Færsluflokkur: Sjávarútvegsmál

Vernda þarf hrygningarloðnuna

Nú styttist í að loðnan gangi í Flóann og vestur að Snæfellsnesi þar sem hún mun hrygna ef allt gengur upp hjá henni. Í ljósi þess að stofninn hefur farið minnkandi undanfarin ár, er það skrítið að ekki skuli gripið til neinna takmarkana varðandi veiðar á þessum silfruðu fiskum.  Miðað við allt sem vitað er um hrygningu loðnunnar þá ætti sjávarútvegsráðherra nú þegar að setja reglugerð sem banni veiðar á loðnu fyrir vestan línu sem dregin væri í suður frá Reykjanesi. Með því móti væri verið að tryggja umtalsverðum hluta loðnugöngunnar frið við hrygningu og skipin gætu þá þess í stað einbeitt sér að veiðum úr eftirgöngunum sem alltaf fylgja og eru þá ekki jafn langt komnar í hrognafyllingu. Loðnan er undirstaða fæðu þorsksins og það er skammsýni að ganga svona á stofninn eins og gert er við veiðar á hrygningaloðnunni

"Það fer aldrei vel" segir Friðrik J. Arngrímsson

fri_rik_j.jpgFriðrik J Arngrímsson, tjáir sig á dv.is um hugmyndir Rögnvaldar Hannessonar um auðlindagjald í sjávarútvegi. Friðrik segir: „Við vitum ekki enn hvað stjórnvöld vilja raunverulega gera. Við vitum ekki hvort ríkið hyggst innleysa veiðiheimildirnar með fyrningarleið en skilja eftir skuldirnar. Það fer aldrei vel.“

Nei það fer aldrei vel að greiða skuldir sínar. Enda bankar mjög liðlegir við að leyfa kennitöluflakk útgerðamanna þar sem eignir eru færðar í ný félög en skuldir skildar eftir! Það finnst framkvæmdastjóranum allt í lagi og hið besta mál. Ef Skinney-Þinganes, Brim og útgerðarfélög Jakobs Valgeirs á Bolungarvík,  myndu nú sjá sóma sinn í að greiða skuldir sínar við Landsbankann þá væri ekki hætta á að sá banki væri að fara í þrot.  Það þarf að greiða skuldir og það þarf að aflétta kvótaveðum af flotanum. Þess vegna ætti Friðrik Jón frekar að leggja til afnám kvótakerfisins, en að stíga þennan dans við stjórnmálamennina sem eru með glýju í augunum yfir öllum auðlegðarskattinum sem þeir vilja innheimta til að setja  í hítina.


"Vísindaleg" veiðiráðgjöf

Veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar er af mörgum sjómönnum, líffræðingum og öðrum fiskifræðingum talin vera röng. Á Íslandi er engin fræðileg skoðanaskipti eða gagnrýni leyfð. Þótt margoft hafi verið sýnt fram á ranga veiðiráðgjöf þá hafa stjórnvöld engu breytt varðandi þessa vísindalegu ráðgjöf. Hvernig skyldi standa á því?  Þora íslenskir stjórnmálamenn ekki að gagnrýna fiskateljarana af því þeir eiga sér bandamenn hjá ICES? Eða er virkilega búið að framselja fiskveiðistjórnunina, í raun undir Alþjóðahafrannsóknarráðið?  Ef það er svo, þá þarf að skýra það fyrir þjóðinni, hvers vegna það var gert og hver ber ábyrgð á því. Í samfélagi þjóða er mikilvægt að virða alþjóðlega samninga og skuldbindingar og einmitt þess vegna þurfa að gilda um það strangar reglur hvaða heimildir stjórnvöld hafa til að skuldbinda þjóðina. Brýnasta hagsmunamál okkar sem þjóðar er nýtingin á fiskstofnunum.  Núverandi kerfi gengur ekki upp og því þarf að bylta í sátt við alla. Sérstaklega útgerðamenn. Fyrsta skrefið til sátta væri að Hafrannsóknarstofnun viðurkenndi að hugsanlega hafi þeim skjátlast í grundvallaratriðum og það megi alveg endurskoða aðferðafræði þeirra.

Menn hafa bent á Barentshafið og þá reynslu sem hefur fengist þar af auknum veiðum í trássi við veiðiráðgjöf ICES. Af hverju ekki að fara eftir reynslu annarra þegar hún hefur sannað gildi sitt?

 


Kvótakettlingarnir og 5. herdeildin

Erfingjar kvótaauðsins, eru réttnefndir kvótakettlingar. Þeir vinna ekki við greinina, heldur bíða eftir að næsti ættliður á undan þeim deyi svo þeir geti innleyst þennan gífurlega auð, sem nemur 10 milljörðum að meðaltali á hverja af þeim 50 fjölskyldum sem eiga hér 83.90% af kvótanum. Um þetta snýst deilan um fiskinn í sjónum. Kvótakerfið er til þess eins að tryggja eins og kostur er yfirráðarétt þessara kvótagreifa (550 samtals) Uppbygging eða vernd skiptir þá engu.

50 fjölskyldur á Íslandi eiga 83.90% af aflamarki í bolfiski, sem úthlutað er árlega.
16.10% er í eigu allra hinna.  2011 var úthlutað aflamarki til 644 skipa. Ekki er fjarri lagi að álykta að einyrkjar í hópi 16.10% séu um 500 talsins. Allir aðrir sem róa til fiskjar eru því leiguliðar 83.90% hópsins. Nú skulum við reikna,  Heildaraflamark í bolfiski umreiknað í þorskígildi var 1. sept 2010 272.406.000 kíló. Segjum að verð á varanlegu þorskígildistonni sé 2.500 krónur kílóið þá er verðmæti alls aflamarks í bolfiski á Íslandsmiðum fyrir árið 2011,  681 milljarður og þar af leiðir þá eiga 50 fjölskyldur kvóta að verðmæti 571 milljarð eða 11.4 milljarðar á hverja fjölskyldu.

Þetta eru hinar nöktu staðreyndir um kvótakerfið og hvers vegna andstaðan er svona mikil við hverri einustu tilraun til að brjóta það niður. Það er hægt að halda uppi gífurlega sterkri andstöðu fyrir brot af þessu verðmæti sem um er að tefla. Og þótt skuldir útgerðarinnar séu kannski 400 milljarðar þá eru þessir menn að verja 281 milljarð sem búið er að færa til eignar eða er framtíðarvirði erfingjanna.

Það eru þessir erfingjar sem ég uppnefni hér sem kvótakettlinga. Þeir dúkka allstaðar upp í umræðum á netinu og halda uppi öflugum hræðsluáróðri gegn öllum hugmyndum um innköllun kvóta. Til aðstoðar hafa svo þessir kvótakettlingar, her launaðra aðstoðarmanna, svokallaða 5. herdeild, til að tala sínu máli á síðum blaða , í útvarpi og á ráðstefnum innanlands og utan. 5. herdeildin er sundurleitur hópur. Þar er að finna hagfræðinga, lögfræðinga, stjórnmálamenn sveitarstjóra, bæjarstjóra, verkalýðsrekendur, sjómenn og húsmæður. Flestir á launum en alls ekki allir. En hættulegastir eru fiskifræðingarnir sem keyptir voru til að verja þjófnaðinn á fiskveiðiauðlindinni á sínum tíma. Þeir voru flæktir í net blekkinga svo núna snýst þeirra afstaða um að verja heiður sinn sem vísindamanna sem vilja láta taka sig alvarlega..  Það er sennilega mest þeim að þakka að þessi lögverndaði þjófnaður gat átt sér stað og staðist allar atlögur í svona langan tíma.  Á 20 árum er búið að heilaþvo stærstan hluta þjóðarinnar. Síendurtekinn áróður virkar þótt rangur sé.  það er bara staðreynd. 

Nú skal segja þessum ræningjum stríð á hendur. Rangt er rangt og löngu kominn tími til að hætta þessu rugli. Afnemum kvótakerfið og komum á skynsamlegri og sjálfbærri sóknarstýringu. Hættum að falsa bókhald útgerðanna með ímynduðum verðmætum. Veiðum fyrst og vinnum aflann áður en við færum andvirðið til bókar.


Hverjir eru fjandvinir sjávarútvegs?

Hagfræðingur LÍÚ til margra ára, Sveinn Hjörtur Hjartarson, skrifar skrítinn pistil í Fréttablaðið í dag þar sem hann dylgjar um þá sem vilja breyta fiskveiðistjórnarlögunum og kallar þá fjandvini. Í orðaflaumi hagfræðingsins, má samt þekkja að hann er m.a. að gagnrýna alþingismanninn Helga Hjörvar sem hefur verið tilnefndur af Samfylkingunni til að vera Jóni Bjarnasyni til ráðuneytis við samningu nýrra fiskveiðistjórnarlaga. Ef marka má þessa grein hagfræðingsins, þá er LÍÚ nokkuð áhyggjufullt yfir gangi mála enda í fyrsta skipti sem lögum um fiskveiðar er breytt án þeirra samþykkis. Það eru nýmæli.

En er ekki dálítið alvarlegt að kalla alþingismenn upp til hópa fjandvini sjávarútvegs? Af hverju er LÍÚ svona umhugað um að halda í kvótakerfið sem stjórnkerfi fiskveiða þótt búið sé að sýna fram á að markmið kerfisins geti ekki náðst? Kvótakerfi sem stýrikerfi hafa aðeins einn tilgang og hann er sá að vernda þá sem nýta kvótana. Og þar með halda öllum öðrum fyrir utan. Kvótakerfi er ekki til að auka afrakstur fiskveiða. Enda er dapurleg niðurstaða 20 ára tilraunastarfsemi með kvótakerfi í fiskveiðum sú að of lítið er fiskað. Friðunin hefur sannarlega borið ávöxt en kerfið meinar mönnum að auka aflann því þá væri náttúrulega ekki lengur þörf fyrir kerfið. Ef eitthvað er að marka LÍÚ, þá þurfa þeir umfram aðra að leggjast í naflaskoðun á þessu kerfi og spyrja sig hvort ekki sé rétt að fram fari gagnrýnin umræða og endurskoðun á þeim rökum sem lágu til grundvallar því þegar kvótakerfinu var komið á og einnig rifja upp rök þeirra sem í áratug hafa gagnrýnt þetta sama kerfi. Ég hef til dæmis nýlega lesið tæplega 10 ára gamla grein Valdemars Jóhannessonar, sem birtist í Morgunblaðinu þar sem Valdemar fer yfir helstu galla kvótakerfisins og framsalsins og bendir á kosti sóknarkerfisins. Valdimar segir:

Helstu almennir gallar kvóta- stýrðra fiskveiða

  • Ósveigjanleg kvótasetning. Þrátt fyrir hæpnar forsendur krefst kerfið að heildarkvótinn sé ákveðinn fyrirfram. Nóg þekking er alls ekki fyrir hendi. Of mikill heildarkvóti skaðar fiskistofna; of lítill skerðir aflatekjur.
  • Brottkast og rjómafleyting. Brottkast afla fylgir allri kvótastjórnun. Í aflamarkskerfi er hvati til að koma aðeins með verðmætasta fiskinn að landi. Svindlað yrði á mjög dýru veiðilöggukerfi með myndavélum í hvert skip.
  • Hliðartegundir ofveiddar eða hent. Kvótastjórnun veldur ofveiði fiskstofna sem eru utan kvóta. Þegar hliðarafli er kvótasettur er hvati kominn til brottkasts. Í kvótastjórnun eru báðir kostir slæmir.
  • Verðfall í hafi. Verðfall á fiskimarkaði á heimsiglingu gefur ástæðu til að henda jafnvel unnum afla fyrir borð til að fórna ekki verðmætum kvóta fyrir verðlítinn fisk.
  • Kvótasvindl. Mikill hvati er til að svindla á kvótakerfinu enda gert í stórum stíl.
  • Léleg nýting verksmiðjutogara. Vinnsluskip nýta illa veiddan afla. Kvótinn er miðaður við landaðan afla. Ekki borgar sig að leggja kostnað í nýtingu þegar vel veiðist. Í landvinnslu skiptir nýtingin sköpum enda a.m.k. tvöfalt betri en í sjóvinnslu.
  • Of- eða vannýting miða. Kvótastjórnun beinir veiðunum þangað sem von er á verðmætasta fiskinum. Önnur mið eru vannýtt (kvótinn of dýr fyrir verðlítinn fisk) þó að nýting þeirra væri hag landsins fyrir bestu.
  • Skekkja í gögnum. Brottkast, kvótasvindl, misnýting fiskimiðanna og léleg nýting aflans í sjóvinnslu gefur vísindamönnum og fiskveiðistjórn rangar upplýsingar um veiðiálag og gerir mat á fiskstofnum og veiðiþoli erfitt.
  • Hrun fiskistofna. Kvótastjórnun hefur ekki byggt upp sterkari fiskistofna. Þvert á móti.. Virðist valda hruni eftir um áratug. Hér hafa botnfiskveiðar hrunið um 40%. Fiskur geymist ekki í sjónum. Fiskar, sjávarspendýr og fuglar taka 90%, fiskveiðarnar víðast um 10%
  • Ófullnægjandi vísindi. Lífið í hafinu og víðáttur þess eru flóknara en vísindin ráða nú við. Þess vegna er ókleift að stjórna veiðunum á grundvelli þeirra. LÍÚ notar Hafró sem valdatæki.

Helstu gallar framseljanlegs kvóta

  • Þjóðfélagslegt ranglæti. Þjóðin er á móti kvótakerfinu enda mismunað til að nýta sameignina. Löggjafar- og framkvæmdavaldið hunsuðu dóm Hæstaréttar um að þetta sé andstætt stjórnarskránni.
  • Samsöfnun kvóta. Framseljanlegur kvóti færir matadorunum undirtökin í sjávarútveginum. Ókeypis kvótaúthlutun gaf forkot í samkeppninni um kvótakaup. Kvótinn safnast á færri hendur.
  • Byggðaröskun. Vegna einkaeignar á kvóta er unnt að svipta grundvelli undan heilu sjávarbggðunum.
  • Óverðskuldaður gróði. Þeir sem fengu ókeypis kvóta geta selt einkarétt til að nýta fiskimiðin fyrir milljarða króna.
  • Skuldasöfnun - verri lífskjör. Skuldasöfnun útgerðarinnar eykur erlendar skuldir. Þjóðin notar gjaldeyristekjur í vexti í stað vöru og þjónustu.
  • Nýliðun hindruð. Nýir menn geta trauðla unnið sig upp í sjávarútvegi. Ný sóknarfæri skapast síður þegar vantar ferska strauma.
  • Hagkvæmni einkarekstrar skerðist. Eigendur fiskiskipa sem sjálfir stýra skipum sínum fara betur með en jafnvel samviskusamir starfsmenn.
  • Verra fyrir vistkerfið. Tilhneiging eignakvótans til að nýta veiðiréttinn með stórum togveiðiskipum skapar verri kost fyrir vistkerfið en ef fiskurinn væri sótttur með minni skipum með kyrrstæðum veiðarfærum - á öngla, í netum eða gildrur. Olíunotkunin margfaldast.
  • Verra mannlíf. Flestir mundu kjósa að róa á minni veiðiskipum, trillum eða landróðrabátum, þó að tekjurnar væru minni en á stórum togurum, sem þær yrðu ekki með betra mannlífi og fjölskyldulífi.
  • Meiri erlendur kostnaður. Stórútgerð kostar margfalt hærri erlenda fjárfestingu á hvert starf en smábátaveiðar; í skipakosti, tækjum, veiðarfærum, rekstrarvörum og eldsneyti. Stórútgerð flytur störf tengd sjávarútvegi til annarra landa, í skipasmíðastöðvar, til tækjaframleiðenda og olíuframleiðsluríkja. Olíuverð er nú lágt miðað við það sem það getur orðið.
  • Erfitt að breyta til. Alvarlegur galli gjafakvótakerfis er hve erfitt er að fara úr því.
Umfjöllun Valdemars í heild er svo hér í þessu viðhengi, en ég sé ekki betur en allt sem Valdemar sagði fyrir 10 árum um galla kvótakerfisins og gallana á framsalinu hafi rætzt með mjög svo óheppilegum afleiðingum fyrir þjóðarbúið. Ég mæli með að Hjörtur Hjartar kynni sér þessa grein

Það skyldi þó ekki vera að hinir eiginlegu fjandvinir sjávarútvegs séu sjálfir stór-útgerðarmennirnir í LÍÚ ?

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þegar Smáey verður lagt græðir Magnús

smaey.jpgMagnús Kristinsson, eigandi Bergs Hugins í Vestmannaeyjum, sem gerir út 3 togskip, tilkynnti á dögunum um þau áform útgerðarinnar að leggja einu skipa sinna, Smáey VE 144.  Ástæðan sem gefin er upp, er niðurskurður á ýsukvóta.  En þegar við skoðum málið nánar þá sézt að þetta stenzt ekki skoðun. Lítum nánar á staðreyndir og tölur:

Bergur-Huginn hf. er í 13. sæti yfir stærstu kvótahafa landsins með 4.629,570 kg eða 1.71%
Bergur-Huginn gerir út 3 togbáta, þannig að hver bátur getur veitt 1.543 tonn. Miðað við að allur afli sé seldur á markaði og meðalverð sé 250 kr, þá er aflaverðmæti hvers skips um 380 milljónir.  Allir sjá að það er mjög góð rekstrarniðurstaða og margir sem teldu sig vel setta með þessa kvótastöðu. Til samanburðar þá er önnur útgerð í Vestmannaeyjum, sem gerir út sambærilegan bát, Frá VE, aðeins með 934,396 kg í úthlutað aflamark eða aðeins rúm 60% af meðalaflamarki skipa Bergs-Hugins.  Engar fregnir eru um að til standi að leggja Frá VE.

Í þessu dæmi af fyrirhuguðum samdrætti hjá Magnúsi Kristinssyni, sjáum við glöggt hvernig kvótakerfið vinnur gegn þjóðarhag á meðan útgerðarmaðurinn eykur hagnað sinn. Þetta er það sem LÍÚ og hagfræðingarnir kalla hagræðingu. Þegar útgerðarmaður´fækkar störfum í greininni um 14 stöðugildi á sama tíma og hans eigin gróði eykst þá segir Friðrik J. Arngrímsson að kvótakerfið sé að sanna sig!  Kostnaður þjóðfélagsins hins vegar,vegna uppsagna og minni umsvifa hleypur á hundrað milljónum en það er aldrei reiknað inn í dæmið. Hvernig væri að hagfræðingar reiknuðu nú hagkvæmni kvótakerfisins upp á nýtt og tækju tillit til beins taps þjóðfélagsins sem felst í minni afla, færri störfum og færri skipum? Það eru engin rekstrarleg rök fyrir því að leggja Smáey VE 144. Skipið er frekar gamalt og því búið að afskrifa að miklu leyti. Einnig hefur útgerðin gengið mjög vel í fjölda ára svo ekki er um uppsafnaðan rekstrarvanda að ræða. Skipið sem sagt ber sig miðað við úthlutað aflamark. Einu rökin á bak við þessa ákvörðun er græðgi eigandans eða klækir. Kannski á að nota tækifærið og leigja sjálfum sér kvóta og láta áhafnir hinna skipanna taka þátt í því.  Sjómenn eru ofurseldir útgerðarvaldinu. Þeim er alltaf hótað með atvinnumissi og Fiskistofa sem hefur vitneskju um allt svínaríið sem viðgengst í greininni segir ekki múkk. Hvernig stendur á því?


Bjarni Ben og kvótakerfið

Mjög athyglisvert viðtal birtist á visir.is í kvöld.  Þar er Bjarni Benediktsson, hinn nýi bandamaður Steingríms og Jóhönnu í icesave málinu, spurður spjörunum úr. Það er ekki að sjá að hann hafi valið réttar gallabuxur fyrir þetta viðtal, því hann afhjúpar  gríðarlega hagsmunavörslu fyrir LÍÚ. Spurður um álit á fyrirhuguðum breytingum fiskveiðistjórnunarlaganna og viðbrögðum SA, segir hann:

„Það er mikilvægt að hafa í huga að við erum með ríkisstjórn sem nú hefur setið í tvö ár. Allan þann tíma hefur hún valdið óróa og óvissu um framtíð fiskveiðistjórnunarkerfisins. Hún tefldi fram stjórnarsáttmála fyrir bráðum tveimur árum þar sem sagt var að innkalla ætti allar aflaheimildir og fullkomin óvissa var um það hvað ætti að taka við. Við þetta hefur sjávarútvegurinn búið í allan þennan tíma. Með tilliti til þessa þá er það fráleitt að skella skuldinni á sjávarútveginn þegar hann óskar núna, í tengslum við kjaraviðræður, eftir því að fá skýrar línur um framtíðina.

Það hefur átt sér stað samráð þar sem allir hagsmunaaðilar sem máli skipta komu sér saman um lausn. Mér finnst að það sé skylda ríkisstjórnarinnar að taka af skarið um að sú leið verði farin og þá er málið leyst. Ég tel að þegar vel er að gáð þá sé í raun og veru enginn sá grundvallarágreiningur um þetta mál sem forsætisráðherrann vill halda á lofti og þess vegna læðist að manni sá grunur að hún sé eingöngu að reyna að búa sér til óvild til þess að reyna að þétta raðirnar um stjórnarmeirihlutann."

Og þegar fréttamaðurinn spyr, "Gæti lausnin falist í því að taka fyrir framsal á kvóta?" þá er þetta svarið:

„Þegar vinstri stjórnin gaf framsalið frjálst á sínum tíma þá vissu menn að af því myndu hljótast erfiðleikar en hagræðið sem því fylgdi var hins vegar talið nauðsynlegt. Það hefur ekki verið án fórna og við þeim hefur verið reynt að bregðast en sú grundvallarhugsun að hámarka hagkvæmni verður áfram að vera við lýði. Við megum ekki fara aftur að líta á fiskveiðistjórnunarkerfið sem félagslegt úrræði eins og svo víða gildir í Evrópusambandinu."

Í þessum svörum sínum afhjúpar Bjarni áframhaldandi þjónkun við málstað stórútgerðarinnar á kostnað fólksins í landinu. Það getur verið að hann sé laus undan oki Davíðs, en hann er þræll fjármagnseigendanna eins og allir fyrirrennarar hans. Bjarna finnst allt í lagi að hér sé á vegum stjórnvalda haldið uppi byggða og atvinnustefnu í formi félagslegra úrræða en alls ekki megi hrófla við hagsmunum þessara fáu sem eiga nýtingaréttinn á lífsbjörg byggðanna. 1 stórútgerðarmaður á Ísafirði á að njóta meiri réttar en 3000 íbúar.  Það er stefna Bjarna Ben, sem stendur nú frammi fyrir þjóðinni, íklæddur  keisaraskrúða eftir velheppnað uppistand í Valhöll í gær. Bjarni Ben mun ekki leiða hér neina endurreisn ef menn hafa haldið það. Stórskuldugur flokkur er háður fjárframlögum úr hendi útgerðarinnar. Soltinn rakki bítur ekki hendina sem elur hann. Og það gildir fyrir allan fjórflokkinn. Hann mun engu breyta þótt vandalistinn Jón Bjarnason sé að kveikja smáelda hér og þar. Steingrímur eltir hann með slökkvitækið og kemur í veg fyrir skaða

Hér þarf að verða alvöru bylting. Við þurfum engan Jóel litla Færseth. Við þurfum íslenskan Nelson Mandela!


Fiskistofa sefur á vaktinni

vestmeyjahofn.jpgFiskistofu var komið á fót með lögum nr 36, 27.mai 1992.  Upprunalegur tilgangur var að hafa eftirlit með fiskveiðistjórnunarlögunum. Seinna var verkefnum fyrrum stofnana landbúnaðarráðuneytis bætt við, eða eins og segir í 1. kafla, 2.gr

2. gr. Fiskistofa skal annast framkvæmd laga um stjórn fiskveiða og eftirlit með fiskveiðum, svo sem nánar er kveðið á um í lögum um það efni. [Einnig skal Fiskistofa annast stjórnsýslu og eftirlit samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði, lögum um fiskrækt o.fl.]1) Fiskistofa skal annast söfnun, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga á sviði sjávarútvegsmála, [lax- og silungsveiði, fiskræktar, fiskeldis o.fl.]1) sem og önnur verkefni sem stofunni verða falin með lögum eða ákvörðun ráðherra.

 

 Fiskistofa hefur lítt eða ekki sinnt því hlutverki sínu, að sjá um að lögum um fiskveiðar sé framfylgt. Afleiðingin hefur verið stórkostlegt brottkast úti á sjó,löndunarsvindl, vigtunarsvindl, tegundartilfærslur, viðskipti með kvóta og áfram er hægt að telja. En alvarlegasta svindlið tengist samt fiskmörkuðunum, bæði innlendum og erlendum og þeim reglum, sem viðgengist hafa í sambandi við löndun og vigtun.  Að núna fyrst árið 2011, skuli stofnunin ætla að reyna að bæta þar úr finnst mér kosmískt. Sennilega er bara verið að reyna að breiða yfir skítinn með þessu.

Það sem þarf að gera er alvöru stjórnsýslu úttekt á þessari eftirlitsstofnun sem sefur enn á vaktinni.


mbl.is Vigtun ljúki á hafnarvog
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki upp á hlut eins og sjómenn

faxi.jpgLoðnuskipin mala gull fyrir eigendur sína á hverri vertíð. Þar eru sjómenn á ofurlaunum fyrir litla og þægilega vinnu. Vinna við nótina krefst ekki lengur krafta eða seiglu og sjómenn þurfa ekki lengur að landa drullunni sjálfir sem er slíkur lúxus að nú geta jafnvel mestu pjattrófur farið á loðnu.  Loðnuverksmiðjurnar sem allar eru í eigu stór útgerðanna, Granda, Samherja, Vinnslustöðvarinnar og Ísfélagsins, búa hins vegar til gull fyrir eigendur sína og þar er ekki tímt að borga sæmileg laun fyrir þá skítavinnu sem starfsmennirnir inna af höndum á vöktum og með mikiili vinnu. Fyrst sjómönnum er greiddur hlutur þá finnst mér að hið sama eigi að gilda um starfsmenn í landi og löndunargengin. Allir þessir menn eiga jafnan hlut í að búa til þau verðmæti sem úr bræðslunum koma og fráleitt að gera ráð fyrir launaskriði þótt kjör þessara manna verði leiðrétt
mbl.is Formlegum viðræðum við SA slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glitnir og Þorsteinn Már

Hvernig er það með rannsóknina á Glitni og stjórnendum hans, var ekki örugglega búið að fletta ofan af öllu svindlinu í sambandi við Stím?  Það hefur komið fram að Samherji og Kaldbakur keyptu bréf í Glitni og FL Group í gegnum Stím. Sé það rétt, er það þá ekki rakin markaðsmisnotkun?
Óskandi væri að rannsóknum fari nú að ljúka á svindlinu í bönkunum og þætti útgerðarinnar við að halda uppi fölsku hlutabréfaverði. Þá kannski skýrist hverjir hafa rétt á að rífa kjaft og setja stjórnvöldum stólinn fyrir dyrnar og hverjir ekki.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband