Óreyndur ráðherra á jarðsprengjusvæði

Ekki er annað hægt en bera virðingu fyrir nýja umhverfisráðherranum. Hann er óhræddur við að láta til sín taka á meðan aðrir ráðherrar eru enn að stilla stólana.

Guðmundur Ingi sagði í viðtali á Rás 2 í morgun:

Skynsamlegt er að bera saman kosti þess að reisa Hvalárvirkjun í Árneshreppi og að stofna þar þjóðgarð. Þetta tvennt fer ekki sérlega vel saman. Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki rammaáætlunar. Næstu skref varðandi þá virkjun eru því á borði sveitarstjórnar í Árneshreppi og hjá Orkustofnun. Á þessum tímapunkti er þetta heimamanna að skoða. Mér finnst að það ætti að bera þessa tvo möguleika kirfilega saman og hvað þeir þýða fyrir samfélagið í Árneshreppi. Hvort er líklegra til að skapa fleiri störf og meiri verðmæti til framtíðar?
 
Nú bíð ég spenntur eftir viðbrögðum heimamanna við þessari nálgun ráðherrans. Það gleymist nefnilega alltaf að náttúran sjálf er mesta verðmætið. Og ósnortin náttúra og mannlíf á Ströndum er ónýtt auðlind, þúsund sinnum arðbærari en þessi virkjun sem skapar lítil verðmæti fyrir heimamenn en mikinn kostnaðarauka fyrir almenning í landinu.
En það er ósanngjarnt að varpa allri ábyrgð á heimamenn. Ríkisstjórnin þarf að grípa inní og treysta innviðina. Virkjunarsinnar eiga ekki að geta haft áhrif á leyfiveitingu með gylliboðum um að ráðast í verkefni sem eiga að vera fjármögnuð af almannafé.
Vonum að heimamenn bjargi ráðherranum af sprengjusvæðinu.

Frá vonbrigðum til væntinga

Hvað svo sem mönnum finnst um stjórnarsáttmálann og ráðherrana, þá verður því ekki mótmælt, að Katrín og stuðningsfólk hennar hefur byggt upp miklar væntingar í kringum þessa ríkisstjórn. Væntingar sem hinir stjórnarflokkarnir eru ekki bundnir af og gætu jafnvel látið reyna á. Þar er ég sérstaklega að vísa til launþegasamtakanna og kjarasamninganna og svo náttúrulega umhverfisverndarsinnanna sem örugglega taka skipan Guðmundar Inga í embætti umhverfisráðherra, sem fyrirheit um að allar áherslur VG komi til framkvæmda á þessu kjörtímabili.

En svona er pólitíkin ekki. Íslenskri pólitíki má líkja við hamfarapólitík. Það er alltaf verið að bregðast við ástandi sem þegar er orðið. Þessi stjórnarsáttmáli boðar engar breytingar á flokkapólitíkinni. Þau spá bara góðri tíð til lands og sjávar og vita sem er að flýtur meðan ekki sekkur. Verkalýð og launamönnum verður mætt með krepptum hnefa annars verður ekki hægt að afnema hér verðtrygginguna! Og umhverfisverndin mun eingöngu snúast um kolefnisjöfnun en ekki friðun náttúrunnar. Hvalárvirkjun mun ekki verða stöðvuð og ekki heldur jarðvarmavirkjanirnar á Reykjanesi. Svo verður laumað inn eins og einu Álveri fyrir Þórólf á Sauðárkróki!

Þannig munu væntingarnar fljótt hjaðna og fólk mun byrja að röfla um svik en hvað getur fólk gert? Það er sama hvað kosið er, fjórflokkurinn finnur alltaf leið til að svíkja kjósendur.


mbl.is Katrín hafði samband í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kúkurinn í lauginni er..

kvótagreifarRáðherraval Sjálfstæðisflokksins hlýtur að vera mörgum vonbrigði. Fyrst þetta átti að vera tímamótastjórn þá gafst flokknum kjörið tækifæri til að sýna það í verki með því að velja nýtt fólk til að gegna ráðherraembættum.  Utanþingsráðherrar í bland við reynslumikla þingmenn hefði gefið Sjálfstæðiflokknum gott veganesti í upphafi þessa samstarfs sem enginn veit hvernig fer.  Sérstaklega finnst mörgum slæmt að sjá Sigríði Andersen á þessum lista og í sama ráðuneyti. Það er eins og fuck you merki frá Bjarna Ben framan í fólkið sem sprengdi síðustu ríkisstjórn.  En því miður er Sigríður ekki versti ráðherrann á þessum lista. Kúkurinn í lauginni er tvímælalaust Kristján Þór Júlíusson.  Maðurinn sem alltaf gengur erinda stórútgerðarinnar jafnt á þingi og utan þess. Það sem áður var gantast með er nú orðið opinbert. Stórútgerðin ræður yfir ráðuneyti sjávarútvegs.  Af hverju var ekki bara Þorsteinn Már beðinn um að taka þetta að sér milliliðalaust?


mbl.is Ráðherrakapallinn opinberaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forystan treystir á hjarðhegðunina

Ég hef enga trú á að þessi svokallaði stjórnarsáttmáli verði felldur af stofnunum flokkanna í kvöld. Valdið er lóðrétt og það sem forystan vill það er undantekningarlaust samþykkt. En þó mun skipta máli hvernig atkvæðagreiðslu verður háttað. Ef upp koma óskir um leynilegar atkvæðagreiðslur megum við eiga von á allt öðru vísi úrslitum heldur en ef atkvæðagreiðsla er með hefðbundinni handauppréttingu. Á það mun þó ekki reyna.  Öll andstaða mun verða talin veikja stöðu viðkomandi flokks í komandi samstarfi,þess vegna mun hjarðeðlið ráða.  Líka hjá þeim sem innst inni eru andvígir þessu samstarfi óháð málefnasamningi.

En vanhelga bandalagið mun ekki eiga náðuga daga fyrir höndum.  Það mun þurfa að berjast fyrir öllum málum af heilindum og drengskap,sem óvíst er að prýða muni þá einstaklinga,sem veljast til ráðherrasetu. Það mun til að mynda lítill friður verða um Sigríði Andersen í Innanríkisráðuneytinu eða Jón Gunnarsson í Samgönguráðuneytinu. Og ef Bjarni ætlar sjálfum sér fjármálaráðuneytið mun Kata þurfa að anda ofan í hálsmálið á honum öllum stundum.

Þannig að samþykkt málefnasamnings tryggir ekki lífvænleika þessa samstarfs. Skipan ráðherrasæta mun hafa úrslitaþýðingu og um þær hrókeringar hafa flokksstofnanir ekkert að segja.

En svo er það ástandið innan Sjálfstæðisflokksins. Bjarni er ekki óumdeildur. Þaðan af síður þessi starfandi varaformaður. Ef Sjálfstæðismenn hreinsa ekki til í forystunni á næsta landsfundi þá er þetta stjórnarsamstarf ekki á vetur setjandi. Hvað verður þá um pólitíska framtíð Katrínar Jakobsdóttur. Hún er ekki bara að leggja pólitískan trúverðugleika flokksins undir í þessu samstarfi.  Hún er að leggja sína eigin stöðu undir.

Er til eitthvað plan B?


mbl.is Hverjir þurfa að samþykkja?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Ari Matthíasson trúverðugur?

Folk_Leikarar_arimattAri Matthíasson þjóðleikhússtjóri mætti í Kastljósþátt gærkvöldsins til að ræða kynferðislega áreitni og ofbeldi innan leikhússins. Greinilegt var á líkamstjáningu hans að honum leið ekki vel. Og svörin bentu ekki til þess að hann skildi hvers vegna verið væri yfirleitt, að draga þessi mál fram í kastljós fjölmiðla. Aðspurður sagði hann að inn á hans borð hefðu ratað 3 mál.  Og hann hefði beitt þöggunaraðferðinni við úrlausn þeirra. Þegar menn eins og Ari tala um virðingu við aðila þá meina þeir virðingu við geranda.  Upplifun þolanda skiptir ekki máli og er óþægileg í karlaheimi Ara Matt og vina hans sem senda hverjir öðrum fræga tölvupósta, þar sem þeir tala niðrandi um konu í valdastöðu. Embætti þjóðleikhússtjóra verður að sýna meiri virðingu en gert var með ráðningu Ara Matthíassonar. Eða hvers vegna hafa leikarar snúið bakinu við þessum vinnustað á síðustu árum?


mbl.is „Missti þolinmæðina og nauðgaði mér“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungmenni í hættu en löggan bara í vændinu!

Sigríður Björk Guðjónsdóttir er svo sannarlega umdeildur lögreglustjóri. Hennar áherslur virðast eingöngu kvenlægar.  það er eins og það sé henni kappsmál að sinna eingöngu feminiskum málum. Vændi og húsbrot alls konar eru í forgangi en eiturlyfjasalar og annar undirheimalýður er að mestu látinn í friði.  Það þarf enginn að segja mér að lögreglan viti ekki hverjir eru að selja efni á götum Reykjavíkur. Og fyrst þeir vita það af hverju er það látið líðast að börn og ungmenni séu varnarlaus fórnarlömb þessara manna. Lögsækið þennan lýð og ákærið fyrir tilraun til manndráps. Það er það eina sem dugir.


mbl.is Báðar stúlkurnar með meðvitund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dálítið eins og kúlulán!

Orð án innistæðu eru dálítið eins og að taka kúlulán og þurfa ekki að borga til baka.  Þetta virðist vera orðin sérgrein Þorgerðar Katrínar. Upplýst var í Kveikþættinum á RUV að hún hefði dregið tennurnar úr eftirlitskrafti Fiskistofu með útþynntu frumvarpi sínu sl. sumar og nú kemur hún með yfirlýsingu sem beinlínis er til þess gerð að draga í efa það sem þó hefur komið fram, stutt óyggjandi sönnunum, um stórfellt brottkast á aflahæsta frystiskipi Íslendinga til margra ára og því skipi sem hefur skilað mestu aflaverðmæti einnig til margra ára. En höfum í huga að Kleifabergið hefur ekki bara stundað veiðar við Ísland. Því mikill hluti aflans hefur komið úr Barentshafi sem þýðir að sá kvóti sem þar er veiddur kostar peninga! Og þegar útgerð þarf að kosta miklu til að ná í afla þá vill útgerðarmaðurinn að skipið komi með sem mest aflaverðmæti. Mikið aflaverðmæti næst aðeins með fyrsta flokks hráefni úr fyrsta flokks fiski.  Smáfiskur og meðafli og gamall fiskur sem ekki næst að vinna á réttum tíma er ekki fyrsta flokks hráefni. Þess vegna var færibandakerfi Kleifabergsins breytt til að auðvelda brottkast.  Þetta sést á myndböndum.  Þegar Guðmundur í Brim segist aldrei hafa FYRIRSKIPAÐ BROTTKAST  þá ber ekki að skilja það bókstaflega.

En ég er ekki hér með að benda á sökudólga. Ég er að benda á að í kvótakerfum af öllum toga hlýtur alltaf að vera innbyggður hvati til sóunar.  Sóunin í fiskveiðistjórnunarkerfinu okkar heitir brottkast og það er ekki hægt að sætta sig við slíkt kerfi og þess vegna á að leggja það af. Lausnin er ekki að efla eftirlit og búa til glæpamenn úr notendum kerfisins. Hér er forvörnin sú að taka upp annað fiskveiðikerfi.


mbl.is Mjög dregið úr brottkasti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna olli vonbrigðum...aftur

Jóhanna_Sigurðardóttir_Jan_2011_(cropped)Óttalega var nú þessi þáttur á RÚV um Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrsta kvenforsætisráðherra lýðveldisins  klénn á allan hátt. Sennilega skrifast samt klúðrið alfarið á þá sem stjórnuðu myndavélinni og klipptu svo efnið saman til flutnings.  Ég hefði kosið öðruvísi efnistök þar sem ferli Jóhönnu hefði verið gerð fyllri skil og farið meir í söguleg atriði en færri myndskeið með Hrannari B.  

Þessi persónulegu samtöl Jóhönnu og Hrannars hefðu verið ágæt sem ítarefni í sérstaka heimildarmynd um gerð þessara þátta. En eins og þetta var klippt þá átti þetta alls ekki við. Nú mun umræðan ekki  snúast um sigra Jóhönnu í pólitíkinni heldur ósigrana og biturleikann eftir svik Árna Páls og þingflokksins á síðustu vikum Jóhönnu sem forsætisráðherra.  Og það er ósanngjarnt.  Jóhanna á skilið að hennar verði minnst sem baráttukonu og brautryðjanda fyrir jafnrétti og bættum hag lítilmagnans.


Landsdómsákvæðið öryggisventill

Í stjórnarskránni eru 2 öryggisventlar. Sá fyrri varðar neitunarvald forseta og hið síðara eru ákvæðin um Landsdóm.  Það hlýtur að teljast mikil framsýni hjá Herraþjóðinni að setja þessa öryggisventla inn í stjórnarskrá moldarkofalýðveldisins Íslands. 

Á sama hátt er það tillitssemi af Mannréttindadómstóli Evrópu að reyna ekki að kasta rýrð á þetta ákvæði.

Ég er sannfærður um að eftirmálar hrunsins hefðu orðið mun alvarlegri ef við hefðum ekki getað tappað reiðinni af í gegnum Landsdómsferlið.  Ég var á Austurvelli og ég skynjaði reiðina sem sauð á fólki. Og hætt er við að Hallgrímur Helga hefði ekki látið nægja, að klappa bíl Geirs Haarde að utan ef ekki hefði verið fyrir stjórnarskrána og landráðakafla almennra hegningarlaga. Því þau úrræði voru tiltæk og um þau rætt á þessum tíma. Og þó málatilbúnaður hafi klúðrast á margan hátt, þá var fjöldi sakborninga fyrir Landsdómi ekki aðalatriðið, heldur hitt, að þetta ákvæði var virkjað. Með það yfir höfði sér er von til að komandi ráðamenn hugsi sig um, áður en þeir bregðast skyldum sínum með svipuðum hætti og gerðist með einkavinavæðingunni fyrir hrun.

Við skulum halda í þetta ákvæði. Pólitíkin hefur ekki unnið sér inn neitt traust ennþá.


mbl.is „Má segja að ríkið sleppi með þetta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálftaka og spilling hvert sem litið er

Siðrofið sem fylgir siðspilltu stjórnmála og efnahagslífi teygir nú anga sína inn í Sundsambandið. Aumingja formaðurinn hélt að hann mætti líka. Alveg eins og Geir og knattspyrnusambandið og opinberu embættismennirnir og þingmennirnir sem aldrei þurfa að greiða neinn ferðakostnað úr eigin vasa.


mbl.is Kornið sem fyllti mælinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband