26.2.2019 | 00:45
Ragnar Þór beitir afli sem virkar.
Þegar Almenna Leigufélagið ætlaði að níðast á skjólstæðingum sínum gerði Ragnar Þór Ingólfsson það eina sem virkar gegn fjármagnseigendum. Hann tók upp símtólið, hringdi í Ármann Þorvaldsson, forstjóra Kviku hrægammasjóða og setti honum afarkosti. Annað hvort sérð þú til þess að þessi hækkun á leigu verði dregin til baka eða ég tek 4 milljarða úr fjárstýringu hjá ykkur. Hrægammastjórinn fékk 3 daga til að hugsa málið og það dugði. Almenna Leigufélagið lofaði að haga sér og Kvikuforstjórinn slapp við þetta run á bankann sem í hótun Ragnars fólst. Sennilega hefði Kvika ekki getað borgað út þessa 4 milljarða og það hefði þýtt að bankinn hefði verið tæknilega ógjaldfær og það hefði þýtt afskipti FME og ófyrirsjáanleg vandræði fyrir hluthafa þessa hrægammafyrirtækis.
Og hvað kennir þessi saga okkur? Hún kennir okkur að það er ekki lögmál að leigufélög hagi sér eins og blóðsugur í launaumslögum skjólstæðinga sinna. Það er hægt að stoppa þetta viðbjóðslega leiguokur sem stjórnvöld hafa leyft að grassera. Það er hægt að setja leiguþak. Það er hægt að frysta leigu. Og það er hægt að setja lög um okur. Allt þetta er hægt að gera ef vilji er til. En viljann vantar hjá stjórnvöldum. Þess vegna er gott til þess að vita að almenn launafólk og lítilmagnar skuli eiga hauk í horni þar sem Ragnar Þór Ingólfsson er. Enda þorði enginn í hann í síðustu kosningum til formanns hjá VR. Með sigrinum á Almenna Leigufélaginu eru honum allir vegir færir. Hann hefur meira fylgi en ríkisstjórnin í dag.
Kannski að Katrín og Bjarni fundi og endurmeti stöðuna í þessu ljósi. Allavega held ég að þeirra spindoctorar hljóti að vera orðnir áhyggjufullir yfir ástandinu. Óvinurinn er ekki Gunnar Smári eða Karl Max, eins og Friðjón spunakarl heldur. Gunnar Smári hefur enga vigt. Það hafa hins vegar Ragnar Þór, Vilhjálmur Birgisson, Anna Sólveig og Drífa Snædal.
Mjög ánægjuleg lending | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.2.2019 | 00:07
Skítverkin í pólitíkinni
Vigdís þekkir skítverkin í pólitíkinni. Hún er mágkona Guðna Ágústssonar og gjörþekkir hvernig kaupin gerast í Framsóknarflokknum sem löngum hefur verið tákngervingur pólitískrar spillingar enda orðtakið "að moka framsóknarflórinn" fast í málinu . Og nú er hún að hræra skít fyrir Sigmund Davíð svo það er örugglega rétt hjá henni að nýjustu fréttir frá skrifstofu borgarstjórans í Reykjavík eru undanfari pólitískra breytinga og uppstokkunar í stjórnkerfinu. Vissulega hefur minnihlutinn í borgarstjórn haldið uppi harðri andstöðu en öll sú gagnrýni virðist samt réttmæt og málefnaleg og ekki ástæða fyrir embættismann eins og borgarritara að láta draga sig inn í pólitískar deilur borgarfulltrúa. En það hefur hann nú samt látið yfirmann sinn, Dag B Eggertsson, gera. Þetta hlýtur að hafa afleiðingar fyrir Stefán og Dag. Borgarstjóri og borgarritari þurfa að vinna náið með öllum kjörnum fulltrúum. Ekki bara þeim sem mynda meirihlutann.
Ég hef í öllum mínum pistlum bent á einu lausnina , sem er í stöðunni og hún er að Dagur láti af starfi borgarstjóra og ráðinn verði ópólitískur maður sem hefur reynslu, þekkingu og færni í mannlegum samskiptum til að stjórna borginni. Ljóst er að hvorki Dagur né Stefán búa yfir þessum kostum svo þegar Dagur lætur af störfum borgarstjóra er réttast að Stefán hætti líka.
Þetta er eina lausnin sem í boði er. Það verða hvort sem er engir hausar látnir fjúka vegna klúðursins hjá þeim sem stýrðu skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. Sú skrifstofa verður lögð af en það er ekki nóg. Stefán borgarritari er búinn að gera sjálfan sig vanhæfan og saman verða þeir Dagur að súpa bikar vonbrigðanna að vera ekki hæfir til að sinna störfum sínum. Vera verri en Jón Gnarr!
Síðasta skítverkið fyrir borgarstjóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2019 | 16:53
Dýrasti Íslendingurinn
Bjarni Benediktsson kostar ríkissjóð 100 milljarða. Það er sú upphæð sem vinir hans og viðskiptafélagar hafa skotið undan skatti vegna glufa í skattalögum sem Bjarni vill ekki breyta. Honum finnst brýnna að halda niðri fólkinu í landinu með launapólitík fjármálaráðuneytisins sem fyrirlítur vinnandi fólk en upphefur fjármagnseigendur og fjárfesta.
Á Íslandi verður enginn pólitískur friður með Bjarna Benediktsson í Fjármálaráðuneytinu. Vinnudeilur SA og ASÍ eru bara forsmekkurinn af því sem verður þegar BSRB og BHM og öll hin félögin, setjast niður með samninganefnd ríkisins. Eftir það verður líf Ríkisstjórnarinnar talið í mánuðum en ekki árum.
Úr því sem komið er þá stefnir allt til andskotans fyrir heimsku og skilningsleysi ráðamanna. Alþingi og ríkisstjórn hafði þetta í hendi sér árið 2016. En góðærið blindaði þau. Þeim fannst svo sannarlega þau vera verðug ríkulegrar launahækkunar. Og stjórnendur ríkisfyrirtækja sem allir eru pólitískt ráðnir fengu líka samsvarandi launahækkanir. Það var passað upp á það og enginn sagði: En hvað með pöpulinn?
Fólkið sem lætur lögregluna slá um sig skjaldborg þegar það þarf að ganga á milli Dómkirkju og Alþingishúss, því er andskotans sama um almenning í landinu. Það er vandamálið! Enginn flokkur er að gera neitt til að koma á friðsamlegum samskiptum í þjóðfélaginu. Og nú vakna menn upp við hin sósialísku herköll. Og jafnvel þá skynjar pólitíska elítan við Austurvöll, ekki sinn vitjunartíma.
Ég spái kosningum með vorinu. Og þá mun fylgi Sjálfstæðisflokksins halda áfram að minnka. Það tekur tíma að uppræta spillingu en það mun takast. Þá getur Bjarni Ben aftur geta tekið við eignum sínum og þarf ekki lengur að fela þær fyrir hagsmunaskráningunni á Alþingi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.2.2019 | 15:21
Senda vinnumansalsteymið á þennan vambsíða
Uppákoman í Ármúlanum er lýsandi fyrir atvinnurekanda, sem fer illa með erlent vinnuafl. Hvernig hann lýsir uppákomunni er sönnun þess að maðurinn vill ekki að starfsfólkið njóti mannréttinda. Því er haldið að vinnu og meinað að tala við fulltrúa stéttarfélagsins, sem þau greiða félagsgjöld til af launum sínum. Að yfirmaður á vinnustað hagi sér svona lýsir bara innræti hans sem algers rudda og yfirgangsseggs, sem greinilega heldur sig hafinn yfir reglur samfélagsins. Í því sambandi er rétt að geta, að þetta er sami maðurinn og byggði við þetta hótel sitt án tilskilinna leyfa og komst upp með það. Sumir eru greinilega jafnari en aðrir og rennir stoðum undir kenningu Styrmis, að hér sé Djúpríkið grasserandi.
Það er auðvelt að setja sig í spor starfsfólksins. Ef þetta eru útlendingar þá er öruggt að það fólk lætur bjóða sér allt gegn því að halda vinnunni. Hér þarf Vinnumansalsteymið að mæta á staðinn og leggja hald á bókhald eigandans. bera það svo saman við launaseðla starfsfólksins og birta niðurstöður þeirrar rannsóknar opinberlega.
Það er grafalvarlegt mál ef atvinnurekendur komast upp með að meina fólki að taka afstöðu í vinnudeilum. Sá vambsíði þykist borga 420 þúsund fyrir ræstingar en hvað eru margar vinnustundir á bakvið þá upphæð og hvað dregur hann frá? Það er nefnilega ekki upphæð launa sem segir okkur neitt, ekki frekar en tekjusaga Katrínar og Bjarna. Kjarabaráttan núna snýst um að lifa af launum fyrir hóflega vinnu. Ekki að þurfa að þræla sér út til að eiga fyrir mat og leigu.
Segist ekki hafa meinað fólki að kjósa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2019 | 15:52
Væl í Jóhannesi útskýrara
Ferðaþjónustan er sennilega sú grein sem mest svíkur undan skatti og sem mest níðist á sínu skammtímavinnuafli fyrir utan verktakabransann. Ferðaþjónustan með sínar bókanir á netinu og tekjur í gjaldeyri, sem ekki þarf að standa skil á, er verðugt skotmark verkalýðs í baráttu fyrir sanngjörnum launum. Ferðaþjónustan sem er eins og æxli á þjóðarlíkamanum. Notar innviðina og hórast á náttúrunni án þess að greiða fyrir afnotin, henni er ekki vorkunn að segja sig úr SA og ganga að kröfum Eflingar helst í gær. Þetta væl í Jóhannesi útskýrara er bara væl, Kjaftæði án innistæðu. Það geta allir sagt að dregið hafi úr bókunum án þess að þurfa að standa við það.
Fyrst birt sem innlegg við færslu leigupenna auðrónanna, Páls Vilhjálmssonar
Sem mest tjón á sem skemmstum tíma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2019 | 14:11
Stöðugleikinn er á ábyrgð ríkisvaldsins
Ásgeir Jónsson, talsmaður auðmagnsins bregst ekki húsbændum sínum frekar en fyrri daginn enda ferðalag hans um ríkislendurnar mjög ábatasamt þessa dagana. Ég veit ekki hvernig maðurinn hefur tíma til að skrifa þessar greinar sínar því fyrir utan að vera í fullu starfi sem dósent við Hagfræðideild Háskóla Íslands og forseti sömu deildar, þá rekur hann fyrirtæki sem heitir því ósmekklega nafni, Auðfræðasetrið og í gegnum það hefur hann tekið inn hundruð milljóna frá Fjármála og forsætisráðuneytinu. því hann hefur verið stjórnvöldum mjög innanhandar við gerð áróðursefnis varðandi ríkisfjármál. Til dæmis átti hann stóran þátt í samningu Hvítbókar Bjarna Ben um hversu nauðsynlegt væri að selja hlut bankanna með 100 miljarða afslætti.
Þessi maður er nú kynntur sem fyrrverandi hagfræðingur Dagsbrúnar! Af hverju ekki sem fyrrverandi forstöðumaður greiningadeildar Kaupþingsglæpabanka! Eða fyrrum ráðgjafi Hrægammafyrirtækisins Gammar! Sömu hrægammanna sem eru búnir að hreiðra um sig á fasteigna og leigumarkaðinum og eru nú að festa sig í sessi á tryggingamarkaði undir forystu þokkahjúanna Svanhildar Nönnu og Einars Arnar Glitnisræningja sem eru búin að vera til rannsóknar hjá saksóknara í 3 ár. Meira um það síðar.
En ég er að tala um Ásgeir Jónsson, son Jóns Bjarnasonar fyrrum sjávarútvegsráðherra í stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Vegna tengsla inní stjórnmálin lenti þessi maður á fótunum eftir hrunið og er nú hans þáttur í hruninu flestum gleymdur.
Persónulega tek ég ekki mark á svona manni. Enda eru hans fræði engin vísindi. Í bezta falli hafa þau spágildi en jafnvel það hjálpaði Ásgeir Jónssyni ekki sem forstöðumanni greiningadeildar Kaupþings glæpabanka. Nema hann hafi tekið við skipunum frá yfirstjórninni og þannig verið ábyrgur fyrir blekkingum vegna fjárhagsstöðu bankans í langan tíma fyrir fall hans.
En fólkið í greiningadeildunum var aldrei dregið til ábyrgðar ekki frekar en endurskoðendurnir. Það var meðvituð ákvörðun því AGS og ríkisstjórnin með pabba Ásgeirs innanborðs voru ákveðin í að endurreisa sama spillta kerfið eftir hrun. Í því verki hefur Ásgeir reynst drjúgur liðsmaður. Og þénað vel!
Þegar svona maður póstar status á fésbók og varpar ábyrgð á stöðugleika í hendur verkalýðsforystunnar er ekki hægt annað en svara því á öllum vígstöðum. Því það er ekki hlutverk verkalýðsforystunnar að kostnaðarmeta kröfugerð sem snýr að aðgerðum stjórnvalda til jöfnunar lífskjara.
Ásgeir Jónsson ætti að hafa vit á að halda sig til hlés á meðan ábyrgt fólk reynir að leysa úr því ástandi sem hans ráðleggingar hafa sannlega átt þátt í að skapa og valdið þeirri þjóðfélagsgliðnun sem kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar er að reyna að brúa.
Kjarabaráttan snýst ekki um staðreyndir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2019 | 15:01
Ekki hefur náðst í Dag B. Eggertsson, borgarstjóra, vegna málsins
Dagur borgarstjóri ber ábyrgð á starfsmannamálum Reykjavíkurborgar. En samt er ekki hægt að ná í manninn til að ræða við hann um kvartanir borgarritara.
Eru ekki aðfinnslur borgarfulltrúa fyllilega réttmætar sama hvað einstaka starfsmanni finnst. Og ef verkefnin eru svo léttvæg að jafnvel viðkomandi starfsmenn fyllast sektarkennd og vanlíðan er þá ekki rétt að fara yfir það með Degi borgarstjóra?
Að það skuli vera regla að ekki náist í manninn segir mér bara eitt og það er að maðurinn ræður ekki við starfið.
Reykjavíkurborg hefur aldrei áður verið svo umdeild vegna ákvarðana þeirra sem stjórna. Jafnvel borgarstjóri kýs að tjá sig ekki ef málefni borgarstjórnarinnar ber á góma.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2019 | 10:37
Nú skulu menn rétta úr sér í leðurstólunum
Kjarabarátta hefur ekki verið stunduð á Íslandi síðan fyrir daga Gylfa Arnbjörnssonar hjá ASÍ. Nú er komin ný kynslóð venjulegs launafólks til forystu í öllum stærstu félögunum og helztu samböndum og nú munum við sjá sverfa til stáls milli launaþræla og svo hinna sem verma leðurhægindastólana án nokkurs raunverulegs framlags til verðmætasköpunar í samfélaginu.
Því menn skulu hafa það alveg á hreinu hverjir skapa þá velmegun sem yfirstéttin fleytir hér rjómann ofan af. Það eru sjómenn verkamenn og bændur sem standa undir þjóðartekjunum. Það er ekki fólkið sem strunsar um með skjalatöskurnar og sem aldrei er hægt að ná í því það er aldrei í vinnunni.
Kjarabaráttunni núna má líkja við baráttu Nelson Mandela fyrir réttindum blökkumanna. Því íslenskt verkafólk hefur látið hlekkja sig í vinnuþrælkun og ekkert annað til að lifa af í sýndarheimi fína fólksins. Hverjum datt í hug að það væri sjálfsagt mál að hér skuli hin raunverulega vinnuvika vera 70 klst? Og í allt of mörgum tilfellum er vinnuvikan miklu lengri. Þetta er ekkert nema vinnuþrælkun og hún tekur tolla af velferðarkerfinu meðan eigendur fyrirtækjanna raka saman skammtímagróða.
Kjarabaráttan núna er ekki róttæk, hún er réttlát. Það er einfaldlega farið fram á að menn sem sinna frumframleiðslu og þjónustu geti lifað af dagvinnulaunum. Og þá er ekki verið að tala um óhófslifnað. Bara helstu nauðþurftir sem yfirstéttin er löngu búin að telja svo sjálfsagða að þau leiða ekki lengur hugann að því að til sé fólk sem ekki hefur efni á mannsæmandi lífi.
Að umhverfið skuli vera svona á Íslandi er ekki launaþrælum ASÍ að kenna. Þetta er fyrst og fremst pólitískar ákvarðanir um skiptingu gæða. Pólitískar ákvarðanir sem Samtök Atvinnulífsins og fjármálaelítan hefur náð fram gegnum ítök sín, klíkuskap og peningavald.
Svo það liggur væntanlega alveg ljóst fyrir að stjórnvöld og þar með hinir pólitísku fulltrúar verða að koma að deilunni og rétta af launamisræmið, eignamisræmið og frítíma og menntunarmisræmið.
Það eru einfaldlega mannréttindi að geta lifað af launum fyrir hóflegan vinnutíma
Verkakonur í verkfall 8. mars | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2019 | 13:32
Jafnvægið í hafinu
Mér eru málefni sjávar hugleikin og því eru fregnir af fjarvist loðnunnar áhyggjuefni. Ekki útfrá hagrænum mælikvarða eins og RÚV leggur á alla sína umfjöllun heldur útfrá vistfræðilegum breytingum sem ójafnvægi í lífríki hafsins hefur á alla aðra þætti. Þannig að ef engin loðna gengur til hrygningar þá hefur það áhrif á hrygningu þorsksins og væntanlegt klak þorskseiðanna í vor. Fuglar og fiskar eru mjög vanaföst dýr. Við sjómenn vitum að fiskur gengur á sömu veiðislóðir á sama tíma ár eftir ár, ekki til að láta veiða sig heldur í ætisleit fyrst og fremst. Eins er þetta með fuglana þeir velja sér varpstaði sem næst ætissvæðum.
En fiskifræðingar virðast ekki skilja þetta samspil náttúrunnar. Þeir sinna ekki vistfræðirannsóknum. Þeirra fiskifræði snýst um að telja fiska og í þeirra fræðum skiptir æti fisksins engu máli varðandi vöxt og viðgang þeirra stofna sem þeir þykjast vera að fylgjast með. Þetta hef ég aldrei skilið. En nú er kannski tækifæri á nýrri nálgun hjá þessari steinrunnu stofnun sem Hafró er.
Ef það verður alger brestur á loðnugöngu þarf að gera ráðstafanir til að veiða meiri þorsk og það strax. Við getum ekki beðið eftir að aðrir fiskstofnar skaðist vegna þess að loðnan sem er undirstöðufæða hverfur af matseðlinum.
Sjómenn hafa lýst áhyggjum vegna þess að það er minna um æti á hefðbundnum veiðisvæðum fyrir suðausturlandi. Það er bara ekki í boði að fiskifræðingar hlusti ekki á þær viðvaranir sem í því felst. Verðmætisrýrnun vegna minnkandi loðnuafla skiptir engu máli. Það er jafnægið í hafinu sem öllu skiptir og þekking á því er lykillinn að skynsamlegri auðlindanýtingu sjávar.
21.2.2019 | 11:52
Þorsteinn Sæmundsson í hóp Klausturþingmanna
Samheitið Klausturþingmaður merkir einfaldlega ruddi, karlremba, fyllibytta og dóni. Klausturþingmaður getur verið eitt af þessu eða allt. Þingmaður sem lendir í hóp Klausturþingmanna hefur brotið siðareglur þingsins og á ekki skilið að vera þar inni. Sá einn á virðingu skilið sem aldrei þarf að biðjast afsökunar. Það er nefnilega enginn sérstakur manndómur fólginn í því að biðjast afsökunar eins og margir virðast halda. Og síst af öllu opinberlega. Mannrækt felst í samtalinu sem þú átt við sjálfan þig í einrúmi. En menn þurfa þá að viðurkenna breyskleikann.
Höldum listanum yfir Klausturþingmenn til haga og höfum með okkur í kjörklefann næst. Ekkert annað en stórfelldar útstrikanir duga gegn siðferðishnignun stjórnmálanna.
Þingmenn þurfa ekki frí til að sinna kjördæmum sínum. Og sýndarmennskan í sambandi við #me-too er yfirgengileg og minnir á söguna um tollheimtumennina og Faríseana. Þingmenn þurfa að fara á námskeið í háttvísi svo við almenningur fáum frið fyrir þessu slítandi áreiti, við að fylgjast með hneykslismálum stjórnmálamanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)