Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
7.3.2019 | 14:21
1-0 fyrir Eflingu
Efling hafði betur gegn samtökum atvinnulífsins fyrir Félagsdómi í dag. Þessi dómur var gríðarlega mikilvægur og setur fordæmi fyrir áframhaldi á baráttu Sólveigar Önnu fyrir bættum kjörum láglaunastétta á Íslandi. Í fyrsta sinn í meira en 30 ár eiga nú jaðarhópar verkakvenna málsvara innan verkalýðshreyfingarinnar, sem er virkilega annt um sína skjólstæðinga og er tilbúin að beita óhefðbundnum aðferðum til að knýja fram viðurkenningu á því að þessi láglaunastétt hafi í raun verið notuð af íslenzkum atvinnurekendum í fjölda ára án þess að hlusta eftir rödd þeirra sjálfra.
Atvinnukúgun eins og sú sem SA hefur beitt er fyrirlitleg á allan máta. Þeir sem ráða yfir vinnuafli bera mikla ábyrgð gagnvart vinnuaflinu en ekki síður samfélaginu. Þeim ber skylda til að tryggja mannréttindi fólksins sem þeir ráða í vinnu oft með vinnusamningi sem gengur í bága við opinbera samninga á vinnumarkaði. Ég hef oftar en einu sinni tekið útlendinga tali sem hafa ráðið sig í skammtímastörf við þjónustu. Allir sögðust fá borgað langt undir töxtum. Ein tékknesk stúlka sem vann sumarstarf á veitingastað á Stokkseyri í fyrrasumar fékk ekki greidda yfirvinnu eða vaktaálag. Heldur hafði henni verið boðin jafnaðarlaun upp á 1.300 krónur fyrir tímann. Byrjunarlaun samkvæmt taxta Eflingar var í mai 2015; Dagvinna kr.1363 og yfirvinna 2435. Þessi erlendi starfsmaður var þannig hlunnfarinn um stórar fjárhæðir og alls óvíst hvort vinnuveitandinn hafi staðið skil á afdregnum gjöldum. Enda er ekkert eftirlit á svæðinu með því að félagsgjöld, orlof eða skattar séu yfir höfuð greidd vegna tímabundinna ráðningasamninga sem gilda bara í fáeinar vikur.
Af þessu sést að barátta Eflingar er löngu tímabær og nauðsynleg. Og þeir sem gera lítið úr starfi Sólveigar Önnu eru að gera lítið úr íslensku atvinnulífi. Vilhjálmur Birgis hefur reynt en honum mistókst hrapallega enda er hann þessi týpíski kallpungur, sem finnst störf misfín. Honum hefur þess vegna gengið vel að semja fyrir hálaunaverkamenn á Grundartanga en miður fyrir fiskverkakonur á Akranesi. Fyrir Vilhjálm og hina karlfauskana í verkalýðshreyfingunni er Sólveig Anna og Drífa Snædal sannkölluð vítamínsprauta fyrir hreyfingu sem var að koðna niður í gagnvirkri hagsmunagæslu með atvinnurekendum í ávöxtun lífeyrissjóðanna. Þannig fór fyrir Rafiðnaðarsambandinu og þannig fór fyrir Sjómannasambandinu og Starfsgreinasambandinu.
1-0 er góður sigur á drambsömum viðsemjendum Eflingar. En þetta er bara forspilið. Nú hefst orrustan.
![]() |
Verkfall Eflingar dæmt lögmætt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.3.2019 | 11:24
Hræðslan við sósialisma
Það er ekki bara trúðurinn Trump sem hótar fólki með kommúnistagrýlunni. Við heyrum þetta einnig hér í opinberri umræðu. En samt eingöngu hjá köllum sem komnir eru yfir miðjan aldur og sem tilheyra hræðslubandalagi hægri manna. Þessi hræðsluáróður felst í því að kommúnistar eða sósialistar séu vont fólk sem vilji bara eyðileggja þetta frábæra þjóðfélagsmódel sem þó er alfarið byggt upp á arðráni, misskiptingu, óréttlæti og ójöfnuði innan kerfa sem búin hafa verið til af hagsmunaöflum fyrir hagsmunaöfl. Þannig er okkar módel að samfélagi algerlega einstakt í heiminum. Hvergi þrífst jafn mikil almenn spilling og meðal íslendinga. Spillingin er inngróin og hún viðheldur sér sjálf. Þetta sjáum við kristallast í nær óbreyttu fylgi stjórnmálaflokka. En þetta módel er viðkvæmt. Hér er að myndast viðspyrna sem gæti kollvarpað þessu spillta kerfi. Því grundvöllur hvers þjóðfélags felst í vinnumarkaðsmódelinu. Og hér hafa forystumenn stærstu verkalýðsfélaganna ákveðið að spyrna við fæti og stokka upp í kerfunum. Það er óumdeilt að verkalýðshreyfingin hefur veikst gríðarlega undanfarna 3 áratugi. Sumpart vegna þess að flugumenn djúpríkisins náðu völdum í forystu ASÍ en ekki síður vegna óundirbúinna afleiðinga af EES samningnum sem leyfði frjálsa för verkalýðs. Á Íslandi spruttu upp fyrirtæki sem sögðust vera vinnumiðlanir en voru ekkert nema nútímaþrælahaldarar Afleiðingin varð gríðarleg. Hér varð skyndilega mikill uppgangur og hagvöxtur sem var í grunninn drifinn af þessu erlenda vinnuafli sem flutt var inn í skjóli EES samningsins. Meðan allt lék í lyndi og næg atvinna var fyrir alla, þá gekk þetta á yfirborðinu, En svo þegar niðursveiflurnar urðu þá voru fyrstu fórnarlömbin alltaf erlenda vinnuaflið sem rekið var á guð og gaddinn,svikið um laun og uppihald af þessum glæpa vinnumiðlunum sem leyft var að starfa hér án eftirlits.
Á sama tíma reyndu stjórnvöld og aðilar þessa gallaða vinnumarkaðsmódels að sveipa það hulu hins norræna velferðarkerfis með því að flytja ábyrgðina á hagstjórninni yfir á verkalýðsforystuna. Hagfræðingar voru fengnir til að reikna út svigrúm fyrir launahækkanir. Ekki var spurt að því hvað kostaði að lifa.
Og nú erum við á þessum stað. Vinnumarkaðsmódel í molum. Stjórnvöld sem skilja ekki vandann og herskáa verkalýðsforystu sem krefst kerfisbreytinga. Rödd hræðsluáróðurspenna er orðin hjáróma. Flestir vilja uppstokkun en tengja það ekki við sósialisma eða kommúnisma. Bara ósköp venjulega skynsemi- og réttlætiskröfu, um að hér verði það lagað sem laga þarf og ekkert helvítis kjaftæði. Þeir sem ekki skilja það verða að hætta að þvælast fyrir.
![]() |
Varar við martröð sósíalismans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.3.2019 | 21:24
Kona líttu þér nær
Katrín og Bjarni hafa fundið sökudólginn. Hann er launahækkanir til bankastjóra ríkisbankanna. Þau halda að þessar hækkanir bankastjóranna séu eina ástæðan fyrir þeirri ólgu sem nú er á vinnumarkaðinum. Þvílík afneitun segi ég nú bara. Launahækkanir og sjálftaka alþingismanna vega miklu þyngra í þeirri óánægju sem nú ólgar og vellur.
Stjórnvöld eru ráðþrota en á sama tíma þiggja þau ekki ráðgjöf skynsamra manna og breyta öllum úrskurðum Kjararáðs síðustu 2 ár. Fyrst þau vita að bankastjóralaunin eru of há þá ætti að vera auðvelt fyrir Katrínu að semja við Bjarna um rétt laun embættismanna, forstjóra, þingmanna, biskups og annarra stertimenna. Hvað um að festa hæstu laun í 2 milljónum á mánuði og laun þingmanna verði ákveðin 1 milljón og allar sporslur afnumdar. Flestir þingmenn voru langt undir þeirri upphæð áður en þeir unnu í kosningalotteríinu svo þeir mega vel við una.
Trúnaðarbrestur milli Katrínar og bankaráðanna breytir engu um að bankaráðin eru sjálfstæð og taka ekki við skipunum frá ráðherrum. Ég er viss um að glottið á Friðriki Sophussyni þurrkaðist ekkert af honum við tilmælin frá ríkisstjórninni.
Svo Katrín skal bara hunskast til að nota vald sitt sem forsætisráðherra og láta til sín taka. Dúkkustælar duga ekki þegar vinnudeilur eru við það að lama þjóðfélagið.
Eins gott að fólk byrgi sig upp, af dósamat og pakkasúpum. Því þetta verður greinilega langt vor.
![]() |
Trúnaðarbrestur verði tilmæli hunsuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.3.2019 | 15:20
Þar sem mávarnir skíta
Kristján Þór Júlíusson keppist nú við, að klára skítverkin, sem flokkurinn faldi honum. Greinilegt er, að ráðherrann telur að farið sé að styttast í veru hans á ráðherrastóli, því hann afrekaði tvennt í sömu vikunni. Í fyrsta lagi að breyta reglugerð fyrir Kristján Loftsson og svo í öðru lagi að láta að vilja kaupmannaklíkunnar í flokknum og leyfa innflutning á ferskum kjötvörum frá Evrópusambandinu.
En Kristján Þór er ráðherra, sem skilur ekki alveg vald sitt. Hann heldur að sérhagsmunir eigi að ráða, þegar almannahagsmunir krefjast þess, að stjórnvöld taki af skarið. Þess vegna er svar hans að skipa samráðshópa hagsmunaaðila. Hagsmunaaðila sem eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Ekki hagsmunaaðila sem eru að tala fyrir matvælaöryggi eða lýðheilsu eða umhverfisvernd.
Þess vegna finnst Kristjáni algert aukaatriði hvort hvalskurður fari fram í lokuðu rými eða undir opnum himni, þar sem mávarnir skíta í nýskorin hvalrengin í kappi við hvalskurðarmennina, sem eru að koma kjötinu í skjól. Kristján Loftsson vill gera hlutina með sínum hætti. Að vísu hefur hann kvartað undan ágengni fólks sem kemur í Hvalfjörðinn til að fylgjast með starfsstöðinni þar. En hann vill ekki byggja yfir planið heldur vill hann reka forvitið fólk langt útfyrir sitt umráðasvæði. Slík er frekjan í þessum fyrrum máttarstólpa þjóðfélagsins. Því það var hann svo sannarlega. En því miður fyrir Kristján Loftsson, þá breyttist þjóðfélagið. Nú eru hvalveiðar á svörtum lista umhverfissinna og aðeins tímaspursmál hvenær Ísland bannar þær alfarið.
Varðandi hina umdeildu ákvörðun ráðherrans um að leyfa innflutning á ferskum afurðum þá finnst mér rök vísindamanna vega þyngra en buddan í þessu máli og hefði kosið að ráðherrann hefði dregið lappirnar eins og hann gerði allan tímann sem hann var heilbrigðisráðherra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2019 | 14:16
Bjarni skrifar bréf
Bréf fjármálaráðherra til Bankasýslunnar var óvænt útspil. En algerlega tilgangslaust á þessum tímapunkti málsins. Efni bréfsins varða ákvarðanir bankaráða ríkisbankanna, sem teknar voru fyrir meira en ári síðan og hafa verið á allra vitorði síðan. Það sem við vissum hins vegar ekki var, að Benedikt Jóhannessen frændi Bjarna, hafði sýnt þann manndóm og kjark, að senda tilmæli til undirstofnana ráðuneytisins, sem hann stýrði á þeim tíma og farið fram á, að menn stilltu sig í græðginni. Á það var ekki hlustað, hvorki af stjórnum bankanna eða á fundum djúpríkisins. Þegar Benedikt svo upplýsir um þetta bréf sem Bjarni er búinn að vita af allan tímann, þá sjá pr ráðgjafar Sjálfstæðisflokksins að þetta lítur ekkert sérstaklega vel út fyrir Bjarna og ríkisstjórnina. Það er þá sem hugmyndin að bréfinu til Bankasýslunnar fæðist.
Bréfið er ómerkilegt PR stunt. Og alls ekki til þess fallið að koma á samtali við verkalýðsforystuna. Ekki frekar en viðbrögð ríkisstjórnarinnar vegna gagnrýni á Kjararáð. Það er alveg sama hve oft Katrín Jakobsdóttir endur tekur þvæluna sína um að;
stjórnvöld hafi verið að taka á launamálum hjá hinu opinbera, til dæmis með því að leggja niður kjararáð. Tryggja þurfi að launaákvarðanir stjórnenda hjá hinu opinbera séu teknar með gegnsæjum og fyrirsjáanlegum hætti.
Hvernig í ósköpunum er hægt að halda því fram að stjórnvöld hafi verið að taka á launamálum hins opinbera til lækkunar á óábyrgum úrskurðum Kjararáðs, sem voru líka í andstöðu við heimildir Kjararáðs í lögum? Þessa möntru sína endurtekur Katrín trekk í trekk og aldrei gera fjölmiðlamenn athugasemdir. Hverju breytir að leggja Kjararáð niður ef ekki er meiningin að endurskoða ákvarðanir þess?
Úrskurðir Kjararáðs voru birtir í samráði við Bjarna Ben. Bæði efni þeirra og tímasetning birtinga. Formaðurinn er sérstakur vinur fjármálaráðherra og auðvitað ræddi Jónas við Bjarna um þessa úrskurði. En hvers vegna er ekki hægt að birta fundargerðir Kjararáðs? Er þar eitthvað sem almenningur má ekki vita um....
Launaruðningur hins opinbera kallar á að hér verði settur á 80% hátekjuskattur á laun yfir 2 milljónir. Einnig verði sett í lög að laun á vinnumarkaði megi aðeins hækka um sömu krónutölu og semst um til hækkunar á lægsta mögulega taxta.
Ójöfnuðinn sem felst í prósentuhækkunum verður að stoppa með lögum. Það er ekki hægt öðruvísi. Kannski að Bjarni skrifi nýtt bréf og stíli það á forseta ASÍ, þar sem hann felst á kröfur Verkalýðshreyfingarinnar um breytingar á skattaumhverfinu. Það er bréfið sem beðið er eftir. Hitt bréfið hefði alveg mátt týnast í póstinum enda þarf hann ekkert að senda djúpríkinu opinber bréf. Þeir eru alltaf að hittast hvort sem er.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2019 | 23:23
Hvað er að frétta af Siðanefnd Alþingis?
Af hverju skyldi nú traust til Alþingis mælast svona lágt? Allt undir 50% er óásættanlegt fyrir kjörna fulltrúa þjóðarinnar. Gæti verið að skýringin á tortryggninni sé vegna sjálftöku þingmanna eða vegna fyllirísrauss Miðflokksins á Klausturbar eða vegna vandræðagangs forseta þingsins á að tækla það mál? Eða kannski vegna alls þessa?
Eitt er víst að alþingi er ekkert að gera í því að efla traust almennings gagnvart störfum þess. Enda er stjórnarskráin í gíslingu flokkanna. Afleiðingarnar eru að lýðræði er fótumtroðið. Þrígreining valds er hér bara að nafninu til og sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu er akkúrat jafn mikið og 12. ráðherrann, sem er titlaður forseti Alþingis, leyfir. Og 12. ráðherrann er skipaður í embættið af ríkisstjórn hverju sinni til þess að sjá um að þingið sé aðeins afgreiðslustofnun mála sem koma frá ríkisstjórninni. Þetta sætta þingmenn sig við vegna þess að þeir fá vel borgað fyrir litla vinnu og enga ábyrgð. Enda harðneita þeir að segja af sér þingmennsku þótt almenningur krefjist þess og siðareglur ætlist beinlínis til þess.
Ég veit ekki hvað almenningur getur gert til að þrýsta á um nýja stjórnarskrá. Ég held að það þurfi alvöru þjóðargjaldþrot eða hersetu erlends ríkis. En stjórnmálamenn eru löngu komnir fram yfir síðasta söludag. Þeir geta haldið sínar skrípakosningar og haldið áfram bullinu og þvaðrinu og lyginni og ráðið sér rándýra PR þjóna, en allt er þetta sýndarmennska. Pólitík á Íslandi hefur aldrei snúist um almannahag og að þjóna umbjóðendum. Þetta fólk sem kemst á framboðslista er þar af einni ástæðu og aðeins einni. Það er öruggt að það gerir ekkert nema styðja við hagsmuni elítunnar og þeirra sem hafa tekið allt fémætt hér á landi til eigin nota. Kannski bæta þeir samt við nýrri grein í gömlu stjórnarskrána og hún mun hljóða svona:
Allar auðlindir skulu vera í einkaeigu. Auðmenn skulu undanþegnir öllum sköttum hér á landi gegn því að þeir haldi áfram að kaupa upp innviði landsins svo sem; Vegi, fjarskiptanet, flugvelli, ferðamannastaði, alla veitustarfsemi og orkuframleiðslu. Einnig skulu auðmenn fá einkarétt á heilsutengdri ferðaþjónustustarfsemi og rekstur sjúkrahótels verður um alla framtíð í höndum Ásdísar Höllu og fjölskyldu hennar.
![]() |
Traust til Alþingis minnkar mjög |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.3.2019 kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2019 | 18:45
Konan með langa nafnið ætlar að selja Landsvirkjun
Konan með langa nafnið upplýsti á aðalfundi Landsvirkjunar í dag, að ríkisstjórnin hefði ákveðið fyrir nokkrum vikum að kaupa alla hluti í Landsneti. Ákvörðun sem gæti sýnst eðlileg í sjálfu sér nema af þeirri einföldu ástæðu að ríkið á nú þegar 65% í Landsneti í gegnum 100% eignarhlut sinn í Landsvirkjun og einnig eru engar kröfur eða þrýstingur á breytt eignarhald af hálfu ESB.
"Engu að síður liggur fyrir að öllum helstu hagsmunaaðilum hér á landi finnst slíkur eigenda-aðskilnaður skynsamlegur. Það er að segja: Að til lengri tíma litið sé óheppilegt að flutningsfyrirtækið Landsnet sé í eigu raforkuframleiðenda og dreifiveitna. Frá sjónarhóli neytenda er auðvitað augljóst að sjálfstæði flutningsfyrirtækisins stuðlar að jafnræði annarra aðila á markaði, sagði Þórdís Kolbrún.
Það er sem sagt ekki fyrr en búið er að einkavæða Landsvirkjun sem þessi kaup á Landsneti verða skynsamleg! Við vitum að hjá þessari ríkisstjórn er ekkert gagnsæi. Hver ráðherra er eins og kóngur og stjórnsýslan er meira í ætt við einveldi en þingbundið lýðveldi. Hver var til dæmis aðkoma alþingis að þessari ákvörðun um að kaupa Landsnet? Þarf ekki fjárveitingavaldið að samþykkja svona kaup? Og eru áform Sjálfstæðisflokksins um að einkavæða Landsvirkjun komin lengra en almenningur veit? Ég er skíthræddur við þessa ríkisstjórn. Ég held við höfum aldrei haft jafn samhentan hóp ráðherra áður, sem eru jafn forhertir í stjórnarathöfnum og öruggir með sig að þeir geti í skjóli meirihluta framkvæmt öll óhæfuverk sem þeim dettur í hug vegna þess að það sem sameinar þennan meirihluta er fyrirlitning á minnihlutanum og fullvissa um eigið ágæti og óskeikulleika.
28.2.2019 | 14:57
Áhrifalaus á Íslandi
Gaman þætti mér að vita hvernig CEO Magazine í Ástralíu, fær það út að Katrín Jakobsdóttir sé á meðal 20 áhrifamestu konum í heiminum í dag. Er hún áhrifamikil vegna þess að hún er forsætisráðherra Íslands? Eða er þetta bundið við kyn hennar sem konu? Ef þetta er kynbundinn áhrifamáttur þarf þá ekki að benda á eitthvað sem Katrín hefur sagt eða gert sem hefur skipt einhverjum sköpum? Ég hef gruflað í huga mér dágóða stund en man ekki eftir neinu. Hins vegar eru ótal dæmi, þar sem hægt er að benda á að orð og gjörðir eru sitthvað hjá þessari konu sem sett var í stól forsætisráðherra af Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins. Og þar með gerð áhrifalaus, ekki bara í ríkisstjórn heldur líka meðal íslensks almennings sem misst hefur allt traust á stefnu VG við það að sjá formann flokksins, svíkja hvert stefnumál Vinstri Grænna af öðru , í þjónkun við þann sem öllu ræður í ríkisstjórnarsamstarfinu.
Vill einhver ung kona líkjast Katrínu? Ef það er sá mælikvarði sem er notaður. Ég á bágt með að trúa því. Fyrirmyndir verða að hafa prinsip, lífsreglur sem þær fara eftir. Katrín hefur engin slík prinsip. Fyrirmyndir verða að vera trúverðugar og segja það sem þær meina og meina það sem þær segja. Katrín hefur á sínum stutta ferli sem stjórnmálamaður blekkt fólk og fórnað eigin trúverðugleika í eftirsókn eftir stöðutákni. Stöðutákni sem hefur ekkert gildi eitt og sér.
Katrín fer í sögubækurnar með sömu eftirmælum og Sigmundur Davíð. Bæði voru þau áhrifalausar hækjur Sjálfstæðisflokksins, sem notaði þau til að halda völdum í andstöðu við meirihluta kjósenda. Þess vegna er þjóðfélagið að gliðna í sundur. Á Íslandi búa ekki 2 þjóðir heldur 3.
Til hamingju Katrín með það!
![]() |
Katrín ein af 20 áhrifamestu konum heims |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.2.2019 | 20:35
Endurkoma Kristjáns Arasonar í RÚV
Íþróttafréttakona RÚV, sem jafnframt er spyrill í Gettu betur, er greinilega mikill aðdáandi Kristjáns Arasonar sem frægastur er fyrir að hafa fengið milljarð að láni hjá Kaupthinking sem hann þurfti ekki að borga til baka. Alla vega tókst henni að koma nafni Kristjáns að í síðasta þætti Gettu betur og svo var hún líka með fleðuviðtal við þrjótinn í íþróttatíma RÚV rétt áðan.
Mér er misboðið því innherjasvik Þorgerðar og Kristjáns eru alls ekki gleymd.
Þess vegna ætla ég að endurbirta níðbraginn sem ég orti fyrir nokkrum árum. Þessi bragur eða ríma, rekur sögu aðdraganda hrunsins. Þegar Bjarni Ben seldi bréfin sín í Glitni og Baldur ráðuneytisstjóri seldi sín bréf í Landsbankanum og svo er rakið hvernig Kristján og Þorgerður stofna einkahlutafélagið 7 hægri utan um lánið frá Kaupþingi. Fyrir þá sem eru búnir að gleyma þá skal það rifjað upp, að Þorgerður Katrín var menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma. Þess vegna hafði hún innherjaupplýsingar varðandi veika stöðu allra bankanna.
--------------------------------------------------------------------------
Til innherja alls ekki teljast
ef af Flokknum til ábyrgðar veljast
Þótt Þorgerður þætti ekki hlýðin
þá tókst henni að dáleiða lýðinn
-Sama hvað alþýðan argar
elítan alltaf sér bjargar-
Sem yfirmann íþrótta og menntar
af því að öllum það hentar
þingflokkur Þorgerði setti
og þjóðin tók andköf af létti
-Sama hvað alþýðan argar
elítan alltaf sér bjargar-
Þá var hér þjóðlíf í blóma
fólk þekkti ekki Steingrím og Dróma
Þá var hlegið og grillað í Hruna
það hljóta nú allir að muna.
-Sama hvað alþýðan argar
elítan alltaf sér bjargar-
En lofa skal dag hvern að kveldi
kænn gerðist Baldur og seldi
bréfin sín bankanum í
en Brown bar nú ábyrgð á því
-Sama hvað alþýðan argar
elítan alltaf sér bjargar-
Þá Þorgerður þurfti að fara
því gift var hún Kristjáni Ara
Það fannst engum undrunum sæta
enda áttu þau hagsmuna að gæta
-Sama hvað alþýðan argar
elítan alltaf sér bjargar-
Er læddist að Hafnfirska húmið
hjónin sér hröðuðu í rúmið
Andlega órótt í geði
enda fjárhagsleg staða í veði
-Sama hvað alþýðan argar
elítan alltaf sér bjargar-
Undir konuna settur er koddinn
Kristján vill fá sér á broddinn
Við atganginn allt fer í lakið
uppgefin leggjast á bakið
-Sama hvað alþýðan argar
elítan alltaf sér bjargar-
Þá formaður Flokksins til vara
frétt sagði Kristjáni Ara
að allt væri að fara til fjandans
-Fallvölt er frjálshyggja andans-
-Sama hvað alþýðan argar
elítan alltaf sér bjargar-
Og grípa þau verði til varna
og verjast með Einari og Bjarna
sem björguðu Engeyjar auðnum
undan nefinu á Lárusi sauðnum
-Sama hvað alþýðan argar
elítan alltaf sér bjargar-
En nú var úr vöndu að velja
verðbréfin mátti ekki selja
Græðgislán glóparnir taka
sem geta aldrei borgað til baka
-Sama hvað alþýðan argar
elítan alltaf sér bjargar-
Arðsemi bréfanna búið
bankahrun varð ekki flúið
En fléttan sem fullkomnar ránið
felst í að afskrifa lánið
-Sama hvað alþýðan argar
elítan alltaf sér bjargar-
Nú áhyggjum þeirra er að slota
enda 7 Hægri löngu gjaldþrota
En álögur væru hér lægri
ef lögsótt við gætum 7 Hægri
-Sama hvað alþýðan argar
elítan alltaf sér bjargar-
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2019 | 19:24
Borðar sínar pylsur sjálf
Konan með langa nafnið sem ég man aldrei hvað heitir lýsti því yfir á Alþingi í dag að ekki væri hægt að borða verðbólgu eða vaxtahækkanir. Þetta þóttu miklar fréttir og lagðist þingheimur undir feld í smástund til að melta boðskapinn.
Þá rifjaðist upp fyrir þeim að þingkonan var nýkomin úr lúxusreisu þingflokks Sjálfstæðisflokksins þar sem fólk baðaði sig uppúr bjór og snæddi humar og drakk dýrasta hvítvín með í boði Áslaugar Örnu varaformanns flokksins. Einnig rámaði þingheim í að aðstoðarkona ráðherra hafði séð ástæðu til þess að lýsa því yfir að hún borgaði sínar pulsur sjálf hvaða máli svo sem það skipti. Því það sem skiptir máli er auðvitað hver borðar pylsurnar en ekki hver borgar þær. Það er enginn að fara að taka upp veskið og borga. Reikningurinn er bara sendur á skrifstofu Alþingis þar sem Helgi Bernódusson lætur hann hverfa.