31.10.2016 | 20:48
Kjararáð taki upp fasta krónutöluhækkun
Það er ekkert í lögum sem segir að launakjör æðstu embættismanna, sem heyra undir kjararáð skuli hækka hlutfallslega til jafns við aðrar stéttir. Þess vegna held ég að það sé löngu tímabært að taka upp fasta krónutöluhækkun á laun umfram 800 hundruð þúsund á mánuði. 800 þúsund er sanngjarnt viðmið því það eru um það bil þreföld lágmarkslaun sem fólk á lægstu töxtum og bótaþegar verða að sætta sig við. Þessi fasta upphæð yrði svo reiknuð út frá samningslaunahækkunum sem fólk með 750-799 þúsund fær í gegnum sínar kjarabætur. Gerum ráð fyrir að þessi laun hafi hækkað um 20%, þá hækki nú laun forseta, dómara, ráðherra og alþingismanna um 150 þúsund í stað 500 þúsunda.
Ekki veit ég hvort kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru uppsegjanlegir við svona græðgilaunabætur en auðvitað ætti hér allt að fara upp í loft. Svona mismunun gengur ekki og alls ekki ef aðrir hópar fara af stað með sömu kröfur og þessum toppum hefur verið útdeilt af almannafé. Þjóðfélagið færi á hliðina og ríkissjóður gæti ekki staðið undir slíkum útgjöldum. Þetta hljóta allir að sjá og taka til endurskoðunar sem málið varðar.
Kjararáð hefur verið gert afturreka með úrskurði sína áður og nauðsynlegt að gæslumaður ríkissjóðs tjái sig um þennan skandal. Best væri að reka alla þá sem nú skipa þetta ráð og leggja það niður hið snarasta. Enda engin þörf fyrir dólgahátt ef reglum yrði breytt til samræmis við mínar tillögur.
![]() |
Laun forseta hækka um hálfa milljón |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.10.2016 | 21:43
Samfylkingin er ónýtt vörumerki
Ef Oddný heldur að Samfylkingin eigi sér viðreisnar von í hugum kjósenda þá er það ein skýringin á þeirri útreið sem flokkurinn hennar fékk í þessum kosningum. Það virðist öllum ljóst nema forystufólki Samfylkingar og hinum föllnu þingmönnum, að skýringin á óförum þessa flokks liggur í aðkomu hans að ríkisstjórnum tengdum hruninu og sérstaklega frammistöðu þeirra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þótt þeim sjálfum finnist það ranglátt að vera refsað fyrir erfiðar ákvarðanir í eftirmálum hrunsins þá einfaldlega var pólitísk forysta Jóhönnu Sigurðardóttur veik og hvorki skeytt um hag lands né þjóðar. Margir fengu á tilfinninguna að Samfylkingunni væri hreinlega illa við landsmenn og vildi frekar þóknast fyrirfólki í Brussell en íslenskum brotaþolum bankaræningjanna. Slíkur var málflutningur Össurar Skarphéðinssonar og Árna Páls, sem hlutu loksins þau háðulegu örlög að vera fjarlægðir í krafti valds kjósenda. Því þetta fólk þekkti ekki sinn vitjunartíma. Ekki frekar en Davíð Oddson, sem ætíð hefur neitað að viðurkenna sína ábyrgð af hruninu í embætti seðlabankastjóra.
Allt tal um endurskoðun á stefnu Samfylkingar er ótímabært. Það var ekki stefnan sem brást heldur fólkið sem stýrði flokknum og sem sat á Alþingi í umboði flokksins! Þess vegna á Oddný að gera eins og Björgvin G, segja af sér embætti og leggja til að Samfylkingin verði tekin til pólitískra gjaldþrotaskipta. Í kjölfarið væri hægt að endurvekja Alþýðuflokkinn og fá til þess einlægt hugsjónafólk en ekki tungulipra loddara.
En svo væri líka hægt að lifa án þess að hafa hér sósialískan jafnaðarmannaflokk. ASÍ hefur löngu svikið stefnuna og þess vegna engin réttlæting lengur fyrir pólitísku baklandi vinstri sinnaðs stjórnmálaflokks. Nýja Ísland vill taka afstöðu til málefna sem byggir á upplýstri afstöðu hverju sinni en ekki beygja sig undir flokkaræði gamla Íslands. Það er sá lærdómur sem draga má af pólitískum umhleypingum síðustu ára. Hvort Oddný skynjar það eða ekki skiptir engu máli í stóra samhenginu. Endalok Samfylkingar eru staðreynd sem ekki verður breytt.
![]() |
Kallar á endurskoðun á stefnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.10.2016 | 13:23
Benedikt verður forsætisráðherra
Úrslit kosninganna útilokar annað en myndun ríkisstjórnar undir forystu Benedikts Jóhannessonar. Og hann mun taka frænda litla með og láta hann tækla sérhagsmunina áfram í efnahagsráðuneytinu. Hvort þeir svo velja að taka Sigurð Inga uppí eða Óttarr Proppé er eina óvissan á næstu dögum. Flestir munu láta sér þetta vel líka, ánægðir með sína brauðmola úr hendi Engeyjarættarinnar. Hvort sem um öryrkja eða útgerðarmenn er að ræða.
Með þessum kosningum lýkur vonandi þeim pólitísku átökum sem einkennt hafa störf Alþingis síðustu 8 ár. Stjórnarandstaðan verður varla vígreif í ljósi þessara úrslita. Minnkandi kjörsókn og áhugaleysi almennings fyrir kerfisbreytingum eru ekki beinlínis hvetjandi fyrir Pírata og Vinstri Græna. En vissulega verður þörf fyrir öfluga stjórnarandstöðu á Alþingi ef spá mín gengur eftir. Þar mun reyna á heilindi Katrínar og Birgittu.
![]() |
Eðlilegt að Viðreisn fái umboðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.10.2016 | 13:57
Vantar bætta löggjöf en ekki sýnileika
Eina breytingin sem ég held að verði hjá Neytendasamtökunum undir forystu Ólafs Arnarsonar, er að nú verða samtökin pólitískt trampólín fyrir wannabe pólitíkusa í stað hins verndaða vinnustaðar sem Jóhannes Gunnarsson gerði þau að. Skrítið að öll þau kvörtunarefni sem inná borð Neytendasamtaka koma, væru óþörf ef réttur neytenda væri tryggður í lögum eins og gert er hjá öðrum siðmenntuðum þjóðum. Hér er engin neytendavernd (ekki frekar en tryggingavernd!) Ef svo væri þá væri ekki þetta skefjalausa okur og misneyting látin afskiptalaus hjá bönkunum og smálánafyrirtækjunum og tryggingafyrirtækjunum og greiðslukortafyrirtækjunum og öllum þessum afætum sem starfa í skjóli fjármálaiðnaðarins. Til hvers að leyfa fyrirtæki eins og Auðkenni að starfa hér í skjóli ríkisins? Og svo ætlar nýr formaður að gefa okkur app! Hver skyldi svo hagnast á því í formi auglýsingasölu? Nei hér þarf akki fleiri öpp. Hér þarf bara viðhorfsbreytingu og upplýsingu til almennings um, að neytendaréttur verður aðeins tryggður með víðtækri lagasetningu, sem tekur á því gegndarlausa okri sem hingað til hefur verið óheft. Hvernig væri að siðbótaröfl allra flokka settu nú þetta þjóðþrifamál á dagskrá og hættu að rífast um vexti og verðtryggingu og gjaldmiðla....
![]() |
Vaxtaokrið áþján íslenskra heimila |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.5.2016 | 18:35
Ólafur Ragnar fær feldinn lánaðan
Þegar Ólafur tilkynnir um að hann dragi framboð sitt til baka þá verður það rétt ákvörðun og forðar Ólafi frá þeirri háðung að verða fyrsti sitjandi forseti sem nær ekki endurkjöri. Einnig er rétt hjá Ólafi að eyðileggja ekki þann orðstýr sem hann hefur endurheimt í hugum þjóðarinnar einkum í sambandi við úrslit Icesafe deilunnar og sem talsmaður Íslands í utanríkismálum þegar Össur brázt.
Davíð hefur aftur á móti engum slíkum orðstýr að tapa. Hann eyðilagði hann sjálfur með því að skipa sjálfan sig sem Seðlabankastjóra á örlagatímum. Um það þarf ekkert að fjölyrða nánar. Hvert mannsbarn þekkir þá sögu og þekkir hrædda, bitra, gamla manninn í Hádegismóum sem kennir Jóhönnu Sigurðardóttur um allar sínar raunir og þráir það eitt að öðlast uppreisn æru sem aldrei verður. Davíðs verður ekki mynnst sem mikilhæfs leiðtoga í sögubókum. Hans verður mynnst sem rudda sem misnotaði völd sín að eigin geðþótta og sem þurfti að beita lagasetningu á, til að reka úr embætti seðlabankastjóra!
Ekki séns að þjóðin velji sér slíkan mann að forseta.
![]() |
Allt aðrar kosningar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.5.2016 | 15:06
Losum okkur við óttann
Óttinn er sterkasta afl mannsins. Þetta vita valdafíklar og notfæra sér bæði leynt og ljóst. En nú hyllir undir nýja tíma. Það hefur stigið fram ný tegund stjórnmálamanna sem vilja breyta þjóðfélaginu og losa okkur við gömlu óttapólitíkina. Þetta fólk eigum við að kjósa til forystu á alþing og á Bessastaði. Við þurfum ekki á Ólafi Ragnar eða Davíð Oddssyni, að halda. Þeir eru fulltrúar gamla kerfisins sem spilaði á óttann og urðu að lokum óttanum að bráð. Og sú staðreynd að þeir eru ennþá að þvælast fyrir og telja sig ómissandi, eru sterkustu rökin fyrir því að við losum okkur við þá í eitt skipti fyrir öll.
Guðni er rödd nýja tímans. Hann segir óttanum stríð á hendur og fyllir fólk bjartsýni. Guðni er maðurinn sem við þurfum akkúrat núna að velja sem næsta forseta. Ég hef trú á þjóðinni. Hún hlýtur að vilja losna undan hræðsluokinu.
![]() |
Fagnar því að kosningarnar verði sögulegar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.5.2016 | 23:13
Afneitun-réttlætingar-viðurkenning-bati
Þetta er nokkurn veginn ferlið sem menn sem missa fótfestuna í lífinu, þurfa að ganga í gegnum til að verða aftur virkir í samfélaginu. Þetta er nákvæmlega það sem er að gerast innan þingflokks Samfylkingar og í helstu stofnunum flokksins. Árni Páll virðist kominn á 3.stig ferlisins á meðan aumingja Helgi Hjörvar er ennþá að leita að réttlætingum.
Á þessum tímapunkti er slæmt að efna til átaka í forystukjöri. Miklu nær væri fyrir þetta fólk að átta sig á því að flokkurinn er ekki til fyrir þingflokkinn og stjórnmálaafl verður að hafa skírskotun til kjósenda utan flokksins. Ef menn eru ekki samstiga í bataferlinu verður enginn valkostur fyrir jafnaðarmenn í næstu kosningum. Þess vegna verður að kalla til nýja áhöfn. Þetta lið sem nú þykist ráða við verkefnið er óhæft vegna fortíðardrauganna.
Það var ekki flokkurinn sem brást. það var fólkið!
![]() |
Góð ákvörðun fyrir Árna Pál og flokkinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.5.2016 | 17:12
Hvað greiddi ASÍ fyrir Ásmundarsal 1996?
Eftir að fréttir bárust af fyrirhugaðri sölu Listasafns ASÍ á Ásmundarsal við Freyjugötu hef ég reynt að afla mér upplýsinga um sögu hússins og hvernig það komst í eigu ASÍ. Hefur sú upplýsingaöflun gengið treglega og litlar upplýsingar að finna á netinu. Þó veit ég núna að eftir að Ásmundur dó þá keypti Arkitektafélag Íslands húsið af dánarbúinu og átti það til ársins 1996. En þá kaupir Ingibjörg Sólrún húsið fyrir hönd Reykjavíkurborgar og hyggst breyta því í leikskóla. Engar upplýsingar er að finna um kaupverðið en ásett verð var 22 milljónir 1995. Síðan gerist það að ASÍ á 80 ára afmæli 1996 og við það tækifæri ákveður Ingibjörg Sólrún og R-Listinn að afsala ASÍ húsinu án nokkurs samráðs og í lokuðu ferli þar sem enginn fékk að skila inn kauptilboði. Í ljósi þess að nú hefur ASÍ selt þetta hús fyrir 168 milljónir þá finnst mér eðlileg krafa, að Reykjavíkurborg og ASÍ upplýsi um meint söluverð árið 1996 og hversu mikið ASÍ greiddi í raun af ásettu verði. Ekki er nóg að birta afrit af kaupsamningi heldur verður að upplýsa um hvort greiðslurnar skiluðu sér í raun og veru.
Ef í ljós kemur að þarna hafi farið fram "Borgunarsalan" hin fyrsta þá væri gott að upplýsingarnar kæmu fram fyrr en seinna. Allavega áður en Gylfi eyðir ágóðanum í eigin hít.
![]() |
Listin áfram í Ásmundarsal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.5.2016 | 16:24
Forsetaforritið
Þetta var nokkuð góð kynning hjá Guðna. Og honum tókst vel að búa til jákvæða ímynd af sér, sem flekklausum frambjóðanda. Venjulegum innfæddum Íslendingi, sem þar fyrir utan ætti rætur á landsbyggðinni og sem iðkaði heilbrigðan lífsstíl. Hvítur gagnkynhneigður karlmaður, sem setti fjölskylduna í fyrsta sæti. Maður fólksins, sem myndi hvorki ofmetnast né verða handbendi nokkurs hóps eða hópa.
Þessa forskrift að góðum forseta má síðan nota til samanburðar við aðra frambjóðendur.
Mér fannst sérstaklega athyglisvert að Guðni teflir þarna fram allri fjölskyldunni sem heild og þar er ég sammála. Maki forseta getur ekki staðið utan þessa embættis. Og þrátt fyrir allt þetta lærða umburðarlyndi þá skiptir fjölskyldustaða frambjóðenda miklu máli. Nú til dæmis hefur verið rifjað upp að Ólafur og Dorrit eru ekki í raun sambúðarfólk. Ekki í skilningi laga að minnsta kosti og þetta mun kosta Ólaf embættið að minni hyggju nema hann skilji hreinlega við þessa konu.
Þjóð vill hjón sem eru eitt
eftir Guðna forriti
Ei styðja Ólaf nennum neitt
nema hann dömpi Dorriti
![]() |
Fundur Guðna í beinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.4.2016 | 17:48
Bölvun arfsins
Hlaupa upp til hand' og fóta
haldandi þeim engin bönd.
Pabba hennar málsókn hóta
og heimta arfinn útí hönd.
Um það sem í vændum var
vissu fleiri en þessi tvö.
Efnt var því til útrásar
árið tvöþúsund og sjö.
Í Bretaveldi stuttur stans
og stefnt að doktorsgráðum.
Þar ala þurfti Anna hans
önn fyrir þeim báðum.
Allt er þetta í annál skráð
eins og þið víst munið
Og uppskeran er eins og sáð
en svo kom blessað hrunið.
Framtíðin var fyrir þeim
frestun náms í Oxfordskóla
Og hvergi sést er koma heim
hvað þau földu á Tortóla.
Þótt hvíslað væri að væru rík
þau virtust bara basla
En völl sér vild' í pólitík
vinasnauður Simmi hasla.
Nú þjóðinni um nös er núið
níðinga að kjósa sér
En erfitt er og sjálfsagt snúið
silfursjóð að eiga hér.
Enda raunin það svo reyndist
og réttað var á Austurvelli
að ráðherranum reiðin beindist
sem rjúfa vildi þing í hvelli.
Endirinn þó yrði annar
en að fórna einu fóli
Er því að kenna að þingrof bannar
þráseti á valdastóli.
-----------------------
Eflaust ríkti einhver sátt
og aflandsmálið aldrei skeð
hefði Bogi bróðir mátt
braska allan arfinn með.
Tækifærisvísur | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)