Færsluflokkur: Stjórnarskrármálið

Stjórnarskrárdrög Stjórnlagaráðs

Nú eru 2 mánuðir síðan að Stjórnlagaráð lauk störfum og skilaði þingforseta afurð sinni sem þau kalla fullum fetum "Stjórnarskrá" og vilja að fari óbreytt í dóm þjóðarinnar. Því miður hefur ekki orðið mikil umræða um þessi drög eins og ég kýs að kalla afurð stjórnlagaráðs. Það er skiljanlegt að þeir sem voru andvígir þessari tilraun reyni að þegja málið í hel en hitt er erfiðara að skilja að þeir sem voru hvað áhugasamastir í fyrra sýni nú jafn mikið fálæti og raunin er. Það er engin launung að mér fannst og finnst enn framkvæmd þessa starfs klúður frá upphafi til enda og illa ígrundað hjá flutningsmönnum og þeim meirihluta Alþingis sem ber ábyrgð á málinu. Fyrir það fyrsta var sá tími sem gafst til starfsins alltof skammur en ekki síst var óráð að afgreiða þetta mál í ágreiningi við helming þingmanna. 

Að semja stjórnarskrá er flókið og erfitt verkefni. Um það er enginn ágreiningur.  þess vegna er það óskiljanlegt að Stjórnlagaráð hafi ekki tekið sér lengri tíma til verksins. Engum trúi ég blandist hugur um að afurð ráðsins þarfnast endurskoðunar og umritunar. Allt of mikið er um merkingarlausar viljayfirlýsingar og allt of margir fyrirvarar eða frávik eru frá meginreglu. Stjórnarskrá á ekki að vera háð túlkun lögræðinga.  Ef almenningur skilur ekki stjórnarskrá lands síns þá er hún ekki nægilega vel orðuð. Núna strax er kominn upp alvarlegur ágreiningur milli forsetans og þingsins um mikilvægi forsetaembættisins í hinni nýju stjórnarskrá. Það eitt nægir til að menn ættu að sjá að hér þarf að gera betur. 

Skapandi vinna felst oft í því að hvíla hugann frá viðfanginu og skoða það svo aftur eftir hæfilega gerjun. Því heilinn hættir ekkert að vinna þótt menn snúi sér að öðrum verkefnum. Ég legg til að stjórnlagaráð komi saman aftur fyrir áramót og lagi það sem betur má fara í texta þeirra draga sem urðu til í sumar. Það þarf ekki dýra aðstöðu eða milljónakostnað. 30 manna salur í Hóteli útá landi er nóg.  Menn eiga sínar fartölvur og þær eru eina vinnutækið sem þarf. KOMA SVO! 


Þurfti mann sem bjó fyrir vestan

Áform stjórnlagaráðs að festa eignarhald þjóðar á villtum dýrastofnum, í stjórnarskrá eru meiriháttar mistök. Þessi áform verður að stöðva og það verður að fást niðurstaða í túlkun á auðlindahugtakinu áður en sett verða inn í stjórnarskrá merkingarlaus og óljós hugtök sem hafa ekkert lagagildi, hvorki sér íslenskt né þjóðréttarlegt.  Í 20 ár höfum við haft í lögum ákvæði sem segir að nytjastofnar við Ísland séu sameign þjóðarinnar.  Á þessu merkingarlausa ákvæði höfum við síðan byggt alla okkar umræðu um auðlindastjórnun ríkisins á fiskistofnum við Ísland. Er nema von að þjóðin sé afvegaleidd þegar samviskulausir stjórnmálamenn haga sér á svona ábyrgðarlausan hátt. Maðurinn er ekki herra náttúrunnar og hvíti maðurinn er ekki æðsti kynstofninn. Öld nýlenduveldanna og lénsherranna er löngu liðin.  Að taka frá mönnum lífsbjörgina er að taka frá mönnum réttinn til að bjarga sér. Þess vegna getur enginn slegið eign sinni á villt dýr. Þess vegna eru áform um að eignarréttarvæða fiskstofna við Ísland regin mistök. Við erum frumbyggjar í eigin landi og frumbyggjarétturinn er heilagur. Öll áform stjórnvalda í þá veru að ríkisvæða fiskimiðin brjóta á frumbyggjaréttinum. Kvóti er aðferð til að eignarréttarvæða hlunnindi. Hlunnindi sem eiga að vera frjáls. Við höfum séð hvernig einkaaðilar hafa sölsað undir sig almannarétt á mörgum sviðum. Eggjatekja, dúntekja, berjatínsla, lax og silungsveiðar, rjúpnaveiðar eru víðast bannaðar eða selt dýrum dómum til forréttindahópa.  Og nú á að leika sama leikinn varðandi fiskveiðar í sjó. Og til að blekkja almenning til að afsala sér frumbyggjaréttinum er honum talin trú um að hann muni njóta rentunnar!  Auðlindarentunnar sem er hið nýja töfraorð sem alla á að gera ríka. Alveg eins og hlutabréfin í bönkunum 2007.  Öll vitum við nú hvernig sú svikamylla var búin til og hverjir högnuðust á henni og hverjir núna eiga að borga tapið.  Nákvæmlega sama á við um aðrar bólur sem blásnar eru upp til að blekkja auðtrúa almenning.  Orkan, fallvötnin, kalda vatnið, heita vatnið. Ekkert af þessum gæðum koma til með að gagnast almenningi til lengri tíma litið. Gjaldskrár almennings munu hækka til að borga hagnað þeirra sem raunverulega hagnast.

Að menn skuli ekki átta sig á því hvað er að gerast er sorglegt.  Það þurfti konu sem býr fyrir vestan til að draga vagn sjávarútvegsráðherra í gegnum þingið.  Og nú þarf mann sem einu sinni bjó fyrir vestan, til að vekja athygli á vitleysunni sem stjórnlagaráð er í þann veginn að fremja að undirlagi spilltra stjórnmálamanna


Enn um þjóðareignarhugtakið

Ég sakna rökræðu hér á þessu bloggi um þann skilning minn að þjóð geti ekki slegið eign sinni á það sem ég kalla hlunnindi til aðgreiningar frá auðlindum.  Ég er að tala aðallega um villt dýr, spendýr , fugla og fiska.  Ég veit ekki um neina þjóð sem hefur í stjórnarskrá, slegið eign sinni á þau dýr sem lifa villt í náttúrunni en hins vegar hafa allar þjóðir helgað sér nýtingarrétt til að veiða og vernda eftir því sem við á. Frumbyggjaréttur hefur í þessu sambandi verið viðurkenndur af alþjóðasamfélaginu. En Íslendingar, þetta furðulega ættbálkasamfélag hirðir ekki um þjóðarrétt frekar en mannréttindi þegnanna. Með fiskveiðistjórnarlögunum 1991 slógu Íslendingar eign sinni á fiskstofnana í hafinu við Ísland og í framhaldinu gáfu spillt stjórnvöld mjög fámennum hópi kvótagreifa, heimild til að eignfæra þessi hlunnindi sem eiga bara að vera í umsjá okkar en ekki eigu. Þessi ólög eru enn í gildi þrátt fyrir að rekja megi lögbrotin í bönkunum varðandi markaðsmisnotkun og bókhaldsblekkingar til þessa skyndigróða sem var bara bóla.  Ætla hefði mátt að menn hefðu notað tækifærið sem bankahrunið olli til að strika þetta gervifjármagn út úr þjóðhagsbókhaldinu í eitt skipti fyrir öll.  En nei fyrirhyggjuleysið og skilningsleysið var algjört enda voru það siðblindir bankamenn og endurskoðendur sem helst voru fengnir til skrafs og ráðagerða við endurreisn fjármálakerfisins.

Alla tíð  hafa deilur staðið um þetta meinta eignarhald  á fiskinum í sjónum. En núna virðist svo komið að þjóðin hefur verið heilaþvegin og flest öllum finnst þetta vera hið besta mál bara ef ríkið braski með þessi gerviverðmæti.  Þar ræður náttúrulega mestu að stjórnmálastéttin vill ná og halda yfirráðum yfir öllum sameiginlegum verðmætum þjóðarinnar og ráðstafa þeim í eigin þágu og vildarvina. Þetta er hið raunverulega takmark.  En til að blekkja fólk þá er talað fjálglega um auðlindir og auðlindarentu sem allir gleypa við því fólk er fífl og er alltaf tilbúið til að láta ljúga að sér. Skoðum bara hvernig stjórnmálastéttin hefur slegið eign sinni á Þingvelli og útdeilir þar sumarbústaðalóðum til vina og ættingja eins og um sé að ræða þeirra einkaeign. Þannig fer um allar ríkiseignir. Þær enda alltaf í höndum flokksgæðinganna með einum eða öðrum hætti og með reglulegu millibili.  Þannig fór með kvótann og þannig verður farið með allar auðlindir í eigu þjóðarinnar ef við leyfum hugmyndum stjórnmálamanna um auðlindaákvæði að ganga eftir. Þess vegna svíður mér að engin almenn umræða er um þjóðareignar hugtakið í sambandi við breytingar á fiskveiðistjórnarlögum.  Ætla menn bara að láta þessar fyrirætlanir ganga eftir og brjálast síðan á blogginu í nokkra daga þegar of seint er að taka í taumana?

Íslendingar eru fífl en eru þeir raunverulega það mikil fífl eftir allsherjarhrunið 2008?  Sorrí en þjóðin getur bara alls ekki slegið eign sinni á fiskinn í hafinu. Fiskurinn er ekki auðlind og þess vegna á ekki að leyfa fjármagnseigendum að braska með þessi hlunnindi á kostnað frelsis og frumbyggjaréttar þeirra sem vilja stunda hér fiskveiðar að atvinnu. Það er allt í lagi að setja lög um veiðar og verndun ef þau lög hafa skírskotun í almannahag en að takmarka atvinnuréttindi manna með því að veita örfáum einkarétt til að veiða of lítið gengur ekki upp. Hér eru svívirðileg stjórnarskrárbrot látin viðgangast og öllum er sama!!   Og menn skulu ekki halda að neitt breytist þótt ríkið taki yfir þessi eignarréttindi sem búin hafa verið til á ólöglegan hátt.  Nýja fiskveiðifrumvarpið veitir ráðherra alræðisvald til að deila og drottna. Og hann setti meira að segja inn sérákvæði um kvóta til áframeldis á þorski.  Ákvæði til að tryggja syni sínum öruggt ævikvöld á kostnað okkar hinna. Spilling- Spilling - Spilling!

Þegar við stækkuðum efnahagslögsögu okkar í 200 mílur, vorum við ekki að slá eign okkar á fiskinn sem syndir innan lögsögunnar. Við tókum okkur hins vegar rétt til að stjórna veiðum og vernd. Því miður höfum við misfarið herfilega með þennan rétt.  Við leyfðum rányrkju með kvótasetningu og það var vísvitandi leyft að veiða alltof lítið magn af fiski til að stýra verði á mörkuðum.  Það er stóri glæpurinn.  Og þetta má ekki ræða.  kvótagreifar eru orðnir svo valdamiklir að þeir stjórna viðhorfum þeirra sem eru þeim háðir með atvinnu og lífsafkomu.  það er gífurleg ábyrgð sem atvinnuveitendur bera og þess vegna verður að berjast á móti því með öllum ráðum að hér verði til of stór fyrirtæki og viðskiptablokkir.  Kjörið tækifæri er að stýra því varðandi sjávarútveginn. Enda er frumbyggjarétturinn sem við eigum að byggja á varðandi nýtingu sjávarfangs, í eðli sínu einyrkjaréttur.  Frumbyggjarétturinn er nýtingarréttur ekki eignarréttur.

Með því að útrýma eignaréttar ranghugmyndum stjórnmálastéttarinnar , þá útrýmum við félagslegu ranglæti og fátækt. Reisum við fjárhag sveitarfélaga og sköpum nýtt og betra Ísland sem stjórnmálastéttin á ekki að fá heimild til að braska með undir yfirskini blekkinga um þjóðareign á náttúruauðlindum. Og skilið okkur Þingvöllum, helvítis aumingjarnir ykkar


Auðlindir og Þjóðareign

Egill Helga skrifar smápistil um hugtakið þjóðareign og klikkir út með að enginn geti átt fiskinn í sjónum vegna þess að hann sé þjóðareign.  Hann sakar líka Lagastofnun um að þvæla þessu hugtaki. Pistillinn vakti nokkra umræðu en þar sem ég hef ekki geð í mér til að skrá mig inná athugasemdakerfi Eyjunnar aftur, þá set ég hér á vefinn mína eigin hugleiðingu.  Einn af þeim sem gerðu athugasemdir hjá Agli , var Þorvaldur Gylfason, sem situr í Stjórnlagaráði og margir binda vonir við að geri skynsamlegar breytingar á Stjórnarskránni. Þó ekki ég, því eftir því, sem ég les meira á vef stjórnlagaráðs, um þær umræður sem þar eru í gangi, þeim mun vonsviknari verð ég.  Segja má að væntingarnar hafi minnkað í öfugu hlutfalli við ganginn í vinnunni hjá þessum fulltrúum.

Ég held að menn séu á miklum villigötum í umræðunni um þjóðareign á fiskstofnum.Fiskurinn í sjónum er ekki auðlind í þeim skilningi sem lagt er upp með hjá stjórnlaganefnd. Ekki frekar en hreindýrin eða gæsirnar. Í mínum huga getur þjóð aðeins gert tilkall til að eiga land. Land, hvort sem er á láði eða legi eru efnisleg gæði og því er hægt að lýsa yfir eignarrétti.  Sama er að segja um það sem er undir yfirborðinu enda eru jarðefni hverskonar hluti af landinu. Allt annað ber að líta á sem hlunnindi og nýtingarréttur á þessum hlunnindum getur verið með margs konar hætti. Í höndum opinberra aðila, ríkis eða einstaklinga. Einkaeign er hægt að þjóðnýta eða taka eignarnámi enda komi bætur fyrir. Ríkiseignir má líka selja og veðsetja. En nýtingarréttur er í eðli sínu leiguréttur og því ekki hægt að selja eða veðsetja.  Þetta er kjarni málsins og óþarfi að flækja umræðuna með bulli um þjóðareign á fiskiauðlindinni í sjónum og ólöglegri veðsetningu þessara hlunninda.

Stjórnlagaráð þarf að taka þetta aftur upp. Fiskinn í sjónum má ekki og á ekki að skilgreina sem auðlind.  Fiskstofnar eru hlunnindi sem við getum gert tilkall til að nýta á meðan þeir eru innan okkar efnahagslögsögu en lengra nær réttur okkar ekki.

Öll kvótasetning er því í eðli sínu ólögleg enda brýtur hún á mannréttindum og jafnræði þegnanna sem eru æðstu réttindi sem ber að vernda. Það er hægt að réttlæta ígrip í nytjar á hlunnindum á grundvelli neyðarréttar en neyðarlög mega aðeins gilda í afmarkaðan tíma. Eftir að tilgangi þeirra hefur verið náð þá ber að afnema þau. Það ber að afnema kvótakerfið strax.  Tilgangurinn var ekki að byggja upp fiskstofna. Tilgangurinn var aðeins að draga úr sókn og minnka fjárfestingu í sjávarútvegi. Þau markmið náðust fyrir 10 árum og vel það.

Ef menn skoða þessa röksemdafærslu hljóta menn að sjá hversu fjarlægt og óraunhæft það er að tala um fiskstofna sem auðlind sem hægt er að skilgreina sem þjóðareign. Því það er líka falin ákveðin hætta í slíkum fyrirætlunum. Með því ranglega að búa til eignarréttindi þá má fara að versla með þau. Ef við göngum í ESB þá er stór hætta á að ESB geti boðið út kvóta á frjálsum markaði úr fiskstofnunum okkar. Ég get ekki séð hvernig við getum varist því ef við framseljum fullveldi okkar til Brussel. Hins vegar þá getum við á meðan við höldum sjálfstæði okkar alltaf ráðið því einhliða hverjir fá að veiða í okkar efnahagslögsögu. Líka úr þeim flökkustofnum sem hingað flækjast, eins og síld, makríl og loðnu. Að ég tali ekki um veiðar á hval og sel.  Menn skuli hafa það alveg á tæru að veiðar á hval og sel eru bannaðar í ESB.  Og það eru sterkir þrýstihópar sem vinna að því að banna allar veiðar með botnvörpu. Ætla menn virkilega að hætta á að það gerist og að eins fari fyrir okkur og Nýsjálendingum!  Ég vona svo sannarlega ekki og því er það krafa mín að Stjórnlagaráð taki auðlindakaflann upp aftur og breyti honum þannig að fiskstofnar séu ekki skilgreindir sem auðlind.  Skilgreining  á hugtakinu þjóðareign, sem fram kemur í lögunum um þjóðgarðinn á Þingvöllum er nefnilega fín og verðmæti í jörðu er sjálfsagt að skilgreina sem þjóðarauðlindir.  En undir það eiga ekki að falla dýralíf eða vatnsréttindi og gufa. Hins vegar er hægt að þjóðnýta land þar sem vatn eða gufa er virkjuð eins og áður sagði. En það er bara allt önnur Ella

e.s gerði smábreytingu á texta til að skýra betur hvað ég á við


Hér vantar meiri valddreifingu

Sveitarstjórnarpólitík síðustu tveggja áratuga hefur gengið út á það að fækka sveitarfélögum og stækka. Sýslumönnum hefur einnig fækkað og nú er talað um að gera landið að einu lögregluumdæmi. Allt er þetta samkvæmt forskrift að sunnan. Miðstýrð ákvarðanataka hefur sogað fólk og fé frá landsbyggðinni og til Reykjavíkur. Afleiðingin er lífskjararýrnun og tilheyrandi fólksflótti frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Þessari byggðaröskun er vel hægt að snúa við. Lausnin felst í meiri sjálfstjórn landshlutanna.  Í staðinn fyrir að útflutningstekjur frá landsbyggðinni fari fyrst suður otg sé síðan deilt út til hinna ýmsu verkefna á landsbyggðinni af stjórnlyndum pólitíkusum þá þarf að gjörbylta stjórnskipun. Hér þarf að taka upp forsetaræði og efla heimastjórn héraðanna. Það er hægt að gera með því að taka upp hin fornu Goðorð. Með slíku fyrirkomulagi væru allar ákvarðanir innan héraða teknar af Héraðsþingum en síðan væru haldin Allsherjarþing í Reykjavík fyrir sameiginlegar ákvarðanir. Alveg eins og tíðkaðist hér áður fyrr og er ennþá við lýði í Noregi þar sem fylkin hafa mun meiri sjálfstjórn en landsbyggðin hér.

Þetta skipulag sem hér hefur myndast er slæmt. Ríkisfjármálin eru  í molum vegna þess hvernig Alþingismenn stunda grímulaust kjördæmapot og Ríkissjóður er gjarnan notaður sem skiptimynt í pólitísku baktjaldamakki. Afleiðingin hefur svo verið óðaverðbólga, gengisfellingar og efnahagsstjórn í molum. Þessi séríslenska óráðsía er algjörlega á ábyrgð spilltra pólitíkusa. Þessu breytum við aðeins með því að færa ákvörðunartökuna aftur út til fólksins.  Fólkið sem skapar gjaldeyrinn á ekki að þurfa að betla fyrir nauðþurftum þegar Alþingismenn hafa hirt allt af þeim í skjóli ónýtrar stjórnskipunar.

Við svona stjórnskipunarbreytingar sem ég er að boða, myndi til dæmis sjálfstjórn í auðlindanýtingu færast aftur í hendur heimamanna. Héruðin fengju full og óskoruð yfirráð yfir sjávarauðlindinni hver á sínu svæði sem og vatni og hita í jörðu. Hér þarf að snúa af glötunarveginum þar sem þeir sem geta, mega ekki og þeir sem mega, geta ekki.  Á þensluskeiðinu var fjármagnið miskunnarlaust sogað út úr sjávarútvegsfyrirtækjum á landsbyggðinni og flutt suður og notað þar til að kynda undir hlutabréfabóluna og eignabóluna sem aðeins myndaðist á höfuðborgarsvæðinu nota bene. Þetta hefði aldrei getað gerst ef héruðin hefðu stjórnað fiskveiðum hver á sínu svæði. Þá væri engin þörf á kvótastýringu, hvorki í landbúnaði eða í sjávarútvegi. Þá myndi líka sjálfsvirðing landsbyggðarmanna aukast og lífsgæðin batna. Og þessi fyrirhugaða skipting kvótaskattsins er bara móðgun við landsbyggðina. Ekkert annað. Pólitíkusar eiga ekki að taka sér þetta alræðisvald yfir örlögum almúgans. Og fólkið á ekki að leyfa þessu að gerast!

Þessi stjórnsýsla sem búin hefur verið til utan um spillta stjórnmálamenn þjónar ekki venjulegu fólki. Stjórnsýslan er skjaldborg stjórnmálamanna og vildarvina þeirra. Notum tækifærið og breytum stjórnarskránni fyrir fólkið í landinu. Ekki fyrir elítuna eins og nú er verið að gera. Þessi ofuráhersla á mannréttindakaflann er ekki það sem við þurfum í nýrri stjórnarskrá.  Mannréttindi eru best tryggð með alþjóðlegum og yfirþjóðlegum samningum.


Forsetaræði

Í fyrra þega ég var að velta mér upp úr nauðsynlegum stjórnarskrár breytingum, þá komst ég að þeirri niðurstöðu að ein mikilvægasta breytingin sem þyrfti að gera hér væri að taka upp forsetaræði að Bandarískri fyrirmynd. sjá hér  Ísland er lýðveldi og þessvegna á æðsti embættismaðurinn að vera forseti og stýra framkvæmdavaldinu. Ástæðan fyrir núverandi skipan mála er einfaldlega vegna þess að stjórnarskráin okkar er sniðin að dönskum lögum. Núna við fyrstu alvöru endurskoðunina þá er engin ástæða til að viðhalda hér danskri konungsskipan.Kostir forsetaræðis eru margir. En þessir helstir.

  1. Einföldun og skilvirkni eykst.
  2. Ábyrgð verður skýr.
  3. Þingið öðlast meira sjálfstæði

Núverandi stjórnskipun er gersamlega ónýt. Hér fá fagráðherrar frjálsar hendur og enginn ber ábyrgð á klúðrinu sem fagráðherrar gerast sekir um. Og svo hin geigvænlega sóun ríkisfjár sem er líka afleiðing ráðherraræðisins. Þetta nýja frumvarp til breytinga á Stjórnarráði Íslands er gagnslaust ef ekki verður gerð breyting á hlutverki og stöðu forsetans.  Íbúafjöldinn á Íslandi er á við starfsmannafjöldann hjá General Motors. Við þurfum ekki svona mikla yfirbyggingu. Við höfum ekki efni á svona mikilli yfirbyggingu. 

Þar fyrir utan þá eru núverandi kosningalög með þeim hætti að við vitum aldrei hverja við erum að kjósa til Alþingis eða hverjir mynda stjórn. Beint lýðræði felst í að kjósa forsetann beint. Þá fær fólk þann einstakling sem það treystir til að stýra þessu fámenna þjóðfélagi.  Það er fyrsta skrefið að sátt í þjóðfélaginu.

p.s.  Til að taka af öll tvímæli þá er ég að tala um forsetaembættið. Ekki þann einstakling sem nú gegnir því. Enda var hann kosinn á allt öðrum forsendum


10 tillögur að nýjum Stjórnlagaþings lögum

Hæstiréttur hefur talað og nú liggur fyrir vilji meirihluta Alþingis að þjóðin fái sitt Stjórnlagaþing.
Því ber að slíðra sverðin og sameinast um að setja ný lög um kosningar til stjórnlagaþings.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur varpað af sér lambsgærunni og komið til dyranna eins og hann er klæddur.
Við skulum víst halda Stjórnlagaþing í trássi við vilja hans. Sjálfstæðisflokkurinn heldur sig geta farið sínu fram og þvælst í vegi fyrir lýðræðisumbótum. það er rangt.

  1. Fyrri lög alþingis voru meingölluð eins og óþarft er að hamra á. Auðvelt ætti að vera að bæta úr þeim formgöllum sem hæstiréttur benti á en það er ekki nóg.
  2. Alþingi má ekki skerða sjálfstæði stjórnlagaþings með beinum fyrirmælum og öðrum afskiptum af skipulagi starfsins. Fulltrúarnir eiga að ráða sinni vinnu sjálfir.  
  3. Ekki má takmarka starfstíma stjórnlagaþingsins, það verður að fá þann tíma sem það þarf
  4. Kosnir verði 63 fulltrúar á stjórnlagaþing og taki kjörgengi mið af reglum um forseta lýðveldisins ( reynslulaust fólk og krakkar undir tvítugu eiga ekkert erindi inná svona þing)
  5. Stjórnlagaþingið fari fram í húsakynnum Alþingis og nýti alla aðstöðu þess. Óþarft er að leggja útí tvöfaldan kostnað. Útlit er fyrir að Alþingi verði komið í sumarfrí þegar stjórnlagaþing getur hafið störf og dragist starf þess langt fram á haust eða lengur þá er hægt að samræma þingfundi Alþingis og Stjórnlagaþings þannig að ekki rekist á hvort annað (þegar Alþingi tekur sér frí vegna starfsdaga og kjördæmavikna og hvað allt það heitir þá taki Stjórnlagaþingið yfir fundarsali og aðra aðstöðu)
  6. Stjórnlagaþingsvinna verði þegnskylduvinna.  Þeir sem nái kjöri missi ekki í neinu þau laun og réttindi sem þeir hafa hjá sínum vinnuveitendum og óheimilt verði að segja þeim upp starfi. Ef kjörinn fulltrúi er án atvinnu skal honum tryggð laun úr ríkissjóði samkvæmt framfærsluviðmiði.
  7. Kosning til Stjórnlagaþings verði rafræn og þeir sem ekki geti eða vilji kjósa rafrænt fái að taka með sér aðstoðarmann ef þeir þurfa við utankjörfundar atkvæðagreiðslu
  8. Stjórnlagaþing skili af sér heildstæðri stjórnarskrá sem borin verði upp í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hver grein verði þannig borin undir þjóðina til samþykktar eða synjunar.
  9. Alþingi hafi aðeins heimildir til að fjalla um þær greinar stjórnarskrárinnar sem þjóðin samþykkir ekki
  10. Hin nýja stjórnarskrá svo samþykkt af Alþingi verði að lögum án þjóðaratkvæðagreiðslu

Jæja þá er að sjá hvernig stjórnlaganefnd ritskoðar

Réttlæti, velferð, jöfnuður
Allir eigi rétt á vinnu, framfærslu, ókeypis menntun, heilbrigðisþjónustu áháð búsetu, með einn lífeyrissjóð í landinu sem ekki skerði lífeyri sökum sparnaðar.

Friður & alþjóðastarf
Ísland stuðli að friði í heiminum og eigi gott alþjóðlegt samstarf þar sem mannréttindi, sjúkdómavarnir og fullveldi Íslands verði í heiðri höfð.

Lýðræði
Ísland er lýðræðisríki og eitt kjördæmi - þar sem er persónukjör. Stjórnarskráin sé endurskoðuð við breyttar aðstæður. Meirihlutakjörinn forseti hafi synjunarvald.

Náttúra Íslands, vernd, nýting
Náttúra og auðlindir landsins eru óframseljanleg þjóðareign sem ber að vernda, umgangast og nýta á sjálfbæran hátt þannig að aðgengi almennings sé tryggt.

Valddreifing
Við viljum þrískiptingu valdsins, valdameiri forseta og varaforseta, aðskilja ríki og kirkju, sjálfstæða dómstóla, jafnan atkvæðisrétt og eitt kjördæmi.

Siðgæði
Alþingi hlíti niðurstöðu stjórnlagaþings, nýrrar siðanefndar fólksins og alþingismenn fái sömu eftirlaunakjör og almenningur, en að auki missi þeir rétt til endurkjörs brjóti þeir af sér.

Friður & alþjóðasamvinna
Sjálfstæð þjóð í herlausu landi sem stendur vörð um auðlindir sínar og er virk í alþjóðlegu samstarfi.

Mannréttindi
Stjórnarskrá tryggi að allir hafi jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu, náms og lágmarksframfærslu óháð búsetu - Mannréttindi skuli ávallt vera hornsteinn lýðveldisins.

Valddreifing, ábyrgð & gegnsæi
Tryggja sjálfstæði dómstóla, forseti hafi neitunarvald, störf alþingis gegnsæ, þrískipting valdsins algjör, ráðherrar eigi ekki sæti á alþingi. Sérfræðiþekking nýtt í ákvörðunartöku fyrir opnum tjöldum.

Lýðræði
Stjórnarskráin tryggir: -Að valdið sé þjóðarinnar -Rétt almennings til áhrifa -Virkni og endurnýjun þings án flokkahagsmuna

Siðgæði
Á Íslandi skal valdhöfum settur skýr rammi með siðareglum þar sem mannvirðing, ábyrgð og skyldur við þegna landsins er haft að leiðarfrelsi.

Land og þjóð
Ísland er sjálfstætt ríki þar sem býr samheldin þjóð með áherslu á manngildi, menningu og vernd þjóðarhagsmuna.

Réttlæti - Velferð - Jöfnuður
Tryggja skal öllum landsmönnum jafnrétti, réttlæti og mannsæmandi lífskjör. Áhersla skal lögð á menntun, velferð barna og jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu

Land og þjóð
Stjórnarskráin ávarpi þjóðina, mæli til um langtímastefnu - mörkun í þjóðmálum, tiltaki að auðlindir landsins séu sameign þjóðarinnar og að hún mismuni ekki trúarskoðunum landsmanna

Mannréttindi
Í stjórnarskrá Íslands skal vernda mannréttindi allra þegna óháð sérkennum einstaklinga. Áhersla skal lögð á réttindi minnihlutahópa, rétt allra til náms og einnig skal eignaréttur ætíð tryggður

Land og þjóð
Íslenska tungu eflum við, auðlindir verjum af mætti, kirkja og ríki með hvort sína hlið, kannski þjóðina sætti.

Réttlæti - Velferð - Jöfnuður
Að tryggja jafnrétti landsmanna með atvinnu, húsnæði, heilbrigðisþjónustu, menntun og velferð barna. Að landið verði eitt kjördæmi og að allir séu jafnir að lögum.

Náttúra Íslands, vernd og nýting
Náttúra Íslands og auðlindir hennar eru sameign þjóðarinnar og ber að vernda þær, jafna arði og aðgengi fyrir komandi kynslóðir.

Þetta er niðurstaða fundarins. Erfitt er að sjá hvaða erindi svona yfirlýsing hefur í stjórnarskrá lýðveldisins. Flest af þessu sýnist mér spegla andlegt ástand þjóðar á barmi hugstolunar.

Nú tekur sem sagt við alvöru vinnan. Þessu bulli verður stungið undir stól og stjórnlaganefnd mun koma með sínar áherzlur sem löngu eru tilbúnar og sem munu verða hin endanlegu drög sem lögð verða fyrir Alþingi. Mark my words!Halo


mbl.is Grunngildin skýrð á þjóðfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mín aðferð við að velja á stjórnlagaþing

Þegar ég geng til kosninga og vel fulltrúa á stjórnlagaþingið í nóvember mun ég hafa eftirfarandi að leiðarljósi:


Fyrirvari

Ég geri ráð fyrir að allir frambjóðendur hafi kynnt sér stjórnarskrána og viti um hvað málið snýst. Ég mun velja frambjóðendur sem endurspegla sem flesta hópa þjóðfélagsins með fyrirvara um að þeir komist gegnum 3 síur, sem ég tel nauðsynlegt að allir noti til að útiloka bullurnar frá að ná kjöri.

Síurnar mínar

1.sía
aldur,menntun,störf   (30-80 ára, iðn, starfs,háskólamenntun, óflekkaður ferill)

2.sía
pólitískir hagsmunir  (engir,sé ekki háður pólitísku valdi efnahagslega eða atvinnulega)

3.sía
ofstækis og/eða öfgaskoðanir ( Ekki þá sem vilja troða sínum persónulegu gildum í stjórnarskrá)

 

 síðan mun ég:

1. Fylgjast með á Svipunni
2. Taka niður nöfn allra sem ég kannast við og gæti hugsanlega kosið
3. Fara í gegnum þann lista og beita síum 1-2-3
4. Ef áberandi skekkja er á listanum sem ég valdi varðandi aldur,menntun og kyn mun ég leiðrétta valið til að dreifingin verði sem mest

Listinn sem ég gæti kosið miðað við framkomnar upplýsingar í dag lýtur svona út:

Þorvaldur Gylfason
Friðrik Þór Guðmundsson
Hjörtur Hjartarson
Guðmundur Gunnarsson  formaður Rafiðnaðarsambandsins
Illugi Jökulsson
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir
  *Lúðvík Emil Kaaber
Pétur Gunnlaugsson á Útvarpi Sögu
Rakel Sigurgeirsdóttir
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Vilhjálmur Þorsteinsson
Erlingur Sigurðarson

Eins og sést á síunum mínum þá hafa stefnumál frambjóðenda engin áhrif á val mitt. Ég fer miklu frekar eftir því hvað ég veit um viðkomandi. Fyrir hvað menn standa. 


Aðskilnaður við Ríkiskirkjuna

Óþarfi er að bíða eftir að 62.grein stjórnarskrárinnar verði felld úr gildi. Ég styð hugmyndir meirihluta mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar að leyfa ekki trúaráróður inní leikskólum borgarinnar. Ég tel að trúaruppfræðsla eigi alfarið að vera á ábyrgð foreldra. Ef foreldrar eru kristnir þá geta þau sótt sunnudagafræðslu kirkjunnar með börnunum sínum og þá sinna þeir uppeldisskyldum sínum en varpa þeim ekki yfir á starfsmenn skólanna. Næsta skref sem við getum vel tekið er að hætta þessum fárálega fermingarundirbúningi sem núna tekur allan veturinn hjá krökkunum í 9. bekk. Í fyrsta lagi eru börn á þessum aldri ekki tilbúin að ákveða hvort eða í hvaða söfnuði þau vilja vera og í öðru lagi felst í þessu mismunun gagnvart börnum sem þegar tilheyra öðrum söfnuðum. Þarna er verið að stofna til ónauðsynlegra árekstra milli foreldra og skóla og foreldra og barna. Tími til að stemma stigu við yfirvöðslu Ríkiskirkjunnar. Þessi skilnaður getur vel orðið friðsamur. það er undir Ríkisbiskupi og starfsmönnum hans komið
mbl.is Tillögur valda óánægju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband