftir um áratug. Hér hafa botnfiskveiðar hrunið um 40%. Fiskur geymist ekki í sjónum. Fiskar, sjávarspendýr og fuglar taka 90%, fiskveiðarnar víðast um 10%
  • Ófullnægjandi vísindi. Lífið í hafinu og víðáttur þess eru flóknara en vísindin ráða nú við. Þess vegna er ókleift að stjórna veiðunum á grundvelli þeirra. LÍÚ notar Hafró sem valdatæki.

Helstu gallar framseljanlegs kvóta

  • Þjóðfélagslegt ranglæti. Þjóðin er á móti kvótakerfinu enda mismunað til að nýta sameignina. Löggjafar- og framkvæmdavaldið hunsuðu dóm Hæstaréttar um að þetta sé andstætt stjórnarskránni.
  • Samsöfnun kvóta. Framseljanlegur kvóti færir matadorunum undirtökin í sjávarútveginum. Ókeypis kvótaúthlutun gaf forkot í samkeppninni um kvótakaup. Kvótinn safnast á færri hendur.
  • Byggðaröskun. Vegna einkaeignar á kvóta er unnt að svipta grundvelli undan heilu sjávarbggðunum.
  • Óverðskuldaður gróði. Þeir sem fengu ókeypis kvóta geta selt einkarétt til að nýta fiskimiðin fyrir milljarða króna.
  • Skuldasöfnun - verri lífskjör. Skuldasöfnun útgerðarinnar eykur erlendar skuldir. Þjóðin notar gjaldeyristekjur í vexti í stað vöru og þjónustu.
  • Nýliðun hindruð. Nýir menn geta trauðla unnið sig upp í sjávarútvegi. Ný sóknarfæri skapast síður þegar vantar ferska strauma.
  • Hagkvæmni einkarekstrar skerðist. Eigendur fiskiskipa sem sjálfir stýra skipum sínum fara betur með en jafnvel samviskusamir starfsmenn.
  • Verra fyrir vistkerfið. Tilhneiging eignakvótans til að nýta veiðiréttinn með stórum togveiðiskipum skapar verri kost fyrir vistkerfið en ef fiskurinn væri sótttur með minni skipum með kyrrstæðum veiðarfærum - á öngla, í netum eða gildrur. Olíunotkunin margfaldast.
  • Verra mannlíf. Flestir mundu kjósa að róa á minni veiðiskipum, trillum eða landróðrabátum, þó að tekjurnar væru minni en á stórum togurum, sem þær yrðu ekki með betra mannlífi og fjölskyldulífi.
  • Meiri erlendur kostnaður. Stórútgerð kostar margfalt hærri erlenda fjárfestingu á hvert starf en smábátaveiðar; í skipakosti, tækjum, veiðarfærum, rekstrarvörum og eldsneyti. Stórútgerð flytur störf tengd sjávarútvegi til annarra landa, í skipasmíðastöðvar, til tækjaframleiðenda og olíuframleiðsluríkja. Olíuverð er nú lágt miðað við það sem það getur orðið.
  • Erfitt að breyta til. Alvarlegur galli gjafakvótakerfis er hve erfitt er að fara úr því.
Umfjöllun Valdemars í heild er svo hér í þessu viðhengi, en ég sé ekki betur en allt sem Valdemar sagði fyrir 10 árum um galla kvótakerfisins og gallana á framsalinu hafi rætzt með mjög svo óheppilegum afleiðingum fyrir þjóðarbúið. Ég mæli með að Hjörtur Hjartar kynni sér þessa grein

Það skyldi þó ekki vera að hinir eiginlegu fjandvinir sjávarútvegs séu sjálfir stór-útgerðarmennirnir í LÍÚ ?

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Þetta er góð samantekt hjá þér, Jóhannes. Takk fyrir það.

Sævar Helgason, 11.2.2011 kl. 14:22

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Takk Sævar. Veik ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttue er að takast að klúðra þessu langstærsta hagsmunamáli þjóðarinnar með rangri forgangsröðun. Það er sorglegt

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 11.2.2011 kl. 21:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband