11.2.2011 | 21:06
Þeir sem skipta máli
Samkvæmt stjórnarskrá Íslands eru hér á landi kosnir 63 fulltrúar í almennum kosningum til að fara með löggjafarvald og setja leikreglur í umboði þjóðarinnar. Það eru þessir 63 einstaklingar, sem skipta máli og þeir hafa ekki heimild til að framselja þetta vald nema með sérstækum lögum.
Gylfi Arnbjörnsson og Vilhjálmur Egilsson hafa ekkert umboð til að setja fulltrúum okkar á Alþingi einhver skilyrði varðandi almenna lagasetningu um atvinnu og byggðamál eins og við lesum svo oft um í fjölmiðlum. Þessir hagsmunagæslumenn eiga að sinna sínum verkum og semja um kaup og kjör, annað ekki. Það eru ekki þeir sem eiga að ráða ráðum varðandi kvótakerfið, virkjanir eða uppbyggingu stóriðju nema sérstaklega vera inntir eftir áliti á þeim málum. Og þaðan af síður er það í verklýsingu framkvæmdastjóra SA að setja þrýsting á stjórnvöld varðandi gjaldeyris og peningastefnu. Mál er að linni.
Veik ríkisstjórn er auðveld bráð fyrir alls konar utanaðkomandi þrýsting. Veik stjórnvöld freista þess oft að semja við hagsmunahópa til að framlengja líf sitt. Það eru mikil mistök. Nú er svo komið að Jóhanna Sigurðardóttir verður að gera upp við sig hvort það er í raun Alþingi og ríkisstjórnin sem ræður hér í þessu landi eða hvort það verða frekjuhundar ASÍ og SA sem fá sínu framgengt og veikja þar með lýðræðið í landinu. Ef ríkisstjórnin velkist í vafa um vilja þjóðarinnar ber henni að segja af sér og efna til nýrra kosninga. Aðeins þannig fæst úr því skorið hverjum ber stjórnarmyndunarumboðið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2011 | 13:55
Hverjir eru fjandvinir sjávarútvegs?
Hagfræðingur LÍÚ til margra ára, Sveinn Hjörtur Hjartarson, skrifar skrítinn pistil í Fréttablaðið í dag þar sem hann dylgjar um þá sem vilja breyta fiskveiðistjórnarlögunum og kallar þá fjandvini. Í orðaflaumi hagfræðingsins, má samt þekkja að hann er m.a. að gagnrýna alþingismanninn Helga Hjörvar sem hefur verið tilnefndur af Samfylkingunni til að vera Jóni Bjarnasyni til ráðuneytis við samningu nýrra fiskveiðistjórnarlaga. Ef marka má þessa grein hagfræðingsins, þá er LÍÚ nokkuð áhyggjufullt yfir gangi mála enda í fyrsta skipti sem lögum um fiskveiðar er breytt án þeirra samþykkis. Það eru nýmæli.
En er ekki dálítið alvarlegt að kalla alþingismenn upp til hópa fjandvini sjávarútvegs? Af hverju er LÍÚ svona umhugað um að halda í kvótakerfið sem stjórnkerfi fiskveiða þótt búið sé að sýna fram á að markmið kerfisins geti ekki náðst? Kvótakerfi sem stýrikerfi hafa aðeins einn tilgang og hann er sá að vernda þá sem nýta kvótana. Og þar með halda öllum öðrum fyrir utan. Kvótakerfi er ekki til að auka afrakstur fiskveiða. Enda er dapurleg niðurstaða 20 ára tilraunastarfsemi með kvótakerfi í fiskveiðum sú að of lítið er fiskað. Friðunin hefur sannarlega borið ávöxt en kerfið meinar mönnum að auka aflann því þá væri náttúrulega ekki lengur þörf fyrir kerfið. Ef eitthvað er að marka LÍÚ, þá þurfa þeir umfram aðra að leggjast í naflaskoðun á þessu kerfi og spyrja sig hvort ekki sé rétt að fram fari gagnrýnin umræða og endurskoðun á þeim rökum sem lágu til grundvallar því þegar kvótakerfinu var komið á og einnig rifja upp rök þeirra sem í áratug hafa gagnrýnt þetta sama kerfi. Ég hef til dæmis nýlega lesið tæplega 10 ára gamla grein Valdemars Jóhannessonar, sem birtist í Morgunblaðinu þar sem Valdemar fer yfir helstu galla kvótakerfisins og framsalsins og bendir á kosti sóknarkerfisins. Valdimar segir:
Helstu almennir gallar kvóta- stýrðra fiskveiða
- Ósveigjanleg kvótasetning. Þrátt fyrir hæpnar forsendur krefst kerfið að heildarkvótinn sé ákveðinn fyrirfram. Nóg þekking er alls ekki fyrir hendi. Of mikill heildarkvóti skaðar fiskistofna; of lítill skerðir aflatekjur.
- Brottkast og rjómafleyting. Brottkast afla fylgir allri kvótastjórnun. Í aflamarkskerfi er hvati til að koma aðeins með verðmætasta fiskinn að landi. Svindlað yrði á mjög dýru veiðilöggukerfi með myndavélum í hvert skip.
- Hliðartegundir ofveiddar eða hent. Kvótastjórnun veldur ofveiði fiskstofna sem eru utan kvóta. Þegar hliðarafli er kvótasettur er hvati kominn til brottkasts. Í kvótastjórnun eru báðir kostir slæmir.
- Verðfall í hafi. Verðfall á fiskimarkaði á heimsiglingu gefur ástæðu til að henda jafnvel unnum afla fyrir borð til að fórna ekki verðmætum kvóta fyrir verðlítinn fisk.
- Kvótasvindl. Mikill hvati er til að svindla á kvótakerfinu enda gert í stórum stíl.
- Léleg nýting verksmiðjutogara. Vinnsluskip nýta illa veiddan afla. Kvótinn er miðaður við landaðan afla. Ekki borgar sig að leggja kostnað í nýtingu þegar vel veiðist. Í landvinnslu skiptir nýtingin sköpum enda a.m.k. tvöfalt betri en í sjóvinnslu.
- Of- eða vannýting miða. Kvótastjórnun beinir veiðunum þangað sem von er á verðmætasta fiskinum. Önnur mið eru vannýtt (kvótinn of dýr fyrir verðlítinn fisk) þó að nýting þeirra væri hag landsins fyrir bestu.
- Skekkja í gögnum. Brottkast, kvótasvindl, misnýting fiskimiðanna og léleg nýting aflans í sjóvinnslu gefur vísindamönnum og fiskveiðistjórn rangar upplýsingar um veiðiálag og gerir mat á fiskstofnum og veiðiþoli erfitt.
- Hrun fiskistofna. Kvótastjórnun hefur ekki byggt upp sterkari fiskistofna. Þvert á móti.. Virðist valda hruni eftir um áratug. Hér hafa botnfiskveiðar hrunið um 40%. Fiskur geymist ekki í sjónum. Fiskar, sjávarspendýr og fuglar taka 90%, fiskveiðarnar víðast um 10%
- Ófullnægjandi vísindi. Lífið í hafinu og víðáttur þess eru flóknara en vísindin ráða nú við. Þess vegna er ókleift að stjórna veiðunum á grundvelli þeirra. LÍÚ notar Hafró sem valdatæki.
Helstu gallar framseljanlegs kvóta
- Þjóðfélagslegt ranglæti. Þjóðin er á móti kvótakerfinu enda mismunað til að nýta sameignina. Löggjafar- og framkvæmdavaldið hunsuðu dóm Hæstaréttar um að þetta sé andstætt stjórnarskránni.
- Samsöfnun kvóta. Framseljanlegur kvóti færir matadorunum undirtökin í sjávarútveginum. Ókeypis kvótaúthlutun gaf forkot í samkeppninni um kvótakaup. Kvótinn safnast á færri hendur.
- Byggðaröskun. Vegna einkaeignar á kvóta er unnt að svipta grundvelli undan heilu sjávarbggðunum.
- Óverðskuldaður gróði. Þeir sem fengu ókeypis kvóta geta selt einkarétt til að nýta fiskimiðin fyrir milljarða króna.
- Skuldasöfnun - verri lífskjör. Skuldasöfnun útgerðarinnar eykur erlendar skuldir. Þjóðin notar gjaldeyristekjur í vexti í stað vöru og þjónustu.
- Nýliðun hindruð. Nýir menn geta trauðla unnið sig upp í sjávarútvegi. Ný sóknarfæri skapast síður þegar vantar ferska strauma.
- Hagkvæmni einkarekstrar skerðist. Eigendur fiskiskipa sem sjálfir stýra skipum sínum fara betur með en jafnvel samviskusamir starfsmenn.
- Verra fyrir vistkerfið. Tilhneiging eignakvótans til að nýta veiðiréttinn með stórum togveiðiskipum skapar verri kost fyrir vistkerfið en ef fiskurinn væri sótttur með minni skipum með kyrrstæðum veiðarfærum - á öngla, í netum eða gildrur. Olíunotkunin margfaldast.
- Verra mannlíf. Flestir mundu kjósa að róa á minni veiðiskipum, trillum eða landróðrabátum, þó að tekjurnar væru minni en á stórum togurum, sem þær yrðu ekki með betra mannlífi og fjölskyldulífi.
- Meiri erlendur kostnaður. Stórútgerð kostar margfalt hærri erlenda fjárfestingu á hvert starf en smábátaveiðar; í skipakosti, tækjum, veiðarfærum, rekstrarvörum og eldsneyti. Stórútgerð flytur störf tengd sjávarútvegi til annarra landa, í skipasmíðastöðvar, til tækjaframleiðenda og olíuframleiðsluríkja. Olíuverð er nú lágt miðað við það sem það getur orðið.
- Erfitt að breyta til. Alvarlegur galli gjafakvótakerfis er hve erfitt er að fara úr því.
Það skyldi þó ekki vera að hinir eiginlegu fjandvinir sjávarútvegs séu sjálfir stór-útgerðarmennirnir í LÍÚ ?
Sjávarútvegsmál | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.2.2011 | 10:29
Þegar Smáey verður lagt græðir Magnús
Magnús Kristinsson, eigandi Bergs Hugins í Vestmannaeyjum, sem gerir út 3 togskip, tilkynnti á dögunum um þau áform útgerðarinnar að leggja einu skipa sinna, Smáey VE 144. Ástæðan sem gefin er upp, er niðurskurður á ýsukvóta. En þegar við skoðum málið nánar þá sézt að þetta stenzt ekki skoðun. Lítum nánar á staðreyndir og tölur:
Bergur-Huginn hf. er í 13. sæti yfir stærstu kvótahafa landsins með 4.629,570 kg eða 1.71%
Bergur-Huginn gerir út 3 togbáta, þannig að hver bátur getur veitt 1.543 tonn. Miðað við að allur afli sé seldur á markaði og meðalverð sé 250 kr, þá er aflaverðmæti hvers skips um 380 milljónir. Allir sjá að það er mjög góð rekstrarniðurstaða og margir sem teldu sig vel setta með þessa kvótastöðu. Til samanburðar þá er önnur útgerð í Vestmannaeyjum, sem gerir út sambærilegan bát, Frá VE, aðeins með 934,396 kg í úthlutað aflamark eða aðeins rúm 60% af meðalaflamarki skipa Bergs-Hugins. Engar fregnir eru um að til standi að leggja Frá VE.
Í þessu dæmi af fyrirhuguðum samdrætti hjá Magnúsi Kristinssyni, sjáum við glöggt hvernig kvótakerfið vinnur gegn þjóðarhag á meðan útgerðarmaðurinn eykur hagnað sinn. Þetta er það sem LÍÚ og hagfræðingarnir kalla hagræðingu. Þegar útgerðarmaður´fækkar störfum í greininni um 14 stöðugildi á sama tíma og hans eigin gróði eykst þá segir Friðrik J. Arngrímsson að kvótakerfið sé að sanna sig! Kostnaður þjóðfélagsins hins vegar,vegna uppsagna og minni umsvifa hleypur á hundrað milljónum en það er aldrei reiknað inn í dæmið. Hvernig væri að hagfræðingar reiknuðu nú hagkvæmni kvótakerfisins upp á nýtt og tækju tillit til beins taps þjóðfélagsins sem felst í minni afla, færri störfum og færri skipum? Það eru engin rekstrarleg rök fyrir því að leggja Smáey VE 144. Skipið er frekar gamalt og því búið að afskrifa að miklu leyti. Einnig hefur útgerðin gengið mjög vel í fjölda ára svo ekki er um uppsafnaðan rekstrarvanda að ræða. Skipið sem sagt ber sig miðað við úthlutað aflamark. Einu rökin á bak við þessa ákvörðun er græðgi eigandans eða klækir. Kannski á að nota tækifærið og leigja sjálfum sér kvóta og láta áhafnir hinna skipanna taka þátt í því. Sjómenn eru ofurseldir útgerðarvaldinu. Þeim er alltaf hótað með atvinnumissi og Fiskistofa sem hefur vitneskju um allt svínaríið sem viðgengst í greininni segir ekki múkk. Hvernig stendur á því?
11.2.2011 | 09:01
Svandís víki strax
Í kjölfar Hæstaréttardómsins í gær þá ber Svandísi Svavarsdóttur nú þegar að segja af sér sem ráðherra eða forsætisráðherra að reka hana úr stjórninni með skömm. Þessi ráðherra hefur ekki staðið sig í starfi heldur notfært sér stöðu sína til að knýja í gegn lög sem ganga gegn góðri stjórnsýslu og hinu margfræga meðalhófi. Ráðherra sem skilur ekki kall tímans þarf að fá sér aðra vinnu þar sem hæfileikar hans njóta sín betur. Það gustar um Umhverfisráðuneytið og ekki að ástæðulausu.
Nú þegar þarf að ganga frá nauðsynlegum formsatriðum varðandi þessar fyrirhuguðu virkjanir í Þjórsá svo framkvæmdir geti farið í gang. Eina skilyrðið sem ég vil sjá að verði sett og það er að orkan verði ekki seld til álvera. Allt annað en álver takk!
![]() |
Landsvirkjun í biðstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.2.2011 | 07:19
Hvað þýðir þetta í raun og veru?
" Áhöld eru um getu nýja Landsbankans (NBI) til að greiða 280 milljarða króna skuldabréf, sem bankinn gaf út til gamla Landsbankans í tengslum við uppgjör þeirra á milli.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins komu fulltrúar NBI á fund skilanefndar gamla bankans í vikunni til að vara við því að hætta væri á að greiðsluflæði gjaldeyris inn í NBI stæði ekki fyllilega undir afborgunum af skuldabréfinu, sem allt á að greiðast í erlendum gjaldeyri, dollurum, pundum og evrum."
Þýðir þetta að stjórnendur Nýja Landsbankans hafi farið offari í afskriftum til skuldara eða hafa eignir bankans ekki verið hámarkaðar? Þetta þurfa stjórnendur væntanlega að útskýra fyrir Elínu í Bankasýslunni næst þegar hún skreppur í kaffi til Steinþórs. En um það fáum við ekkert að vita. En athyglisvert er að bera saman uppgjörin á Íslandsbanka og Kaupþingi, sem eru einkabankar, við Nýja Landsbankann, þar sem reykurinn liðast út úr öllum bakherbergjum og vinum og velþóknanlegum eru gefnar eignir og afskriftum er útdeilt við framvísun flokksskírteina. Það er eitthvað mikið að í Nýja Landsbankanum og það á að láta ríkissjóð borga. Þeir þingmenn sem hefur dottið í hug að samþykkja nýja icesave reikninginn staldra væntanlega við í ljósi þessara fregna og krefjast betri upplýsinga frá bankasýslunni um hvað sé að gerast í rekstri þessa fyrirtækis sem stofnað var á ábyrgð ríkisins til að halda utan um þjófagóss þeirra Björgólfsfeðga,
![]() |
Fær ekki nægan gjaldeyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.2.2011 | 11:59
Fjórflokkurinn RÚV og ESA
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur lagt formlega til að Ísland breyti fyrirkomulagi á fjármögnun Ríkisútvarpsins. Frestur Íslands til þess að bregðast við tillögum ESA er í lok mars 2011.
Þetta kemur fram á vefsíðu ESA. Þar segir að markmið slíkra breytinga er að stuðla að frekara gagnsæi varðandi opinber fjárframlög til Ríkisútvarpsins og til þess að draga úr hættu á samkeppnisröskun á þeim markaði sem Ríkisútvarpið starfar.Í raun þýðir þetta að fjármögnunarfyrirkomulaginu yrði breytt til samræmis við viðmiðunarreglur ESA varðandi ríkisstyrki til aðila sem sjá um útsendingar í almannaþágu, sem samþykktar voru í byrjun árs 2010.
Að útlista nánar umfang þeirrar aðferðar sem notuð verður við útvíkkun á opinberu þjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins.
Að sett verði skýr leiðbeinandi viðmið um ákvörðun gjaldskrár fyrir þjónustu sem Ríkisútvarpið veitir vegna opinberrar þjónustuskyldu sinnar, s.s. aðgang að skjalasafni Ríkisútvarpsins.
Að settar verði skýrar reglur um meðferð hugsanlegrar ofgreiðslu til Ríkisútvarpsins.
Að tekinn verði af allur vafi um að öll starfsemi sem fellur utan hlutverks Ríkisútvarpsins sem veitanda almannaþjónustu skuli rekin á grundvelli markaðslögmála líkt og viðmiðunarreglur ESA mæla fyrir um.
--------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Það er ekki bara stjórnarskrárbreytingar sem þvælast fyrir fjórflokknum. Hann hefur aldrei getað komist að vitrænni niðurstöðu um reksturinn á útvarpi allra starfsmanna. Og nú er svo komið að erlend eftirlitsstofnun hefur tekið málið upp og veitir nú íslenskum stjórnvöldum frest í nokkrar vikur til að koma með viðunandi úrbætur. Þvílík hneisa sem í þessu felst fyrir íslensk stjórnvöld! Og hver skyldu ný viðbrögðin verða? Munum að í þeim fjölmiðlalögum sem nú liggja fyrir þinginu er hvergi tekið á málefnum RÚV. RÚV er ekki rekið í þágu almennings og hefur aldrei verið gert. Stöð 2 komst á legg fyrst og fremst vegna þess að rekstur og yfirstjórn RUV var í höndum óhæfra stjórnmálamanna. Það hefur ekkert breyzt. Eina alvöru útvarpsrásin sem er rás 1 er svelt og allur þungi lagður í popp rás sem er haldið úti í samkeppni við frjálsa fjölmiðlun. Að halda úti ríkisstyrktri samkeppni hefur alltaf verið brot á reglum allra siðaðra ríkja annarra en Íslands. Og svo er það sjónvarpið. Árið 2011 er ekki ennþá farið að undirbúa HD útsendingar. Öll áhersla er lögð á rándýrar íþróttaútsendingar á kostnað innlendrar dagskrárgerðar og miðað við val á kvikmyndum þá er ekki ætlast til að neinir horfi á þær. Léleg videoleiga er betri en RÚV hvað það varðar. Það sem þarf að gera er eftirfarandi:
- Selja Rás 2
- Selja íþróttadeildina og hætta útsendingum kappleikja í ólæstri dagskrá
- Auka vægi netsins með beinum útsendingum og áskriftar útsendingum
- Selja útvarpshúsið í Efstaleiti og koma úreltum tækjabúnaði fyrir í hentugra húsnæði
- þegar þessum markmiðum er náð þá má setja RUV aftur á B-fjárlög og hætta að innheimta áskriftagjöld
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2011 | 09:47
Hvað um kjúklinga og svínabændur?
En aðbúnaður dýra er ekki bara dýraverndunarmál, þau eru ekki síður neytendamál. Neytendur þurfa að taka sig saman og hætta að kaupa kjúklinga, egg og svínakjöt sem framleitt er í þessum verksmiðjum. Það er ekkert mál. Ég hef sjálfur sett mér svona siðferðisviðmið og komist ágætlega af án þessara matvara.
![]() |
Kúabændur sektaðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.2.2011 | 07:53
Margrét Frímanns og nýja fangelsið
Þótt misskipt oft sé manna láni
margir hljóta makleg laun
Pólitíkin trúi ég skáni
ef tæmdum við hér Litla-Hraun
Og Möggu litlu létum hafa
lyklavöld við Austurvöll
Þá þyrfti ekki grunn að grafa
að glæsilegri fangahöll
9.2.2011 | 07:02
Gott er að eiga Ara að!

8.2.2011 | 20:07
Afsökunarbeiðni
Ábyrgðarmanni þessarar síðu varð það á, að móðga 2 minnihlutahópa í einni og sömu athugasemdinni við færslu á þessu bloggi fyrir nokkrum dögum. Hér með bið ég hlutaðeigendur afsökunar á þessari yfirsjón. Það var ekki meiningin að særa neinn. Athugasemdin hefur nú verið fjarlægð
Virðingarfyllst
Jóhannes Laxdal
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)