26.11.2011 | 16:39
Æi ekki Katrínu
Enn berast fréttir úr Ráðaleysi. Nú hefur verið ákveðið að setja á fót ráðherranefnd til aðstoðar Jóni Bjarnasyni, sem þykir of seinfær í samfloti VG og Samfylkingar yfir Kreppuá. Þetta þykja mér ill tíðindi. Þótt Jón sé til trafala þá er það ekki það versta hjá þessari sundurleitu hjörð sem hér er á ferð.
Og hvernig dettur mönnum til hugar að setja Katrínu Jakobsdóttur í nefnd sem á að breyta fiskveiðistjórnuninni hér til frambúðar! Hvað hefur Katrín lagt til málanna í þeim efnum á sínum pólitíska ferli? Reykjavíkurdaman með gráðu í afþreyingarbókmenntum og sýndarpólitík hefur lítið vit og enn minni skilning á mikilvægi íslensks sjávarútvegs fyrir áframhaldandi byggð í landinu. Ekki það að aðrir í þessu ráðherraliði séu hæfari, sem undirstrikar enn frekar þá helstefnu sem fylgt hefur verið undanfarin 20 ár af öllum fjórflokknum.
Ég vil sjá tekið á sjávarútvegsdeilunni á ábyrgan hátt og byrjað verði að svara þeirri spurningu hvort kvótakerfið og friðunin hafi skilað þjóðarbúinu þeim ávinningi sem lofað var. ( Og takið eftir að ég feitletra orðið þjóðarbúið. Ég er þreyttur á þessu rifrildi þar sem hagsmunaaðilar kaupa hagfræðinga til að blekkja stjórnmálamenn og telja þeim trú um að hagsmunir útgerðarmanna séu hinir sömu og hagsmunir þjóðarinnar). Þegar þeirri spurningu hefur verið svarað neitandi þá er komið að því sem allt þetta mál snýst um en það er framtíðarskipan fiskveiða á Íslandi og rétti hvers vinnandi manns til að róa til fiskjar án þess að gerast leiguliði sérvalinna kvótagreifa.
Hugtakið um auðlindarentuna hefur verið misnotað af pólitíkusum og hagfræðingum sem eru í þjónustu útgerðarmanna til að blekkja fólk til að samþykkja áframhaldandi kvótakerfi og áframhaldandi yfirráð kvótagreifa yfir öllum veiddum fiski á Íslandsmiðum um ókomin ár. Bullið í Ólínu og öðrum þingmönnum um nauðsyn þess að leggja hér á útgerðina auðlindaskatt er vanhugsað. Nær væri að beita virðisskattsheimildum til að innheimta þessa sjálfsögðu rentu. Af hverju ekki að taka til dæmis innskatt af hverju seldu kílói af fiski á markaði frekar en ákveðna lága krónutölu í formi auðlindagjalds? Fiskveiðar og vinnsla er eins og hver annar iðnaður og getur einhver nefnt mér annan iðnað þar sem hráefnið er ókeypis? Og með því að innheimta hráefnisgjald í formi innskatts eða virðisaukaskatts þá er tryggt að rekstrargrunnurinn skaðast ekki þótt verðfall verði á mörkuðum. Og til þess að setja nú ekki allt á hliðina með fullkomnu frelsi í veiðum þá mætti hugsa sér að gefa frjálsar veiðar á handfæri og línu innfjarða til að byrja með. Sú ráðstöfun ætti að duga til að mæta kröfunni um nýliðun og atvinnufrelsi. Þetta tvennt finnst mér fullkomin lausn á þeirri deilu sem nú er uppi milli ríkisstjórnarinnar og útgerðarinnar. Eða hefur Katrín Jakobsdóttir einhverjar aðrar hugmyndir?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.11.2011 | 15:01
Hin nýja stefna Samfylkingar
Samfylkingin hefur stefnuskrá sem hún fer ekki eftir. Samfylkingin var aðili að hrunstjórninni og bar á því hruni mikla ábyrgð. Hvernig núverandi forystumönnum Samfylkingarinnar tókst að sverja af sér alla vitneskju um það sem fram fór í aðdraganda hrunsins á sér aðeins eina skýringu og hún er sú að Ingibjörgu Sólrúnu var kennt um og hún sögð hafa ein borið alla ábyrgð ásamt Geir Haarde. Þetta dugði til að afla flokknum nægilegs fylgis til að ráða myndun stjórnar eftir kosningarnar vorið 2009.
Síðan eru liðin tvö og hálft ár og ýmislegt skýrst sem halda átti leyndu fyrir almenningi. Meðal annars um ábyrgð Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar sem plottuðu um það hvernig Geir Haarde skyldi einn bera alla ábyrgð á mistökum ríkisstjórnarinnar. Hvernig Alþingi afgreiddi þá tillögu er þessum alþingismönnum til ævarandi minnkunar og sérstaklega þeim Samfylkingarþingmönnum sem enn sitja á þingi , illu heilli og voru aðilar að hrunstjórninni.
Þetta var prologus en nú kemur meginefni þessa pistils, sem snýr að málflutningi talsmanna Samfylkingarinnar, þingmönnum, spunaköllum og óbreyttum bloggurum. Þessi háværi hópur hefur svarið af sér öll tengsl við gamla Alþýðuflokkinn og heldur nú uppi kröftugum áróðri í þágu auðs og alþjóðahyggju um leið og þeir gera lítið úr þjóðernishyggju og sjálftstæðiskennd. Þetta er hin nýja stefna Samfylkingarinnar. Uppgjafar- og aumingjastefna sem einkennist af undirgefni við allt sem útlenskt er. Og við þekkjum þessa sauði frá hinum höfrunum á því að þeir eiga það allir sameiginlegt að hafa barist fyrir því að ríkissjóður ábyrgðist Icesave skuldir Landsbankans, þeir eru allir einlægir hatursmenn forsetans og Jóns Bjarnasonar og nú síðast geta þeir ekki leynt vonbrigðum sínum yfir ákvörðun Ögmundar Jónassonar um að leyfa ekki sölu á landi til kínversks "fjárfestis"! Ákvörðun sem tekin var samkvæmt íslenskum lögum. Þetta er brjóstumkennanleg afstaða til pólitískra álitamála. Nýja Samfylkingarliðið heldur að hægt sé að sækja lífsgæði til erlendra ríkja í formi lágra vaxta og stöðugs gengis. Þetta fólk hefur gefist upp!
Auðvitað hef ég skilning á því að erfitt sé að moka eigin flór, eins og fjórflokkurinn þarf svo sannarlega að gera. En menn mega ekki fórna hverju sem er. Ríkisstjórninni hafa verið mislagðar hendur í alltof mörgum málum. Henni hefur ekki tekist að fá þjóðina með sér í stærstu málunum. Og þeir flokkar sem að henni standa eru að berjast fyrir eigin framtíð. Til þess verða menn að sína árangur. Og lausnarorðið virðist vera hagvöxtur og erlend fjárfesting. Við heyrum þessi lausnarorð margtuggin og endurtekin af spuna- og áróðursliðinu í hvert skipti sem það skrifar greinar eða kemur fram í fréttum. En samt læðist að mér grunur um, að fæstir skilji hvað þeir eru að tala um og meira að segja hagfræðingar og aðrir spámenn virðast ofmeta þátt erlends fjármagns í hagvaxtarlíkaninu. Á meðan allir bankar eru fullir af íslenzkum peningum þá er minni þörf á erlendu fjármagni. Það hljóta allir að sjá. Og hvers vegna ættu útlendingar að vilja fjárfesta hér á meðan íslenskir krónueigendur bíða bara eftir að komast erlendis með sínar krónur og fjárfesta í alvöru mynt! Eina skýringin er sú að ábatinn sé meiri af því að koma en sem nemur tapinu af rangt skráðu gengi. Álrisarnir og stóriðjufyrirtækin hafa nýtt sér þetta og Ross Beatty græddi vel á fávísum sveitastjórnarmönnum í Reykjanesbæ. Á sama hátt ætlaði Nupo auðvitað að græða á sinni fjárfestingu. Halda menn að einhver gæska eða velvilji ráði hjá fjárfestum? Ríkisstjórnin og sérstaklega Samfylkingin verður að ná árangri, en ekki með því að hengja þá sem benda á mistökin sem þau eru að gera. Og ekki með því að ráðast á forsetann fyrir það eitt að hafa tekið til varna fyrir íslenzkan almúga þegar allir aðrir brugðust! Íslendingar eru ekki alþjóðasinnar og Norðlendingar þurfa ekki kínverska fjárfesta til að bæta lífskjörin.
Ferðaþjónustan er sjálfbær og hún þarfnast ekki 20 milljarða fjáfestingar. Ferðamenn munu ekki koma til Íslands til að sjá kínverskt Tíbet með kínversku starfsfólki. Ferðafólk kemur til að sjá íslenska frumbyggja í sínu náttúrulega umhverfi. Þess vegna þarf að styrkja íslenskan landbúnað og sjávarútveg í Norðurþingi. Leyfa frjálsar veiðar og stuðla að miklu meiri vinnslu á sjávaraflanum hér heima. Hver hefur gaman að koma til deyjandi staða eins og Raufarhafnar í dag? Ég var svo heppinn að upplifa síðustu daga síldarstemingarinnar á Raufarhöfn og það er sú stemning sem Siglfirðingar hafa endurvakið til að auka ferðamanna streymið til bæjarins. Kristján Möller og aðrir stóriðjubófar og alþjóðasinnar innan Samfylkingarinnar þurfa að draga sig í hlé. Þeirra lausnir henta ekki því þjóðfélagi og þjóðfélagsmynstri sem reynst hefur okkur bezt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2011 | 13:45
Ögmundur með allt á hreinu
Það er ástæða til að hrósa Ögmundi Jónassyni fyrir að sinna starfi sínu í samræmi við lög og reglur og í þágu þjóðarinnar. Það er ekki sjálfgefið, eins og við höfum orðið vitni að í gegnum tíðina. Ögmundur hefði getað látið undan þrýstingi frá Samfylkingarþingmönnum og ráðherrum og komist upp með það í nafni ráðherraræðisins. En sem betur fer áttaði hann sig á því hversu alvarleg atlagan var að sjálfstæði Íslands og byggði úrskurð sinn á langtímahagsmunum þeirra sem þetta land munu byggja en ekki skammtíma gróðasjónarmiðum landsölufólks. Næsta skref ráðherrans hlýtur nú að vera að girða fyrir allar frekari undanþágur í framtíðinni og afnema þessa heimild ráðherra í eitt skipti fyrir öll. Það er ekki ásættanlegt að slíkt vald sé í hendi eins einstaklings. Alþingi Íslendinga ber skylda til að axla sína ábyrgð á stjórn landsins með fullnægjandi lagasetningu án þeirra reglugerða- og geðþóttaheimilda til ráðherra, sem hefur orðið eins konar regla í lagasetningargerðinni en ekki undantekning. Ef hér hefði verið stunduð fagleg lagasetning þá þyrftum við ekki að sækja ráðherra til saka vegna afglapa í starfi. Við þurfum ekki að innleiða EES reglurnar án fyrirvara.
http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27386
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.11.2011 | 17:00
Björgvin G. alltaf jafn hissa

Fyrrverandi hrunráðherrann Björgvin G. Sigurðsson er ennþá úti á túni. Frægastur er hann fyrir að hafa verið ráðherra án ráðuneytis þar sem honum var ekki treyst fyrir trúnaðarupplýsingum um íslenskt viðskiptalíf. Um þá pínlegu reynslu skrifaði hann bók, sem enginn nennir að lesa.
Eftir að Björgvin snéri aftur til starfa á Alþingi, í skjóli Össurar og Jóhönnu, þá hefur ferill hans einkennst af upphlaupum kjördæmapotarans, sem er að reyna að afla sér vinsælda. Lýðskrum eins og Björgvin og fleiri þingmenn Suðurlandskjördæmis eru þekktir af, skilar samt engu. Allt blaðrið sem frá þeim hefur komið varðandi HS Orku eða álversframkvæmdir í Helguvík hefur engin áhrif haft. Það eru aðrir sem ráða för. Eins er með siglingar Herjólfs í Landeyjarhöfn. Engum dettur í hug að aðkoma þingmanna kjördæmisins skipti neinu máli. Nægir að benda á auglýsingu Hrekkjalómafélagsins í haust þar sem auglýst var eftir þingmönnum kjördæmisins á gamansömum nótum.
Upp úr göngum bárust svo fréttir af fyrirhugaðri lokun Réttargæsludeildarinnar á Sogni. Þetta kom Björgvini G. mjög á óvart og tilkynnti hann landsmönnum ábúðarfullur að þessa ákvörðun yrði að endurskoða því atvinnulíf Ölfuss væri í hættu. Enn talaði Björgvin fyrir daufum eyrum. Enginn tók mark á manninum enda var um faglega ákvörðun að ræða sem stjórnmálamenn eiga ekki að skipta sér af.
þrátt fyrir þessar endalausu hrakfarir þá er Björgvin ekki af baki dottinn. Núna ætlar hann að skipta sér af lýsingu á Reykjanesbraut! Eða eins og sagði á vef Víkurfrétta:
Fréttir þess efnis að Vegagerðin sé að slökkva á öðrum hverjum ljósastaur á Reykjanesbrautinni í sparnaðarskyni komu flatt upp á þingmenn Suðurkjördkjördæmis sem óskað hafa eftir fundi með Vegagerðinni um málið.
Þessar fregnir komu flatt upp á okkur og við erum ósátt við þennan gjörning, sagði Björgvin G Sigurðsson 1. þingmaður Suðurkjördæmis.
Ég óskaði eftir því að Vegagerðin rökstyddi þessa ákvörðun á fundi með okkur þingmönnum Suðurkjördæmis og við munum funda með þeim á þriðjudaginn. Þessa ákvörðun þarf að endurskoða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.11.2011 | 14:44
Limrur um Davíð Þór og Stóru Systur
Sértu af klámhundakyni
og kætist með Davíð Jónssyni
Ei tjáir að neita
ef táli þær beita
með tilboð' í blekkingarskyni
Og þegar María Þrastar
þinn manndóm og kyngetu lastar
ei málsókn skalt hóta
ef konu vilt njóta
því hún bara flengir þig fastar
Limrur | Breytt 31.5.2013 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.11.2011 | 18:25
Að bæla minningarnar
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2011 | 17:24
Vigdís bregzt ekki
Enn einn gullmolinn af vörum Vigdísar Hauksdóttur, barst út á öldur ljósvakans áðan, frá útvarpi Sögu. En þar var Vigdís að ræða stjórnmálin við þau Arnþrúði og Pétur. Þegar svo verðtryggingin barst í tal, þá taldi Vigdís réttilega, að lífeyrissjóðakerfið bæri mestu ábyrgð á hversu erfitt væri að afnema verðtrygginguna, en sagði síðan "það verður bara að taka skynsemina úr sambandi og afnema verðtrygginguna þótt lífeyrissjóðirnir tapi"
Maður skilur svo sem hvað hún var að fara, en samt klaufalega að orði komist. Alþingismenn þurfa ekkert að taka skynsemina úr sambandi þótt þeir fari nú að huga meir að heildarhagsmunum þjóðarinnar frekar en sérhagsmunum auðvaldsins. Og þeir sem stýra lífeyrissjóðunum eru þetta alræmda auðvald hér á landi. Þótt svo sé látið í veðri vaka að sjóðirnir séu eign almennings þá vita flestir, að um raunverulega eign er ekki að ræða, heldur bara réttindi, sem má skerða eftir hentugleikum. Ef við ættum eitthvað í sjóðunum þá gætum við væntanlega ráðstafað þeirri eign eða jafnvel tekið hana út. En því fer fjarri. Okkur er skylt með lögum að borga okkar launatíund og gott betur í þessa hít, sem við megum svo ekki ráðstafa eins og öðrum peningalegum eignum. Í þessu liggur blekkingin og það er löngu orðið brýnt að leggja þetta kerfi niður og taka hér upp samræmdan lífeyrisrétt allra landsmanna. Þeir sem vilja, ættu svo að geta lagt fyrir sjálfir sinn eiginn viðbótarsparnað en það á að vera hverjum og einum í sjálfs vald sett.
Þessir 100 og eitthvað smákóngar, sem nú eru að nota lífeyrissjóðina í valdaskák viðskiptanna þarf að setja af. Við höfum ekkert með þá að gera.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2011 | 05:53
Það á ekki að bjarga þessum vitleysingum

![]() |
Strax þurfti að bjarga skyttum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.10.2011 | 17:01
Hér eru of margir lélegir hagfræðingar
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.10.2011 | 16:40
Átti einhver von á öðru?

![]() |
Neyðarlögin gilda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |