Færsluflokkur: Sjávarútvegsmál

Auðlindarentan og hlutaskiptakerfið

Nú er að renna upp fyrir mörgum sem starfa í sjávarútvegi hversu hættulegt það er að afhenda stjórnmálamönnum alræðisvald yfir heilli atvinnugrein.  Kvótakerfið er haftakerfi og felur í sér ógagnsæi, gífurlega sóun verðmæta, markaðsmisneitingu , lögbrot og alls konar spillingu.  Nákvæmlega á sama hátt og gjaldeyrishöftin og öll önnur haftakerfi sem pólitíkusar hafa smíðað.

Þær breytingar sem nú hafa verið gerðar á þessu alónýta kerfi eru ekki til bóta nema síður sé. Veiðigjöldin eru skattlagning en ekki gjald.  Og kvótakerfið er búið að ganga sér til húðar fyrir áratug eða svo.  Það gengur ekki að hefta aðgengi að veiðum og vinnslu eins og nú er gert.  Það eru engin fiskifræðileg rök fyrir slíku og þaðan af síður hagræn rök.

Við þurfum nýja hugsun og nýja nálgun. Fiskurinn í sjónum er ekki auðlind.  Í mínum huga er auðlind fasti sem hægt er að mæla og minnkar sem nemur því sem tekið er af.  Námur eru auðlind og olíulindir eru líka auðlind. Fiskstofnar geta því ekki fallið undir þessa skilgreiningu.  Enda hafa veiðar alltaf fallið undir hlunnindi.  Allt frá fyrstu lagasetningu sem skilgreindi eignarrétt sjávarjarða á fiskveiðilögsögu, þá hefur löggjafinn litið á veiðirétt sem hlunnindi. Alveg á sama hátt og eggjatöku og dúntekju.  Síðar var sama regla yfirfærð á lax og silungsveiði. Þessi tilhögun er sanngjörn, einföld og brýtur ekki rétt á neinum.

Það gengur ekki að ríkisvæða heila atvinnugrein undir því yfirskyni að verið sé að tryggja þjóðinni sanngjarna rentu af auðlindinni.  Bara þessi 2 nýju hugtök, auðlind og renta, sem engir 2 skilja á sama veg, ætti að vera nægileg ástæða fyrir okkur til að staldra við og spyrja hvort verið sé að gera rétt.  Ég hef löngu svarað þeirri spurningu fyrir mig og svarið er nei. 

En auðvitað eiga útgerðarmenn að greiða fyrir þann fisk sem þeir veiða. En þetta gjald á ekki að vera í formi skatta eins og nú er búið að lögfesta. Þetta gjald á að vera hlutfall af því markaðsverði sem fæst fyrir aflann á þeim degi sem hann er seldur yfir borðstokkinn. Þetta gjald á einfaldlega að kalla sínu rétta nafni sem er hráefnisgjald.  Í gær var þorskur seldur á 278 kr/kg á mörkuðum.  Tekjur ríkisins af 25% hráefnisgjaldi hefðu getað orðið 2.7 milljónir af þessum 40 tonnum af óslægðum þorski. Tekjur sem hefðu runnið beint og milliliðalaust í ríkissjóð samdægurs.  Einfaldara og réttlátara gerist þetta ekki.  Engin inngrip í rekstur.  Engin flókin eftirálagning skatta og engin pólitísk afskipti af ráðstöfun þessara tekna.  Og þessi leið myndar engan nýtingarréttTakið eftir því.  Innköllun aflaheimilda og sala veiðileyfa getur hins vegar gert það og því hef ég alltaf verið á móti þeirri leið.

Með þessu móti eru heldur engin inngrip í hlutaskiptakerfi sjómanna.  Auðvitað fær útgerðin minna fyrir aflann en það er eðlilegt. Og auðvitað minnka tekjur sjómanna en það er líka eðlilegt.  Fiskverð og þar af leiðandi tekjur sjómanna og útgerða hefur hækkað óeðlilega mikið á undanförnum árum.  Ekki síst vegna hrunsins en líka vegna hins takmarkaða framboðs.  Sjómenn eiga ekki að taka þátt í útgerðarkostnaði.  En sjómenn eiga ekki heldur að stinga hluta af auðlindarentunni í eigin vasa eins og núverandi kerfi bíður uppá og styrinn á milli útgerðar og sjómanna stendur um.

Með því að taka upp svona hráefnisgjald er stigið mikilvægt skref til afnáms lénsgreifafyrirkomulagi kvótakerfisins. Og þjóðin fær sitt.


Súrt vín í gömlum belg

Samstaða vill engar kerfisbreytingar í sjávarútvegi. Enda er þessi varaformaður þeirra fyrrum framleiðslustjóri hjá Granda ef mér skjátlast ekki.  Að innkalla aflaheimildir og úthluta aftur til þeirra sem starfa í greininni er sama stefna og Vinstri grænir boða í nýja fiskveiðifrumvarpinu. Og þessar klisjur um sjálfbærni og hagkvæmni eru eingöngu til þess ætlaðar að kasta ryki í augu almennings. Rányrkja getur alveg verið sjálfbær og það sem er hagkvæmt fyrir einstaklinginn er ekki endilega hagkvæmt fyrir heildina.

Því miður þá hefur enginn stjórnmálamaður, sem mark er takandi á lýst yfir vilja til að leggja niður kvótakerfið og taka fiskveiðiráðgjöfina til endurskoðunar. Allir bulla þessir menn og konur um auðlindarentu til ríkisins.  Skatt sem þau megi nota til að stækka báknið. Auðlindarenta hljómar vel þó enginn skilji í raun hvað í því felst. Hvorki stjórnmálamenn, hagfræðingar né kvótagreifar virðast leggja sama skilning í hugtakið. Og á meðan menn karpa um alger aukaatriði þá heldur ruglið í sjávarútveginum áfram.  Auðvitað eiga menn að hafa hugrekki til þess að bylta kerfi sem virkar ekki. Það er engu að tapa en allt að vinna fyrir þjóðfélagið.  Þjóðfélag sem riðar á barmi gjaldþrots, þar sem skuldir eru farnar að nálgast tvöfalda þjóðarframleiðslu þarf að skipta um stefnu. Hætta að sóa verðmætum og fara á fullt í framleiðslu og gjaldeyrissköpun. Þar eigum við fiskinn í sjónum.  Losum okkur við auðlindaræningjana og leyfum byggðunum að blómstra. Leggjum niður skattpíningu og skuldasöfnun til að halda uppi fölskum lífskjörum. Ef menn vilja skattleggja fiskveiðar þá er nærtækast að taka fast gjald af hverju seldu kílói og kalla þann skatt hráefnisgjald.  Það er eina raunhæfa og sanngjarna leiðin til að innheimta skatt af þessari atvinnugrein.  Veiðigjald og sérstakt veiðigjald eins og nú er innheimt, mismunar mönnum og veitir pólitíkusum og ráðherrum völd.  Um þau snúast stjórnmál. Stjórnmál snúast ekki um hugsjónir ef einhver heldur það ennþá!  Stjórnmál snúast um að ota sínum tota og stjórnmálapakkinu varðar ekkert um þjóðarhag.  Þetta ættum við að vera búin að læra 108 árum eftir að við fengum fyrsta ráðherrann.


mbl.is Vilja innkalla aflaheimildir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvótaglæpurinn

Brottkastið eitt og sér ætti að nægja sem fullgild ástæða fyrir að hætta alfarið kvótastýringu á fiskveiðum. Sem gamall sjómaður til 25 ára þá fullyrði ég að brottkast hefur aldrei verið meira en eftir að kvótakerfinu var komið á og var það þó slæmt hér áður fyrr.  En þetta er glæpur sem fær að viðgangast vegna þess að enginn vill viðurkenna að þetta sé óhjákvæmilegur fylgifiskur kvótasetningar á allar tegundir.  Og sannast hér hið fornkveðna að enginn er blindari en sá sem ekki vill sjá. Hafró viðurkennir ekki að fiski sé hent og ekki fara útgerðarmenn og sjómenn að koma sök á sjálfa sig með því að viðurkenna brottkast.  Nú blasir við stórfellt brottkast á ýsu.  Vegna þess að Hafró segir að lítið sé af ýsu í sjónum þá er mönnum uppálagt að henda allri ýsu sem ekki er kvóti fyrir.  Þetta rugl verður að stöðva og taka ráðin af fiskateljurunum við Skúlagötu.  Útgerðarmaðurinn á Patreksfirði veit fullvel að það er ekkert hægt að forðast ýsuna á Látragrunni eða á Flákanum eða Deildargrunni eða Halanum.  Hún mun verða veidd í bland við þorsk, steinbít og ufsa en hún mun ekki koma í land og þess vegna mun bókhaldið á Hafró aldrei verða leiðrétt fyrir þessari skekkju,  hvorki nú né hingað til.  Glæpsamleg veiðiráðgjöf sem byggir á óvísindalegum stofnmælingum er búið að kosta samfélagið hundruð ef ekki þúsundir milljarða á undanförnum 25 árum.  Miðin geta hæglega gefið af sér lágmark 400 þúsund tonn af botnafla á ári.  Það er varlega áætluð afrakstursgeta.  En hér ríkir sovésk stjórnun á veiðum.  Aðeins ein skoðun er leifð af því hún hentar ræningjunum sem stálu veiðiréttinum. Þeim er andskotann sama um brottkast og rányrkju.  Þeirra hagnaður eykst í öfugu hlutfalli við magnið.  Þeim mun minni kvóti þeim mun hærra verð og það sem meira er þeir þurfa ekki einu sinni að fjárfesta í nýjum veiðiskipum.  Afleiðingin er úr sér genginn floti sem nýtir bara helming af afrakstursgetu Íslandsmiða.  Þetta kalla menn í Háskólanum, sem ekkert vita í sinn haus, hagræðingu.  Menn eins og Ragnar Árnason, málpípa sægreifa og skrifborðsútgerðamanna.  Þessir rugludallar hafa komist upp með fokka búsetubyggð og atvinnuháttum af þeirri stærðargráðu að aldrei verður bætt.  Búseta á Vestfjörðum mun leggjast af á næstu 20 árum.  Það er óhjákvæmilegt og það má alfarið kenna kvótakerfinu og pólitíkusunum um það. Glæpurinn er þeirra.  Sjómennirnir, sem í vetur munu henda þúsundum tonna af ýsu og öðrum meðafla í sjóinn, eru fórnarlömb glæpsins.  En þeir þurfa samt að stíga fram og viðurkenna brottkastið og sanna það með tölulegum gögnum.  Það er það eina sem pólitíkusar skilja. Tölur á blaði.  Skipstjórar þurfa að opna veiðidagbækurnar fyrir almenningi.  Ekki bara þessar fölsuðu upplýsingar sem þeir senda Fiskistofu.
mbl.is Dagskipunin að forðast ýsu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftir á að hrygna

Smá hrekkur í garð lesblindra. Þessi pistill fjallar um loðnuveiðarnar, sem nú eru á síðustu metrunum.  Enda loðnan, sem sloppið hefur undan flotanum, komin á steypirinn og búist við að hún fari að stinga sér á botn Faxaflóa og Breiðafjarðar til hrygningar hvað úr hverju. En hversu áreiðanlegar eru þessar mælingar Hafrannsóknarstofnunar?  Hvað verða það tonn, sem ná því að hrygna þetta árið?  Og hve stór hluti seiðanna sleppur undan þorskinum, síldinni, ýsunni, makrílnum og hvölunum á leið sinni til þroska?

Ég er einn af þeim, sem finnst þessar skefjalausu veiðar á hrygningarloðnunni, vera merki um þann grundvallarmisskilning Hafrannsóknarstofnunar, að taka ekki með í reikninginn, að allir þessir afræningjar hafsins, sem við erum að friða til að veiða síðar, þurfa að éta.  Og undirstaða fæðunnar er loðna.  Ég gef ekkert fyrir þau rök, að óhætt sé að veiða loðnu vegna þess að hún drepist hvort sem er eftir hrygningu! 

Það er einmitt stóra málið með veiðarnar núna, að sú loðna sem verið er að veiða nær aldrei að hrygna

Hrognin sem hefðu getað orðið að hundrað þúsund tonna æti fyrir Þorsk og annan nytjafisk lendir í kjaftinum á ríkum Rússum og getulausum Japönum, en ekki í maga nytjastofnanna, sem útflutningstekjur framtíðarinnar þurfa að byggja á. Ég auglýsi eftir ábyrgri fiskveiðistefnu og sjálfbærum veiðum.  Þetta arðrán útgerðarinnar á fiskveiðihlunnindum allra landsmanna þarf að stöðva.  Ekki seinna en í sumar.  Það má bara ekki verða að nýtt fiskveiðistjórnarkerfi verði lögleitt af þessu þingi sem nú situr.  Þetta þing og þessi ríkisstjórn hefur svikið öll loforð um sanngjarna endurskoðun fiskveiðistefnunnar vegna þess að þingmenn hafa ekki skilning á viðfangsefninu eins og margoft hefur komið fram í ræðu og riti.

Og þegar við höfum svona stjórnvöld sem eru bara peð á taflborði hagsmunasamtaka og fjármagnseigenda þá er það ómetanlegur kostur að hafa forseta sem veitt getur raunverulegt mótvægi þegar stjórnvöld vilja lögfesta gjafagerninginn til útgerðarinnar.  Því það er það sem Steingrímur vinnur nú að.  En það mega stjórnvöld og reyndar allur fjórflokkurinn vita að slík lagasetning mun aldrei verða samþykkt meðan Ólafur Ragnar situr á Bessastöðum í umboði þjóðarinnar.  Það voru meðal annars þau skilaboð, sem hann sendi með ávarpinu, sem stjórnmálastéttin þóttist ekki skilja. En skildi samt betur en flestir. Og það var vegna þessara skilaboða, sem öll reiðin gaus upp af endurnýjuðum krafti. Reiðin gegn þessum fyrrum samherja, sem rassskellti þá ekki aðeins einu sinni heldur tvisvar í sama málinu.  Icesave ólögunum, sem hefðu verið búin að kosta okkur 60-70 milljarða í óafturkræfum vöxtum ef forsetinn hefði ekki beitt 26. greininni og þjóðin tekið í taumana. Við skulum ekki gleyma hvað hangir á spýtunni þegar ófrægingarherferðin hefst fyrir alvöru. Þá mun kannski verða til skjaldborg, en það verður skjaldborg um forsetann en ekki þessa svikulu óheillastjórn, sem rændi hér völdum í skjóli andlegs áfalls þjóðarinnar vorið 2009.


Blekkingin um sjálfbærar veiðar

Stefna VG í fiskveiðistjórnun felst í klysjunni um sjálfbærni.  En hefur þetta aumingja fólk nokkurn tímann skilgreint hvað nákvæmlega felst í sjálfbærum veiðum?  Ekki veit ég til þess að það hafi verið gert og því auglýsi ég eftir úttekt VG á sjálfbærni fiskveiða, með tilliti til notkunar á jarðefna eldsneyti og umhverfisskaðlegum veiðarfærum.  Í framhaldinu mega menn svo velta fyrir sér hvort fæðuframboð í hafinu skipti engu máli fyrir afkomu nytjastofna eða sjófuglastofna hér við land.

Ég beini þessu til VG, þar sem þeir bera ábyrgð á þessum málaflokki og þeir eru að blekkja kjósendur og fylgismenn með því að framfylgja ósjálfbærri kvótastýringu án nokkurrar gagnrýni á umhverfisáhrif veiðanna eins og þær eru stundaðar af einokunarsinnum sem hugsa um það eitt að hámarka stundargróðann á kostnað framtíðararðsemi. 

Það er nefnilega óhjákvæmilegt að blekkingunni verði lyft af samsæri útgerðar og fiskifræðinga um nytsemi kvótastýringar. Og þegar neytendur og fiskkaupendur átta sig á skaðseminni, þá mun ekki duga fyrir íslenska einokunarfisksala að veifa heimagerðum vottunum sem eru byggðar á blekkingunni stóru um að hægt sé að byggja upp fiskstofna með kvótastýringu veiða.


Hver skyldi kostnaður vegna kvótakerfis vera?

geiri á guggunni

Einar Kristinn  Guðfinnsson er nú ljóti populistinn og hagsmunagæslumaðurinn. Hvernig á annað að vera en að tekjur af atvinnustarfsemi renni fyrst í ríkissjóð til að mæta kostnaði af sameiginlegum útgjöldum ríkisins?  Að tala um landsbyggðarskatta í þessu sambandi er dæmi um úrelt viðhorf. Ekki fordæmdu höfuðborgarbúar þegar ákvörðun um gerð Óshlíðarganga var tekin!  Helsta verkefni þingmanna er að forgangsraða verkefnum í samræmi við mikilvægi en ekki að stunda kjördæmapot og atkvæðaveiðar í eiginhagsmunaskyni eins og sumir virðast halda. Einar Kristinn Guðfinnsson tók þátt í að eyða byggðum á Vestfjörðum.  Hann hefur setið á þingi síðan 1991, næstum  jafnlengi og kvótakerfið hefur verið við lýði.  Og það er vert að rifja það upp að hann var kjörinn á þing af Vestfirskum íhalds og útgerðarmönnum til að berjast gegn kvótakerfinu.  Þau loforð eru nú löngu gleymd enda var þessi svikari gerður að ráðherra sjávarútvegsmála fyrir þjónustuna við Flokkinn og eigendur hans, Kvótagreifana.  

Einari Kristni væri nær að berjast fyrir afnámi kvótakerfisins.  Kvótakerfið hefur skaða fiskstofna,  og komið í veg fyrir eðlilega nýliðun vegna vanveiði.  Og kvótakerfið hefur engu skilað til hagsbóta fyrir íslensku þjóðina,  ekki frekar en raforkukerfið í Afríku, sem var einkavætt í hendur glæpamanna sem blóðmjólka nú ættbálkana.  Kvótakerfið hefur komið í veg fyrir eðlilega endurnýjun flotans því allur arðurinn fer nú í að greiða fjárfestingarskuldir útgerðarinnar í öðrum greinum en sjávarútvegi.  Þetta er sú arfleifð sem Einar Kristinn fremstur í Flokki skilur eftir sig. Ef hann skilur ekki afleiðingar rangra ákvarðana sinna og Flokksins þá á hann að hafa vit á að biðjast lausnar sem þingmaður og fara svo í ævilangt fjölmiðlabann.  


mbl.is Féð skili sér aftur til landsbyggðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

9 ára eyðimerkurgöngu lokið

raekja.jpgÍ haust bárust fréttir vestan úr Djúpi að þorskur og ýsa væru á undanhaldi og rækjustofninn á uppleið. Þessvegna kemur þessi ákvörðun ráðherra um að leyfa veiðar á innfjarðarækju í Ísafjarðardjúpi ekki á óvart.  Hitt sem kemur meir á óvart er þetta nákvæma magn sem talið er óhætt að veiða.  Af hverju ekki 900 t eða 1225?  Hvaða vísindi liggja hér að baki? Fiskiguðinn hlýtur að hafa vitrast Hafró fræðingunum svo þeir gátu klappað akkúrat þessa tölu í stein fyrir ráðherrann...

Rækjan er dálítið merkilegt krabbadýr að því leyti að erfitt er að giska á aldur hennar. Samkvæmt Unni Skúladóttur, sem mest hefur rannsakað rækjuna, þá má ætla að meðalaldur veiðistofns innfarðarækju sé í kringum 3-4 ár en mest getur rækjan náð 5-6 ára aldri. Þar af leiðir þá er engin ástæða til að ætla að friðunin eigi nokkurn þátt í því magni sem nú er leyft að veiða. Heldur má áætla með miklum líkum að friðunin hafi eingöngu þjónað sem æti fyrir þorskinn og ýsuna.  Því hér var veiðistopp í 9 ár!  hvorki meira né minna. Ef svona friðun byggir upp stofninn, þá hefði auðvitað átt að sjást magnaukning strax eftir 1 ár sem gerðist ekki því það gleymdist að láta smáþorskinn vita að verið væri að friða rækjuna svo mennirnir gætu veitt meira síðar.

Ég veit að það er til of mikils mælst að fá einhverjar vitrænar umræður um friðunarstefnu íslensku fiskateljaranna eða andsvör frá þeim sjálfum, en ég geri kröfu til stjórnmálamanna að þeir spyrji gagnrýnna spurninga þegar jafn miklir hagsmunir eru í húfi. Það er mín bjargfasta sannfæring að ísfirskir rækjusjómenn hafi verið hlunnfarnir um réttmætar veiðar í þessi 9 ár á fölskum forsendum. Þótt veiðin hefði kannski ekki verið mikil þá hefði samt munað um þann afla og hann hefði ekki lent í maga þorskins.  


mbl.is Rækja veidd á ný í Ísafjarðardjúpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einelti í Brussel

 Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stefnir að því að tillaga um aðgerðir gegn Íslandi vegna makrílveiða Íslendinga verði samþykkt fyrir jól. Tillagan sem nú er rædd felur í sér bann við innflutningi á tilteknum fiskafurðum frá Íslandi.

Þarna birtist svart á hvítu hvernig meirihlutinn valtar yfir minnihlutann í ESB. Útlenskur flökkustofn herjar á okkar hafsvæði og étur allt æti frá sjófuglum og nytjastofnum en ESB ætlar að beita aflsmunum til að koma í veg fyrir að við lágmörkum skaðann af þessari innrás í okkar efnahagslögsögu. Því burt séð frá þeim ávinningi sem felst í að veiða þennan makríl og verka til manneldis þá felst ekki síður fjárhagslegur ávinningur í að koma í veg fyrir að makríllinn sé hér á beit án leyfis og án þess að nokkur þóknun komi fyrir og snúi síðan til veturstöðvanna og hrygningarstöðvanna suður og vestur af landinu, feitur og vel haldinn úr íslenska sumarhaganum þar sem floti ESB og Norðmanna bíður eftir að slátra honum!. Þetta atriði þarf að koma skýrt fram hjá samninganefndinni, að innrás makrílsins er ekki síður skaðleg en veiðar ESB ríkjanna innan 200 mílna lögsögunnar á árum áður. Þegar við veiðum makrílinn erum við að tryggja viðkomu okkar nytjastofna og þess vegna eiga viðræðurnar að taka mið af því og við eigum að fara fram á mun stærri kvóta en áður ellegar hreinar skaðabætur úr sjóðum Evrópusambandsins. Ágangi og yfirgangi verður að mæta af fullum þunga og hvika ekki frekar nú en við hvikuðum í landhelgisdeilunum 1958-1975.  En í þeim deilum vannst fullnaðarsigur þrátt fyrir úrtöluraddir uppgjafarsinna


mbl.is Hóta aðgerðum vegna makríldeilunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóri glæpurinn gegn þjóðinni

 

  • Ég skil vel reiði manna yfir afskriftum bankanna hjá útrásardólgunum og kvótagreifunum
  • Ég skil alveg reiði manna yfir stökkbreyttum höfuðstól lána
  • Ég skil líka vel reiði manna vegna atvinnumissis og skertrar þjónustu ríkisins

 EN ég skil ekki heigulshátt stjórnmálastéttarinnar að hafa ekki sinnu á að laga þetta sjúka þjóðfélag og koma hér á réttlátri skiptingu auðs og valda, réttlátri skiptingu tekna og gjalda og jöfnuði í atvinnu og aukinni velferð aldraðra og sjúkra. Það er þannig þjóðfélag sem við viljum skapa hér og getum svo auðveldlega skapað ef við nýtum þann auð sem við eigum og nýtum þá reiði sem hér ríkir til uppbyggingar en ekki eilífs niðurrifs. Við eigum ekki að eyða allri okkar orku í að hneykslast á Jóni Ásgeir eða Davíð eða ráðningunni á Árna Magnússyni eða hverju því daglega hneyksli sem pólitískir skítkastarar nota til að dreifa athygli almennings og beina athyglinni frá þeim sjálfum.  Afskriftir bankanna eru jafnmiklar reikningskúnstir núna eins og upphleypti efnahagsreikningurinn var hjá þeim áður. Það kemur okkur ekkert við.  Ef okkur mislíkar þá getum við bara hætt viðskiptum! Það þolir enginn banki. En þessar hræsnisfullu áróðursræður stjórnmálamanna eru innistæðulausar. Alveg á sama hátt og orðagjálfur verkalýðsforystunnar.

Almenningur þarf að opna augun fyrir því sem er að gerast og hefur verið að gerast. Hætta að trúa lygum sérfræðinga sem ganga erinda sérhagsmunanna. Við urðum fyrir áfalli en það var meira svona huglægt en efnislægt þótt sumir hafi reyndar misst eitthvað sem þeir aldrei áttu þá er það ekki nema gott. Það kemur mönnum niður á jörðina. Stóri glæpurinn sem verið er að fremja gegn okkur felst í kvótakerfinu og þeim hundruðum milljarða sem íslenskt þjóðarbú verður af árlega vegna þess. Þetta er ekki fullyrðing heldur staðreynd sem allir sem kunna prósentureikning geta reiknað út. Við þurfum ekki reikningskúnstir hagfræðinganna sem bjuggu til blöðruhagkerfið sem sprakk, með allskonar afleiðum og flóknum fjármálagerningum.  

Afskriftir Arionbanka hjá einum útrásardólg er jafnhá upphæð og sem nemur hallarekstri Ríkisins á þessu ári og sem nemur áætlaðri skuldalækkun allra sveitarfélaga á landinu næstu 10 árin. Við verðum að fara að setja þessar gígantísku upphæðir sem verið er að möndla með í samhengi sem við skiljum. Ekki rífast yfir 50 milljóna niðurskurði hér eða 10 milljóna hagræðingu þar.  Ríkið þurfti að taka til í rekstrinum. Um það þarf ekki að deila. En það þarf ekki og þurfti aldrei að bitna á almenningi.  Í stað þess að gerast hér ánauðugir þrælar erlendra lánadrottna þá áttum við ónotaða auðlind sem synti framhjá í sjónum. Það er stóri glæpurinn sem allir eru að hylma yfir

Því enn erum við að vannýta fiskimiðin. Við sem gætum hæglega aukið gjaldeyristekjur um 100 milljarða og samfara því aukið neyzlu innanlands og fjárfestingu í veiðum og vinnslu sem jafngilti 3-4 % í auknum hagvexti bara ef stjórnmálamenn þyrðu að afnema þetta sjúka kvótakerfi sem gerði Ólafi Ólafssyni kleyft að semja við Arion! Þetta væri svo einfalt ef þið hættuð að láta blekkja ykkur með auðlindarentu bulli hagfræðinganna. Ekkert helvítis auðlindagjaldskjaftæði. Bara miklu betri nýtingu á fiskimiðunum og svo eðlilegt hráefnisgjald á landaðan afla. Til dæmis 20% af söluverði. Alls ekki fasta krónutölu heldur % hlutfall, þannig að ef verð er hátt á mörkuðum þá hækki gjaldið. Þannig reiknað hráefnisgjald gæti skilað ríkissjóði tekjum uppá 60 milljarða á ári miðað við að verðmæti útflutts sjávarafla aukist bara um 30% þrátt fyrir 100 þúsund tonna meiri bolfiskafla. Við eigum allan þennan auð í hendi til að auka velsæld allra en þess í stað er haldið verndarhendi yfir fámennum hópi útgerðaaðila sem hafa sölsað undir sig 95% af veiðiheimildunum og hanga á þeim eins og grimmir rakkar á roði. Í hvert  sinn sem einhver hefur gert sig líklegan til að taka þetta úr kjafti þeirra hafa þeir urrað og gelt og orðið svó ógnandi að stjórnmálamenn og hagsmunaaðilar lyppast niður og leggjast á bakið eins og huglausra hunda er siður í nálægð við þá hunda sem ráða hópnum.  Ég hef áður líkt Þorsteini Má, Samherjaforstjóra við hund og sveitastjórnamönnum og pólitíkusum sem rófunni á þessujm hundi. Allir sjá hversu þessi samlíking lýsir vel afleiðingum kvótaúthlutunarinnar. Kvótinn er roðið í kjafti hundsins sem við verðum að taka af honum. Hversu hættulegt sem það kann að reynast stjórnmálalega fyrir þessar skræfur sem nú sitja á þingi.

Þetta er stóri glæpurinn gagnvart þjóðinni. Ekki bankakreppan, eða gjaldeyriskreppan, Þær kreppur voru í raun blessun en ekki bölvun. Nauðsynlegar til að leiðrétta þjóðfélag græðginnar og auðsöfnunarinnar.  Það sem mér finnst sárast að horfa upp á er, að huglaus stjórnmálastétt skuli ekki sjá það eina rétta í stöðunni, til að leiðrétta þetta sjúka þjóðfélag. En það er að afnema kvótakerfið


Að endurskilgreina eignarhaldið

Það er rétt hjá Pétri Blöndal, að það þarf að endurskilgreina eignarhaldið á fiskinum í sjónum og þar með úthlutuðum aflaheimildum. Ég hef lengi barist fyrir afnámi kvótans og fært fyrir því mörg góð og gild rök. Eitt af þeim rökum felast í þeim skilningi að engin þjóð geti slegið eign sinni á villta dýrastofna, hvorki í lofti eða á landi eða í legi.  Þetta er grundvallaratriði sem verður að útkljá. Núverandi útfærsla á kvótakerfinu og þar með hvernig leyft var að eignfæra úthlutaðar aflaheimildir brjóta nefnilega ekki aðeins á mannréttindum og atvinnurétti heldur ekki síður hlýtur útfærslan að stangast á við þjóðarrétt.  Ég held það tíðkist hvergi að þjóðir skilgreini fiskstofna í lögsögu sinni sem eign þeirra útgerða sem nýta þessi hlunnindi. En þetta var leyft á Íslandi og er einn af orsakavöldum bankahrunsins sem ekki hefur verið tekið á, enn þann dag í dag.  Þess vegna er það brýnt að alþingismenn átti sig á að afnám kvótakerfisins snertir ekki bara þær útgerðir sem missa "eignarréttinn"  heldur er afnám kvótakerfisins forsenda þess að hægt sé að endurheimta skuldugar útgerðir úr klóm bankanna sem eru í dag að hirða arðinn af veiðunum sem í raun ætti að renna til þjóðarinnar.  Það er þetta sem málið snýst um, ekki einhverja rentu sem verður tekin af skiptaverði og sem minnkar hagnað sem aftur takmarkar eðlilega endurnýjun skipa og annars búnaðar sem notaður er í sjávarútvegi. Það á ekki að þurfa neina hagfræðinga til að sjá þetta. Það eru bankarnir sem settu þetta þjóðfélag á hliðina með ógætilegu framboði ódýrs lánsfjár og það eru ennþá sömu bankar á nýjum kennitölum sem halda hér þjóðfélaginu í gíslingu með ólöglegri innheimtu lána sem búið er að afskrifa og ekki síður með því að halda atvinnulífinu í gíslingu með ólöglegum veðum sem þeir ætla sér að innheimta hér næstu áratugi. Afnám kvótans er krafa dagsins, Engar viðbætur eða blekkingar um eignarhald þjóðarinnar á fiskiauðlindinni. Frjálsar veiðar með skynsamlegri sóknarstýringu er auðvelt að framfylgja. Aldrei trúa lygum hagsmunaaðila sem hóta því að veiða upp allan fiskinn í sjónum ef veiðar verða gefnar frjálsar,  það er engin hættas á því.  Hins vegar er hætta á að stofnar éti sjálfa sig ef ekki er veitt nóg,  sérstaklega af smáfiski. Hvernig halda menn til dæmis að færi fyrir landbúnaðinum ef aðeins 20% af lömbunum væri slátrað á hverju ári?  Nákvæmlega sama á við um fiskstofnana. Landgrunnið er beitarhagi helstu nytjastofna. Sagan segir að beitarþolið sé bundið því að veidd séu að jafnaði 400-500 þúsund tonn.  Það hefur ekki verið gert vegna kvótakerfisins. Þess vegna erum við að glíma við þetta ójafnvægi í vistkerfinu þar sem heilu tegundum sem eru neðar í fæðukeðjunni en þorskur og ýsa hefur verið útrýmt vegna þess að veiðistofn þorsksins er alltof stór og það ber vott um mikið hugleysi og uppgjöf að fela sig alltaf á bak við ráðleggingar Hafró. Þeir gerðu mistökin, þeir munu aldrei viðurkenna það. Enda hafa engar raunverulegar hafrannsóknir farið fram hér við land. Í 30 ár var stofnunin með útibú á Ísafirði þar sem fylgst var með innfjarðar rækjustofninum í Djúpinu.  Allt var þar í gúddí þangað til eitt haustið að engin rækja fannst. Þá hafði Djúpið fyllst af ungfiski um sumarið, aðallega þorsk og ýsu og afleiðingin var náttúrulega sú að rækjan lenti í kjafti þorsksins en ekki í trolli sjómannannna. Fiskifræðingarnir eru enn að klóra sér í hausnum yfir því hvað gerðistLoL
mbl.is Pétur semur nýtt kvótafrumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband