Forsjárhyggja eða fasismi?

Ég hef á undanförnum mánuðum oft gert að umræðuefni hér á blogginu mínu, vaxandi forsjárhyggju íslenskra stjórnmálamanna. Forsjárhyggju sem hefur það eina markmið að takmarka frelsi þegnanna án þess að sýnt hafi verið fram á að almannahagsmunir hafi krafist þess.  Tilgangurinn er alltaf  að auka völd stjórnmálamanna. Í þeim ríkjum þar sem þetta hefur gerst þá verða til alræðisríki þar sem ríki og stjórnmál sameinast í því sem oft er nefnt valdstjórn en er ekkert annað en Fasismi

Við erum á góðri leið með að verða fasistaríki. Alþingismenn kunna ekki með vald sitt að fara. þau sem þar sitja halda að þeirra hlutverk sé að stjórna með tilskipunum.  Bara af því þau geta það!  Við þurfum að losna við þetta fasistapakk. Boð og bönn búa yfirleitt til meiri vandamál en þeim er ætlað að koma í veg fyrir. Boð og bönn ala af sér lögbrot og ef boðin og bönnin eru óréttlát, þá grafa þau undan þjóðfélagsgerðinni og virðing fyrir lögum og reglum minnkar. Það leiðir svo aftur af sér að valdhafar beita lögreglu (og her) á þegnana og þegar það gerist er ferlið fullkomnað.Ríkið er orðið að fasistaríki með engum möguleika til lýðræðisumbóta á friðsamlegum nótum.  Mér finnst mikil hætta á að þetta gerist hér miðað við hvernig núverandi ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar fara með vald sitt. Fjölmiðlalögin,Sólbekkjabannið og tóbaksbannið er bara forsmekkurinn.


Eiður og Útvarp Saga

Á blogginu Molar og Málfar
á miðlana skotið er fast
svo fer allt brand í og bál þar
og brjálæðis Eiður fær kast

Hann Arnþrúði þykist ei þola
þótt hlusti í laum' hana á
Meðan fjallar um málfar og mola
meyna hann þráir að fá

En Arnþrúður þolir ei heldur
þvílíkan hallærisgaur
sem undir sé sökina seldur
að sníkja sér framfærsluaur


Mikilvægt að samræma reglur

Sorpflokkun og endurvinnsla er eitt brýnasta hagsmunamál nútíðar og framtíðar. Þessvegna þarf að móta samræmdar reglur fyrir öll sveitarfélög á landinu. Ekki er til dæmis gott að sveitarfélög noti mismunandi liti fyrir mismunandi tegund úrgangs. Hér í Reykjavík hefur blár litur verið notaður á gámunum fyrir flokkaðan plastúrgang frá heimilum. Þess vegna finnst mér skrítið af þessari nefnd að mæla með grænum lit. Sorptunnur fyrir almennt heimilissorp ættu að vera svartar og bláar fyrir flokkaðan plastúrgang. Aðeins ætti að bjóða húseigendum upp á svartar og bláar tunnur. Pappír er svo þungur að það er ekki hægt að leggja það á sorphirðufólk að tæma fullar tunnur af fréttablaðinu frá bakhúsum og út úr görðum, oft upp nokkrar tröppur. Fólk ætti áfram að sinna því að fara með pappír í flokkunargáma hver á sínu svæði og þeir ættu áfram að vera grænir. Það mætti líka hugsa sér að hafa grænar blaðatunnur víða á bersvæði og á gangstéttum þar sem auðvelt er að koma því við.  Þá gæti almenningur hjálpað hreinsunardeildinni með því að tína rusl upp af götunni eða sem er enn betra, kasta ekki rusli frá sér hvar sem er.  Með þessu móti er hægt að innræta börnum og unglingum að flokka og skila.Einnig ættu sveitarfélög að koma upp grænum og bláum ruslafötum á almannafæri. Þá fær fólk tilfinningu fyrir því að flokka samkvæmt litakerfinu og það verður smám saman ósjálfrátt.

Ég hef flokkað sorp í meira en 10 ár. Það sem fékk mig til þess að hugsa um þetta vandamál voru fréttir af sorpfjallinu við Selfoss. Einnig umræður um vandræði með framtíðarsorplosun hér í Reykjavík þar sem skortur var á landi. Þetta fannst mér svakalegt og ákvað að gera eitthvað í því. Fyrsta árið þá flokkaði ég bara pappír. En strax þar á eftir kom ég upp safnkassa fyrir lífrænan úrgang og núna í vetur steig ég þriðja skrefið en það felst í flokkun á plastúrgangi. Árangurinn hefur verið ótrúlegur. Núna flokka ég yfir 95% af öllu sorpi og skila. Það sem fer í almennt sorp er sáralítið.

Til þess að ná þessum árangri þarf nýtni og hreinlæti. Með því að nýta allan mat sem keyptur er þarf ekki að fleygja afgöngum sem síðan úldna í tunnunni. Í moltukassann minn fer ekkert sem úldnar. Bara það sem rotnar og myglar. Afgangar sem leysast upp fara í niðurfallið. Mikilvægt er síðan að þvo flokkaðar plastumbúðir og ílát svo og allar umbúðir utan af mjólkurvörum. Sóðar gefast strax upp á að flokka því ólyktin fælir þá frá.


mbl.is Bið eftir bláum tunnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðlindir og Þjóðareign

Egill Helga skrifar smápistil um hugtakið þjóðareign og klikkir út með að enginn geti átt fiskinn í sjónum vegna þess að hann sé þjóðareign.  Hann sakar líka Lagastofnun um að þvæla þessu hugtaki. Pistillinn vakti nokkra umræðu en þar sem ég hef ekki geð í mér til að skrá mig inná athugasemdakerfi Eyjunnar aftur, þá set ég hér á vefinn mína eigin hugleiðingu.  Einn af þeim sem gerðu athugasemdir hjá Agli , var Þorvaldur Gylfason, sem situr í Stjórnlagaráði og margir binda vonir við að geri skynsamlegar breytingar á Stjórnarskránni. Þó ekki ég, því eftir því, sem ég les meira á vef stjórnlagaráðs, um þær umræður sem þar eru í gangi, þeim mun vonsviknari verð ég.  Segja má að væntingarnar hafi minnkað í öfugu hlutfalli við ganginn í vinnunni hjá þessum fulltrúum.

Ég held að menn séu á miklum villigötum í umræðunni um þjóðareign á fiskstofnum.Fiskurinn í sjónum er ekki auðlind í þeim skilningi sem lagt er upp með hjá stjórnlaganefnd. Ekki frekar en hreindýrin eða gæsirnar. Í mínum huga getur þjóð aðeins gert tilkall til að eiga land. Land, hvort sem er á láði eða legi eru efnisleg gæði og því er hægt að lýsa yfir eignarrétti.  Sama er að segja um það sem er undir yfirborðinu enda eru jarðefni hverskonar hluti af landinu. Allt annað ber að líta á sem hlunnindi og nýtingarréttur á þessum hlunnindum getur verið með margs konar hætti. Í höndum opinberra aðila, ríkis eða einstaklinga. Einkaeign er hægt að þjóðnýta eða taka eignarnámi enda komi bætur fyrir. Ríkiseignir má líka selja og veðsetja. En nýtingarréttur er í eðli sínu leiguréttur og því ekki hægt að selja eða veðsetja.  Þetta er kjarni málsins og óþarfi að flækja umræðuna með bulli um þjóðareign á fiskiauðlindinni í sjónum og ólöglegri veðsetningu þessara hlunninda.

Stjórnlagaráð þarf að taka þetta aftur upp. Fiskinn í sjónum má ekki og á ekki að skilgreina sem auðlind.  Fiskstofnar eru hlunnindi sem við getum gert tilkall til að nýta á meðan þeir eru innan okkar efnahagslögsögu en lengra nær réttur okkar ekki.

Öll kvótasetning er því í eðli sínu ólögleg enda brýtur hún á mannréttindum og jafnræði þegnanna sem eru æðstu réttindi sem ber að vernda. Það er hægt að réttlæta ígrip í nytjar á hlunnindum á grundvelli neyðarréttar en neyðarlög mega aðeins gilda í afmarkaðan tíma. Eftir að tilgangi þeirra hefur verið náð þá ber að afnema þau. Það ber að afnema kvótakerfið strax.  Tilgangurinn var ekki að byggja upp fiskstofna. Tilgangurinn var aðeins að draga úr sókn og minnka fjárfestingu í sjávarútvegi. Þau markmið náðust fyrir 10 árum og vel það.

Ef menn skoða þessa röksemdafærslu hljóta menn að sjá hversu fjarlægt og óraunhæft það er að tala um fiskstofna sem auðlind sem hægt er að skilgreina sem þjóðareign. Því það er líka falin ákveðin hætta í slíkum fyrirætlunum. Með því ranglega að búa til eignarréttindi þá má fara að versla með þau. Ef við göngum í ESB þá er stór hætta á að ESB geti boðið út kvóta á frjálsum markaði úr fiskstofnunum okkar. Ég get ekki séð hvernig við getum varist því ef við framseljum fullveldi okkar til Brussel. Hins vegar þá getum við á meðan við höldum sjálfstæði okkar alltaf ráðið því einhliða hverjir fá að veiða í okkar efnahagslögsögu. Líka úr þeim flökkustofnum sem hingað flækjast, eins og síld, makríl og loðnu. Að ég tali ekki um veiðar á hval og sel.  Menn skuli hafa það alveg á tæru að veiðar á hval og sel eru bannaðar í ESB.  Og það eru sterkir þrýstihópar sem vinna að því að banna allar veiðar með botnvörpu. Ætla menn virkilega að hætta á að það gerist og að eins fari fyrir okkur og Nýsjálendingum!  Ég vona svo sannarlega ekki og því er það krafa mín að Stjórnlagaráð taki auðlindakaflann upp aftur og breyti honum þannig að fiskstofnar séu ekki skilgreindir sem auðlind.  Skilgreining  á hugtakinu þjóðareign, sem fram kemur í lögunum um þjóðgarðinn á Þingvöllum er nefnilega fín og verðmæti í jörðu er sjálfsagt að skilgreina sem þjóðarauðlindir.  En undir það eiga ekki að falla dýralíf eða vatnsréttindi og gufa. Hins vegar er hægt að þjóðnýta land þar sem vatn eða gufa er virkjuð eins og áður sagði. En það er bara allt önnur Ella

e.s gerði smábreytingu á texta til að skýra betur hvað ég á við


Krumpaður á sálinni út af ástandinu

Allir sem láta sig þjóðfélagið einhverju skipta eru krumpaðir á sálinni og það er bara allt í lagi.  Svo fremi að menn láti ekki hatrið stjórna sér. Við vissum öll að reynt yrði að finna sökudólga og það er enn verið að leita. Rannsókn yfirvalda gengur alltof of hægt og hún gengur alltof of skammt. Fyrirhuguð réttarhöld yfir Geir Haarde draga ekki úr gremju fólks. Geir mun standa frammi fyrir ákærendum sínum eins og píslarvottur. Við áttum að krossfesta Davíð og Halldór með allri hrunstjórninni. Það áttum við að gera. Og Baugsklíkuna og vitorðsmennina í bönkunum og Sparisjóðunum þarf að loka inni á Hrauninu og henda lyklunum. Og það þarf að fletta ofan af fjárglæframönnum eins og Björgólfi Thor og hans viðskiptafélögum. Að þeir séu enn að er hneyksli og glæpur gegn fórnarlömbum fjármálahrunsins,  Aðeins með því að fjarlægja gerendur hrunsins kemst hér á eðlilegt ástand. Sjálfstæðismenn sem voru gerendur í hruninu og Samfylkingarmenn sem voru gerendur í hruninu eiga að hafa vit á að blanda sér ekki í stjórnmál dagsins í dag. Það er ekki við hæfi. Ég sætti mig ekki við að í Ríkisstjórn skuli sitja ennþá 2 af hrunráðherrunum og mönnum þyki það bara sjálfsagt og eðlilegt. Og hinn oddviti stjórnarinnar, maður sem hefur setið á þingi í 30 ár er jafn sekur og allir hinir á því þjóðfélagi sem var leyft að búa hér til. Steingrímur tók þátt í að lögleiða kvótakerfið og leyfa framsalið. ALVEG EINS OG jÓHANNA VORU ÞAU BÆÐI ÁBYRG FYRIR AÐ GERA SAMNINGINN UM EES. Ef menn skilja ekki að þetta veldur gremju hjá fólki án þess að það sé í hinu liðinu þá eru menn að tala þvert gegn betri vitund. Og þeir sem ásaka aðra um þjóðrembu skilja ekki hvað verið er að ýta okkur út í af Evróputrúboðunum. Ég hef ekki tekið þátt í þessu karpi um ESB umsóknina. Fyrir mér er málið krystaltært. Ég vil ekki að við gerumst aðilar að þessu ríkjasambandi. Þetta er svo mikil blekking að við getum gert einhverja samninga sem halda að það er ekki svaravert. Eina sem fólk þarf í raun að gera upp við sig er hvort það vill verða þegn í sambandsríki Evrópu og lúta boðvaldi þingsins í Brussel. Ég vil það ekki. Alveg sama hvað er í pakkanum. Það er einfaldlega verið að blekkja þjóðina með þessu gjálfri um að hér verði allt með öðrum og betri brag ef við göngum inn. Það mun kannski verða fyrir suma en flestir munu finna fyrir neikvæðum áhrifum. Fólk sem hefur byggt sér hér upp sjálfstæða atvinnu mun ekki eiga sér lífsvon í hinni frjálsu samkeppni. Við erum þegar láglaunaland og hráefnisframleiðendur. það mun ekki breytast við inngöngu í ESB. Ef við fáum að taka upp evru verður það keypt dýru verði. Þá munum við ekki ákveða skiptiverð gjaldmiðilsins. Það mun Seðlabanki ESB gera og gengið á krónunni mun hrynja áður en af því verður.  Í dag getum við tekið upp dollar á genginu 120 krónur.  Hvort ætli borgi sig betur? En ESB dellan lokar svo mörgum öðrum möguleikum. Það er grátlegt.  Þess vegna vil ég að við kjósum strax um inngöngu í ESB. Ef niðurstaðan verður já, þá sætta menn sig við hana en ef ekki þá er ekki seinna vænna að bretta upp ermar og fara að komast út úr þessu hjakki.

Heimskulegur úrskurður Persónuverndar

Samfylkingarskoffínin og aðrir óvildarmenn forsetans eru aftur vaknaðir. Núna þykjast þeir hafa fundið veikan blett í röksemdafærslu forsetans fyrir synjun icesave ólaganna, í nýlegum úrskurði Persónuverndar. Úrskurði sem er svo vitlaus að hann toppar allt sem hingað til hefur komið frá öllum þessum eftirlits og úrskurðarnefndum.  Sama hvort í hlut hefur átt nefnd um erlenda fjárfestingu, jafnréttisnefnd eða Umhverfisstofnun. Hvernig getur það verið brot á lögum um persónuvernd að svara ekki tölvupósti?  En ósigur já fylkingar virðist ætla að draga dilk á eftir sér. Meira að segja fjármálaráðherra hugsar okkur þegjandi þörfina. Hann vildi borga Bretum og Hollendingum 70 milljarða óafturkræft og fullyrðir að það hefði verið betri lausn en sú sem þjóðin valdi.  Í hvaða heimi eru menn sem láta svona lagað út úr sér? Og allir hælbítar og hundar ríkisstjórnar spangóla í kór

Á ekkert að endurskoða hlutafélagalögin Pétur?

Pétri Blöndal hefur verið tíðrætt um það undanfarin 2 ár að hlutafélagalögin séu handónýt og þeim þurfi að breyta. Af hverju leggur hann ekki fram frumvarp þess efnis?  Er hann ekki sjálfstæður þingmaður sem á að gæta hagsmuna almennings? Það þarf ekkert að bíða eftir að ríkisstjórnin lagi það sem aflaga fór. Hún skilur ekki einu sinni hvað fór aflaga. Slíkur er aumingjahátturinn á þeim bænum.

Nýjasta skúbb frá Viðskiptablaðinu fjallar um söluna á 35% hlut í Högum til fyrirtækjaflækju sem er í nákvæmlega jafn flóknu eignarhaldi og tíðkaðist fyrir hrun.  Það er til vansa fyrir Alþingi að ekki skuli vera búið að setja þessum fjárglæframönnum sem eru að skipta með sér strandgóssinu, reglur. 

Það gengur ekki að Guðlaugur Þór sé sá eini sem virðist vera með meðvitund á Alþingi í dag og gæta hagsmuna almennings


Að greina kjarnann frá hisminu

Enn á ný hefur gengistryggingin komist á dagskrá.  Nefndin sem Eygló stýrði skilaði greinagóðri niðurstöðu en eins og alltaf eru skoðanir skiptar. Ég held það sé vegna þess að menn eru að flækja tiltölulega einfalt mál með alls konar málalengingum og þrasi sem engum niðurstöðum skilar.

Kjarninn er þessi. Við verðbólgu rýrna peningar að verðgildi. Ef bæta á fjármagnseigendum þessa rýrnun þá má það ekki verða á kostnað skuldara eingöngu. Sama mælikvarða verður að nota til að bæta skuldurum kaupmáttarrýrnun sem verðbólga hefur í för með sé og notaður er til að reikna verðbótahækkun lána. Og það verður að nota réttan mælir. Verðbólgumæling hér á landi er bæði ranglát og vitlaus. Vísitölur endurspegla ekki neyslu meðalmanns og rangt er að setja skattahækkanir stjórnvalda inn í vísitölugrunn neyslu.  Einnig er ekkert vit í að hafa inní grunninum vörur sem sveiflast eftir fölsku verðmati spákaupmanna. T.d olíu og ýmis matvæli eins og hinn fræga kaffipakka hans Lobba Blush 

Þangað til fundin verður sanngjörn aðferð til að tryggja að allir beri kostnaðinn af verðbólgunni til jafns, þá ber að setja fjármálastofnunum strangar reglur um hámark vaxta og verðbóta. Það er eina leiðin.  Ekki dugar að banna verðtryggingu því þá hækka þessir okurlánarar bara vextina upp úr öllu valdi. Og ef þetta samræmist ekki EES reglunum þá skulum við bara segja okkur frá því samstarfi sem fyrst. 


Er löglegt að veðsetja sama fiskinn tvisvar?

Jón Steinsson hagfræðingur, er enn við sama heygarðshornið í nýjum pistli á sorpritinu Pressan.is  Jón vill halda í framsalið og veðsetningu veiðiheimilda.  Þær telur hann grundvöll þess hagræðis sem sé í greininni! 

Í stuttu máli eru bönn við framsali og veðsetningu uppskrift að óhagkvæmum sjávarútvegi til lengri tíma og þannig uppskrift að mun minni hagsæld á Íslandi en annars gæti orðið. Ég hvet stjórnvöld eindregið til þess að hverfa frá hugmyndum um þessi bönn.

Hér er mikill misskilningur á ferð. Skoðum þetta nánar. Framsalið skapar vissulega tekjur fyrir þann sem leigir eða selur frá sér aflaheimild en hvaðan eru þeir peningar teknir? Hvergi nema úr greininni sjálfri. Þar af leiðir að hagkvæmnin er engin fyrir greinina í heild en sá sem græðir er sá sem fékk úthlutað endurgjaldslaust úr sameiginlegri auðlind.  Þ.e KVÓTAGREIFINN!  Í þessu sambandi verður að hafa í huga að árlega eu útgerðum úthlutaður kvóti endurgjaldslaust til eins árs í senn. Það má ekki blanda umræðunni um braskið saman við úthlutun á veiðiheimildum.

Næst skulum við skoða veðsetninguna á kvótanum. Ég sé ekki betur en hér hafi sami fiskurinn verið veðsettur tvisvar. Í fyrsta lagi veðsetur útgerðarmaðurinn þær aflaheimildir sem hann hefur yfir að ráða og síðan veðsetur fiskverkandinn sama fisk gegn fyrirgreiðslu í sínum viðskiptabanka.  Er þetta löglegt? Og ef við erum sammála um að þetta sé ólöglegt þá er engin hagkvæmni eða hagræðing fólgin í kvótakerfinu og því ber að leggja það niður strax.  Ekki hefur það gagnast við uppbyggingu fiskstofna. Svo mikið er víst!

Í dag eru það leiguliðarnir og sjómennirnir sem borga þessa meintu hagræðingu

Hvenær ætla hagfræðingar að átta sig á að kvótakerfið er aðeins hagkvæmt fyrir þann sem nýtur verndar einokunarinnar.  Er það einhver markaðsleg lausn að úthluta gæðum frítt til fárra útvalinna meðan aðrir þurfa að greiða fúlgur fjár til að taka þátt í samkeppninni?  Það held ég ekki. Velgengni í útgerð á að byggjast á dugnaði skipstjóra og áhafnar fyrst og fremst, ekki kvótastöðu útgerðar. Og veðandlag útgerðar á eingöngu að vera í formi skipa og annarra fasteigna. Það á ekki að vera hægt að búa til óefnislegar eignir eins og óveiddan fisk til að búa til peninga. Það þjónar engum nema bönkunum. Og bankarnir vissu að þeir voru að lána tvisvar gegn sama veði. Því afurðalánin voru veitt gegn sama veði og lá að baki kvótanum. Þess vegna eiga bankarnir að taka á sig skaðann af lækkuðu veðhæfi þegar kvótakerfið verður afnumið sem verður að gera til að við getum staðið undir afborgunum af þessum óheyrilegu gjaldeyrisskuldum Ríkissjóðs.


Hér vantar meiri valddreifingu

Sveitarstjórnarpólitík síðustu tveggja áratuga hefur gengið út á það að fækka sveitarfélögum og stækka. Sýslumönnum hefur einnig fækkað og nú er talað um að gera landið að einu lögregluumdæmi. Allt er þetta samkvæmt forskrift að sunnan. Miðstýrð ákvarðanataka hefur sogað fólk og fé frá landsbyggðinni og til Reykjavíkur. Afleiðingin er lífskjararýrnun og tilheyrandi fólksflótti frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Þessari byggðaröskun er vel hægt að snúa við. Lausnin felst í meiri sjálfstjórn landshlutanna.  Í staðinn fyrir að útflutningstekjur frá landsbyggðinni fari fyrst suður otg sé síðan deilt út til hinna ýmsu verkefna á landsbyggðinni af stjórnlyndum pólitíkusum þá þarf að gjörbylta stjórnskipun. Hér þarf að taka upp forsetaræði og efla heimastjórn héraðanna. Það er hægt að gera með því að taka upp hin fornu Goðorð. Með slíku fyrirkomulagi væru allar ákvarðanir innan héraða teknar af Héraðsþingum en síðan væru haldin Allsherjarþing í Reykjavík fyrir sameiginlegar ákvarðanir. Alveg eins og tíðkaðist hér áður fyrr og er ennþá við lýði í Noregi þar sem fylkin hafa mun meiri sjálfstjórn en landsbyggðin hér.

Þetta skipulag sem hér hefur myndast er slæmt. Ríkisfjármálin eru  í molum vegna þess hvernig Alþingismenn stunda grímulaust kjördæmapot og Ríkissjóður er gjarnan notaður sem skiptimynt í pólitísku baktjaldamakki. Afleiðingin hefur svo verið óðaverðbólga, gengisfellingar og efnahagsstjórn í molum. Þessi séríslenska óráðsía er algjörlega á ábyrgð spilltra pólitíkusa. Þessu breytum við aðeins með því að færa ákvörðunartökuna aftur út til fólksins.  Fólkið sem skapar gjaldeyrinn á ekki að þurfa að betla fyrir nauðþurftum þegar Alþingismenn hafa hirt allt af þeim í skjóli ónýtrar stjórnskipunar.

Við svona stjórnskipunarbreytingar sem ég er að boða, myndi til dæmis sjálfstjórn í auðlindanýtingu færast aftur í hendur heimamanna. Héruðin fengju full og óskoruð yfirráð yfir sjávarauðlindinni hver á sínu svæði sem og vatni og hita í jörðu. Hér þarf að snúa af glötunarveginum þar sem þeir sem geta, mega ekki og þeir sem mega, geta ekki.  Á þensluskeiðinu var fjármagnið miskunnarlaust sogað út úr sjávarútvegsfyrirtækjum á landsbyggðinni og flutt suður og notað þar til að kynda undir hlutabréfabóluna og eignabóluna sem aðeins myndaðist á höfuðborgarsvæðinu nota bene. Þetta hefði aldrei getað gerst ef héruðin hefðu stjórnað fiskveiðum hver á sínu svæði. Þá væri engin þörf á kvótastýringu, hvorki í landbúnaði eða í sjávarútvegi. Þá myndi líka sjálfsvirðing landsbyggðarmanna aukast og lífsgæðin batna. Og þessi fyrirhugaða skipting kvótaskattsins er bara móðgun við landsbyggðina. Ekkert annað. Pólitíkusar eiga ekki að taka sér þetta alræðisvald yfir örlögum almúgans. Og fólkið á ekki að leyfa þessu að gerast!

Þessi stjórnsýsla sem búin hefur verið til utan um spillta stjórnmálamenn þjónar ekki venjulegu fólki. Stjórnsýslan er skjaldborg stjórnmálamanna og vildarvina þeirra. Notum tækifærið og breytum stjórnarskránni fyrir fólkið í landinu. Ekki fyrir elítuna eins og nú er verið að gera. Þessi ofuráhersla á mannréttindakaflann er ekki það sem við þurfum í nýrri stjórnarskrá.  Mannréttindi eru best tryggð með alþjóðlegum og yfirþjóðlegum samningum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband