Færsluflokkur: Stjórnarskrármálið
13.10.2010 | 20:16
Persona non grata
Stjórnarskrármálið | Breytt 9.2.2013 kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.10.2010 | 14:27
Stjórnlagaþing 5. hluti Almennt um Stjórnarskrána
Almennt um Stjórnarskrána
Almennt um hæfi
Eins og nú háttar málum er enginn óháður aðili sem leggur mat á hæfi alþingismanna, ráðherra og pólitískt ráðinna aðstoðarmanna. Eiðstafur tilvonandi alþingismanna er látinn duga, aðrir eru ráðnir út á kunningsskap eða í greiðaskyni. Nauðsynlegt er að um allar ráðningar gildi ákveðið ferli. Í kjölfar hrunsins hafa brotalamirnar í stjórnsýslunni komið betur og betur í ljós. Margir þykjast sjá dæmi um siðblinda embættismenn og stjórnmálamenn sem vaða hér upp út um allt. Einfalt hæfnispróf sem myndi afhjúpa siðblindu og aðra óæskilega persónuleikaröskun virðist vanta sem tæki til að velja hæft fólk til starfa. Hvort setja þurfi sérstakt ákvæði í stjórnarskrána er álitamál en þetta þarfnast umræðu.
Ríkistrú
Í núgildandi stjórnarskrá , nánar til tekið 6. Kafla, er ákvæði um að hin EVANGELÍSKA LÚTERSKA KIRKJA SKULI VERA ÞJÓÐKIRKJA á Íslandi. Þetta mundi í dag falla undir trúarbragðamismunun og mannréttindabrot. Nauðsynlegt er að fella 6. Kaflann á brott í heilu lagi. Hér verður að fara fram lögskilnaður ríkis og kirkju.
Réttindi og skyldur þegnanna
Árétta þarf rétt þegnanna til fulls tjáningarfrelsis óskoraðs mótmælafrelsis og óskoraða atvinnufrelsis.
Kaflinn um mannréttindi er mjög ófullkominn í núgildandi stjórnarskrá. Þar þarf að skerpa á ákvæðum um eignarrétt ríkis og þegna, hvenær réttlætanlegt sé að beita eignaupptöku og svo framvegis. Einnig þarf að takmarka rétt manna til að stofna og vera í félögum sem beinlínis ógna almanna öryggi, eins og ýmis mótorhjólasamtök og félög eða samtök sem hafa kynþáttaofsóknir á stefnuskrá. Og svo vantar algerlega að fjalla um skyldur þegnanna. Skyldur til að hlýða reglum samfélagsins og virða annarra réttindi. Heimilt skuli að svipta þá menn og konur, ríkisfangi, sem brjóta gegn þjóðfélaginu. Árétta þarf hvað felst í trúfrelsi. (margir halda að aðskilnaður ríkis og kirkju þýði að guðsþjónustur og prestverk í kirkjum landsins falli niður) Bannað verði að hengja orður á þjófa og ræningja
Landráð
Landráðakafli hegningarlaganna verði felldur inní stjórnarskrána
Valdaafsal
Bannað verði að gera hvern þann samning við erlent ríki eða ríkjabandalag sem hefur í för með sér skerðingu á sjálfstæði þegnanna og rétti þeirra til að ráða eigin málum.
Lokaorð
Nú er lokið þessum skrifum um Stjórnlagaþingið og stjórnarskrár uppkastið að sinni.
Öllum frambjóðendum er frjálst að nýta sér þær hugmyndir sem ég hef reifað, að hluta eða í heild.
En ég legg á það þunga áherslu að Stjórnarskrárdrögin verði afdráttarlaus yfirlýsing um sáttmála þjóðarinnar um hvernig hún vill lifa saman í þessu landi. Þetta er algjört grundvallaratriði.
það munu koma fram óskir um að fella allskonar áhugamál (umhverfis og friðarsinnar) og hjartans mál (femínistar)og þjóðþrifamál(eignarrétt á auðlindum) inní stjórnarskrána , jafnvel réttlætismál (réttindi homma og lesbía)en þá kemur til kasta þingsins að standa á bremsunni og missa ekki sjónar á takmarkinu.
- Stjórnarskráin má ekki vekja deilur. Stjórnarskráin er sáttmáli um stjórnskipun, grundvallarréttindi og skyldur. Ekkert annað
Stjórnarskrármálið | Breytt 9.2.2013 kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.10.2010 | 11:32
Stjórnlagaþing 3.hluti
Alþingi - Þingrof - þjóðaratkvæðagreiðslur
Með nýrri endurskoðaðri stjórnarskrá mun Alþingi endurheimta vald og virðingu.
Alþingi
i. Alþingi sitji allt árið.
ii. Ekkert má hér framkvæma af ríkisstjórn nema lög leifi
iii. Lög öðlist gildi við afgreiðslu Alþingis.
iv. Heimild til útgáfu bráðabirgðalaga verði afnumin
Þingrof
Þar sem ríkisstjórnin verður ekki lengur kosin af þjóðinni þá verður að afnema vald forsetans til að rjúfa þing. Þetta gerir að verkum að stjórnmálin verða að breytast. Umræður og sættir um umdeild mál verður viðfangsefni þingsins. Forsetinn getur samt beðist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.
Þjóðaratkvæðagreiðslur - 50-50
50-50 vísar til reglunnar um 50% þátttöku og meirihluti ræður. Ef þátttaka nær ekki 50% miðað við kjörskrá þá verður að endurtaka kosninguna. Ef ekki næst löggild niðurstaða í annað sinn, þá sé málinu vísað aftur til Alþingis og ríkisstjórnar sem sameiginlega úrskurði um hvernig með skuli fara. Varamenn skuli við þær aðstæður taka sæti á Alþingi við þessa afgreiðslu.
Til að tryggja lágmarkskostnað vegna fjölda mála sem vísað verður í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá fari þjóðaratkvæðagreiðslur fram samtímis kosningum til Alþingis, þ.e. annað hvert ár.
Skilyrði fyrir að vísa þingmálum til þjóðarinnar verði:
a) Ákveðinn fjöldi alþingismanna getur farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál
b) Ákveðinn hluti þjóðarinnar getur krafist þjóðaratkvæðis um frumvarp sem er tilbúið í
þinginu og skal þá atkvæðagreiðslu um það frumvarp frestað
Ef alvarlegur trúnaðarbrestur verður milli þings og ríkisstjórnar eða ríkisstjórnar og þjóðar þá má krefjast tafarlausrar þjóðaratkvæðagreiðslu
# undir þetta ákvæði fellur líka fordæmislausir gerningar sem koma til kasta Alþingis. T.d Icesave og umsóknin um aðild að ESB
Stjórnarskrármálið | Breytt 9.2.2013 kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2010 | 09:58
Stjórnlagaþing 2.hluti
Stjórnskipunin - Hlutverk forsetans
Þegar Ísland lýsti yfir lýðveldisstofnun 1944, í skugga styrjaldar var það ekki einhuga vilji landsmanna. Stjórnarskráin enda ber þess merki að um hraðsuðu var að ræða. Í 1.gr stjórnarskrárinnar segir: Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn, en svo versnar í því. Strax í 2. grein eru menn komnir í vandræði með hlutverk forsetans. Danir hafa þingbundið konungsveldi og það hygg ég skýri þessa útfærslu með forsetann og forsætisráðherrann.
Í lýðveldi er engin þörf fyrir forsætisráðherra.
Að þessu sögðu, geri ég tillögu um að forsetinn verði látinn taka við hlutverki forsætisráðherrans og hann myndi ríkisstjórn og velji menn til ráðherrastarfa. Hvorki forseti né ráðherrar eigi sæti á Alþingi. Með þessari breytingu tryggjum við aðskilnað framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Einnig ætti slík skipan að tryggja betur að val á ráðherrum verði faglegt en ekki pólitískt.
Samhliða breytingum á hlutverki forsetaembættisins þá verður nauðsynlegt að gera breytingar á skipan Alþingis. Eðli málsins samkvæmt verður forseti að sækja sér pólitískan stuðning til Alþingis til að hrinda málum í framkvæmd. Aðskilnaður framkvæmdavalds og löggjafarvald eykur hinn pólitíska þrýsting. Til að minnka vægi stjórnmálaflokka og koma til móts við kröfu um persónukosningar, dettur mér í hug að kosningar til Alþingis fari fram í tvennu lagi. Fjórða hvert ár, um leið og forseti er kosinn, þá verði 25 alþingismenn kosnir persónukosningu. Þessir alþingismenn verði þjóðkjörnir eins og forsetinn og óháðir. 2 árum seinna, um leið og sveitarstjórnarkosningar þá fari fram kosning 35 manna til Alþingis. Þessi kosning fari fram samkvæmt reglum flokkanna sjálfra um kjördæmaskipun og kosningar. Með því að kjósa í tvennu lagi til Alþingis, þá er tryggt að alltaf er til staðar lágmarksreynsla á þingi til að tryggja eðlilegt þinghald. Þingið starfi samt í einni málstofu eins og nú.
Eins og stjórnskipunin er núna þá er forsetaembættið, silkihúfa sem skapar bæði árekstra og óþarfa kostnað fyrir fátæka þjóð. Á fjárlögum fyrir árið 2011 er forsetanum ætlaðar 175 milljónir bara í rekstur. Laun og launatengd gjöld auk lífeyrisskuldbindinga nema örugglega 50 milljónum. Þetta er óþarfa kostnaður.
Stjórnarskrármálið | Breytt 9.2.2013 kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2010 | 21:51
Stjórnlagaþing I
Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er lítið plagg. Hún kemst fyrir á 4 A4 blaðsíðum. Það er gott. Stjórnarskráin á að vera stuttorð og gagnorð, auðlesin og auðskiljanleg, sem þessi er aftur á móti ekki. Þess vegna er nú komið að því verkefni að þjóðin smíði sína fyrstu eigin stjórnarskrá, sem tekur mið af stjórnskipun og réttindum þegnanna eins og þegnarnir vilja hafa hana, ekki eins og embættismanna og stjórnmálaklíkan á íslandi vill hafa hana. Því er brýnt að vanda vel valið á fulltrúum á stjórnlagaþing.
Ég ætla ekki að bjóða mig fram. Hins vegar hef ég skoðanir sem ég mun setja upp á skýran hátt og senda væntanlegum þingfulltrúum þegar þar að kemur. Ennfremur er öllum frjálst að nýta sér mínar hugmyndir. Þessi blogg pistill er sá fyrsti í röð nokkurra um uppkast að nýrri stjórnarskrá.
Núgildandi stjórnarskrá skiptist í 7 kafla.
1. kaflinn, fjallar um stjórnskipunina
2. kaflinn, fjallar um forseta lýðveldisins, kjörgengi, kosningu, starfsskyldur og kjörtíma.
3. kaflinn, fjallar um kjördæmaskipun, kjörgengi og kosningar
4. kaflinn, fjallar um Alþingi
5. kaflinn, fjallar um skipan dómsstóla
6. kaflinn, fjallar um ríkiskirkjuna
7. kaflinn, fjallar um mannréttindi þegnanna
Þetta er stjórnarskráin eins og hún kom frá Kristjáni X. Danakonungi, með síðari tíma breytingum
Þetta er ekki góð stjórnarskrá. Og þeir sem hana lesa sjá að stjórnvöld fara ekki eftir henni í veigamiklum atriðum. Samt segja stjórnmálamenn að engu þurfi að breyta og standa gegn nauðsynlegum endurbótum. Nýjasta dæmið um ófullkomleika stjórnarskrárinnar birtist okkur í lok sumarþings þegar tekist var á um ráðherraábyrgðina og Landsdóminn.
Í lögum um stjórnlagaþing eru viðfangsefnin tiltekin:
- Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar.
- Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra.
- Hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins.
- Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds.
- Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan.
- Lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnskipunarlaga.
- Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála.
- Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.
Stjórnlagaþing getur ákveðið að taka til umfjöllunar fleiri þætti ef það kýs svo.
Þetta er ágætt, nema það síðasta. Ég tel þvert á móti að forðast beri eins og heitan eldinn að setja inn í stjórnarskrána slagorð og innihaldslausa frasa um þjóðareign á auðlindum, sjálfbæra nýtingu eða herlaust Ísland. Ég tel að stjórnarskráin eigi aðeins að fjalla um stjórnskipunina og réttindi og skyldur þegnanna. Allt annað mun aðeins vekja upp úlfúð og deilur. Það verður að tryggja yfirráð þegnanna yfir auðlindunum með öðrum hætti. Það má ekki drekkja skilgreiningum í einhverri lagatæknilegri þvælu. Í fiskveiðilögunum stendur að fiskurinn sé eign þjóðarinnar. Það er nógu skýrt fyrir alla skynsama menn. Eyðum þessari lagatækni þvælu úr þjóðmálaumræðunni í eitt skipti fyrir öll.
Í næstu pistlum mun ég svo fjalla um endurskoðun á stjórnskipuninni. Endurskoðun á hlutverki forsetans. Endurskoðun á dómstólum, alþingi, kjördæmaskipun, kosningum til Alþingis, aðskilnað ríkis og kirkju, mannréttindi og þegnréttindi, ráðherra ábyrgð og landsdóm, landráð og framsal valds. Og síðast en ekki síst lýðræðisumbæturnar. Það má ýmislegt betur fara að mínu mati
Stjórnarskrármálið | Breytt 9.2.2013 kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)