RÚV virðir ekki lög

Fyrir nokkrum dögum var RÚV beitt sekt af Fjölmiðlanefnd upp á 1 milljón ískr. fyrir brot á reglum um kostun. Kannski að fréttastofan hafi bara óvart birt kostaða "frétt" um bruggsmiðjuna Kalda um daginn eða er um skipulagða brotastarfsemi að ræða hjá dagskrárstjórn RÚV?  Ef umfjöllunin um Kalda var eðlileg þá getum við lagt fjölmiðlanefnd niður.


Metin falla og ríkisstjórnin fagnar

Samkvæmt Transparency International er Ísland nú spilltast miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við. Við hljótum að fagna því á þessum tímum gagnsæis og opinberrar stjórnsýslu! Og á næstu árum munum við ná enn ofar á spillingarlistanum. Kannski verðum við komin í fyrsta sæti þegar búið verður að meta aðgerðir núverandi ráðherra Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Spilling er nefnilega ekki til í þeirra orðabók heldur bara óheppilegar tilviljanir. Þökk sé Klausturfíflunum þá talar enginn um ríkisstjórnina og hvað hún er að bralla.


Kleifabergið gert út af ráðuneytinu

Flott hjá ráðherranum að niðurlægja opinberlega þá sem undir hann heyra.  Fyrst Hafrannsóknarforstjórann og núna forstjóra Fiskistofu. Til hvers erum við með opinberar stofnanir ef ráðherra tekur fram fyrir hendur forstjóra þeirra í hverju málinu á fætur öðru? Hvenær fá alþingismenn nóg af þessu gerræði?  Það er í valdi þingsins að setja ráðherra af.  Nú er fullt tilefni til.


mbl.is Kleifaberg heldur aftur til veiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppskrift að einkavæðingu banka

Undanfarnar vikur hef ég verið að kynna mér hina svokölluðu Hvítbók Bjarna Benediktssonar, um framtíðarsýn hans á fjármálakerfi framtíðarinnar.  Og það er ekki góð framtíðarsýn fyrir almenna borgara. Í rauninni fjallar Hvítbókin lítið um framtíðarsýn en þeim mun meira um hvernig staðið skuli að sölu á eignarhlut ríkisins og hvað ríkið þurfi að gera til að gera bankana söluvænlegri.  Fyrir mér er þetta einfalt. Eignarhlutir ríkisins eru bókfærðir á 339 ma kr. sem þýðir að raunverulegt verðmæti er meira. Ég held að Frosti Sigurjónsson hafi nefnt töluna 400 ma.kr og enginn mótmælti því. Þar af leiðir á að setja verðmiða á þessa eignarhluti sem endurspegla raunverulegt verðmæti en það er sko alls ekki það sem Bjarni Ben ætlar sér. Hann ætlar að nota nákvæmlega sömu aðferð og L.Í. notaði þegar Borgun var gefin . Sá fjármálagjörningur skilaði eignarhaldsfélagi Engeyjarmafíunnar milljörðum í eigin vasa.

Svo nú er spurningin, er skynsamlegt að einkavæða ríkiseigur meðan Bjarni Benediktsson situr í ríkisstjórn?  Ég segi nei.  Ekki miðað við þessar forsendur. Og það er slæmt því auðvitað á að setja bankana á markað en ekki selja til kjölfestufjárfesta.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með umræðum þingmanna um þessa Hvítbók á næstunni. Og hvort einhver þori að nefna bláklædda fílinn í fjármálaráðuneytinu. Því hann er þarna og hann hefur alla þræði í hendi sér. Hann hefur Bankasýsluna og hann hefur Ásgeir Jónsson. Allir sótraftar á flot dregnir til að gera þetta ætlunarverk að veruleika í boði VG, sem eru jú með reynslu af að sóa almannafé, samanber Sjóvá og SpKef.

Það verður engin umræða um framtíðarsýn á fjármálakerfið. Það verður ekkert minnst á peningastefnuna eða gjaldeyrisforðann sem hægt er að nota til að taka upp dollar til dæmis. Það verður heldur ekkert talað um ríkisábyrgð á innlánum við þessa einkavæðingu. Og ástæðan er einfaldlega að fulltrúar okkar á þingi eru upp til hópa undirmálsfólk sem hefur ekki roð við jakkafatamafíunni.Undirmálsfólk, sem er svo upptekið af kynfærapólitík að stórfelld sala ríkiseigna til einkavina fer alveg framhjá þeim. Það verður kannski ekki fyrr en Bjarni lætur Ásgeir Jónsson skrifa Hvítbók um einkavæðingu Landsvirkjunar, sem menn fari að spyrna við fótum.  En þá verður það of seint. Þá verður þetta lið búið að samþykkja 3. orkupakkann og kostnaðurinn við sæstrenginn verður notaður til að réttlæta söluna á Landsvirkjun.

Og þetta er ekki samsæriskenning.  Þetta er mín Hvítbók um fyrirætlanir svikulla manna, sem sjást ekki fyrir í græðgisvæðingunni.


Pálmatré í Vogabyggð

Er 20 metra hár ljósastaur listaverk? Er 20 m. gegnsær glerhjúpur utan um 1 tré listaverk? Hverjar eru yfirhöfuð skilgreiningar manna á hugtakinu útilistaverk?

Ef ég hefði verið í dómnefndinni þá hefði ég flokkað þessa hugmynd undir framúrstefnuarkitektúr en samt ekki því arkitektar setja ekki fram svona hugmyndir nema þær standist verkfræðilegar kröfur um burðarþol og svoleiðis. Ég sakna þess að engar byggingarteikningar af þessum turnum hafi verið látnar fylgja eða séu aðgengilegar.

Útilistaverk á ekki að vera kennileyti í umhverfinu. Ef það er hugsunin þá er ekki verið að hugsa um að fegra mannlíf heldur að monta sig af framúrstefnuarkitektúr.

En þetta er ennþá bara hugmynd á blaði og enn nægur tími til að hætta við þessi áform. Fyrir 250 milljónir mætti til dæmis byggja yfir hálfan Laugaveginn og skapa þar suðræna stemningu með útikaffihúsum og íslenskum aldintrjám.


mbl.is „Dönsk strá og pálmatré“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftiráskýringar fiðrildalirfunnar

Gott hjá strákunum í Kastljósi, að svara frekjukasti forstjóra Vinnslustöðvarinnar og fyrrum samstarfsmanns hans, lögmannsins, Elínar Bjargar Jónsdóttur. Þessi ásökun Elínar, að Kastljós hafi á einhvern sviksamlegan hátt, snúið út úr orðum hennar og það hafi valdið henni tjóni atvinnulega, er nefnilega grafalvarleg.  Og það er örugglega rétt hjá henni að fáir hafi viljað ráða hana í vinnu. En ályktanir hennar eru kolrangar. Hún var sett á svarta lista stórútgerðarinnar fyrir að hafa hjálpað til að byggja upp málflutning þeirra, sem gagnrýnt hafa svindlið í sjávarútveginum. Svindlið í brottkastinu. Svindlið í framhjálöndununum. Svindlið í vigtuninni. Svindlið í verðlagningunni. Svindlið í sölumálunum og svindlið á sjómönnunum.

Elín var sett á svartan lista vegna þess að hún sagði satt. Og hún áttaði sig ekki á kerfinu. Hún hélt að Kastljósið væri valdameira en það er. Afleiðingar aðgangshörku Kastljóss manna á þessum tíma hafa nefnilega bitnað af fullum þunga á þeim sjálfum. Ekki öðrum og alls ekki orðið til þess að einhverju hafi verið breytt. Enginn af þeim er lengur að starfa við rannsóknarblaðamennsku eða fréttaskýringar. Hvernig ætli standi á því Elín?

Hafi verið reynt að misnota Elínu af Kastljósfólkinu 2016, hvað kallar hún þá afskipti stórútgerðarinnar núna? Hvaða leikrit er Binni í Vinnslustöðinni að setja upp með hennar aðkomu? Er hann að undirbúa að fara í mál við ríkið vegna makríldóms Hæstaréttar?  Eða er þetta liður í að gera Fiskistofu áhrifalausa?  Hvað svo sem er í gangi þá ætti Elín Björg ekki að treysta loforðum þessara manna. Því ekki verða allar lirfur að fiðrildum.


mbl.is Hugarburður eða furðulegur misskilningur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Garðfuglahelgin

Garðfuglahelgi fuglaverndar.is er rétt lokið. Þá voru menn beðnir að vakta garðana sína í klukkustund og skrá fastagesti eftir fjölda og tegundum. En þar sem ég er álíka óglöggur á fugla eins og menn þá tók ég nú ekkert þátt í þessum samkvæmisleik. Hins vegar hef ég fóðrað smáfugla í snjóatíð, reglulega í bráðum 20 ár. Og á þessum árum kemst maður ekki hjá að veita atferli þessara fugla eftirtekt og lært að þekkja helstu tegundir. Sagðar eru sögur af fuglum sem halda tryggð við sína garða. Þetta held ég að sé tóm vitleysa. Fuglar leita bara þangað sem ætið er hverju sinni og engar sjáanlegar hættur á ferð. Og þeir eru upp til hópa bölvaðir oflátungar og gikkir. Til dæmis þá eru svartþrestirnir mínir frekastir. Síðan koma skógarþrestir, starar og snjótittlingar. Ef ég vil tryggja að snjótittlingarnir fái frið til að borða maiskurlið sitt þá verð ég að gefa þröstunum snemma.  Þegar þeir eru flognir burt koma oftast snótittlingarnir og gæða sér á leyfunum. Þótt þetta geti verið dýrt áhugamál þá er það þess virði. Munum öll eftir smáfuglunum alltaf!


Enn af Vestfjarðavegi um Reykhólahrepp

Konur í stjórnmálum láta mun oftar undan þrýstingi en karlar í sömu aðstæðum. Það er staðreynd. Sveitastjórn Reykhólahrepps samþykkti tillögu yfirvalda um að veita framkvæmdaleyfi í samræmi við vilja Vegagerðarinnar. Þetta var samþykkt með 3 atkvæðum kvenna gegn 2 atkvæðum karlanna í sveitastjórn.  Allir sjá að þarna var beitt ofbeldi og því sérstaklega beint að konunum sem auðvitað brotnuðu undan þessum þrýstingi.  En málinu er ekki lokið.  Landvernd hefur ályktað gegn Þ-H leiðinni með rökum sem verður að skoða.  Þar er ég að tala um fyrirætlanir Vegagerðarinnar um að þvera 3 innfirði til að koma þessari Þ-H leið á koppinn.  Landvernd hefur efasemdir um að þær fyrirætlanir gangi upp. Um það snýst gagnrýnin.  Þarf ekki að framkvæma sérstök umhverfismöt á öllum þessum þverunum og veit Vegagerðin af því en heldur leyndu?  Þegar svo þessar tafir á framkvæmdinni "koma í ljós"  er þá tilgangurinn að nota peninginn í lagfæringar á Dynjandisheiði í tengslum við Dýrafjarðargöngin? Þessi athugasemd vekur upp slíkar spurningar.

Jón Atli Játvarðarson

Hrökkva nokkrir við núna? Er þörf fyrir svona harkaleg viðbrögð gegn bréfaskriftum frá "Landvernd"? Í þessu afmarkaða máli þegar óbilgirni og hótanir hafa neytt Reykhólahrepp til uppgjafar í veglínumálum, er þá ekki einfaldast fyrir Gauta Eiríksson að halda bara áfram að fagna. Suðurfirðingar fagna smá, en eru óöruggir. 

Kristján Már Unnarsson var orðinn óöruggur með sjálfan sig og allan sinn "fréttaflutning" áður en til tíðinda dró. Hann var farinn að leggja línurnar fyrir Vegagerðina í fréttaskoti sínu. Hvernig ætti að skipta framkvæmdinni þannig að hægt yrði að keyra yfir Gufufjörð og Djúpafjörð og til bráðabyrða yfir Hjallaháls og inn í fjarðarbotn og yfir hættulegu bognu brúna þar um ófyrirséða framtíð. Þetta er uppskrift fyrir Ísfirðinga til að klófesta helminginn af peningunum úr Gufudalssveitinni, í Dynjandisheiðina.

Gauti Eiríksson fer ekki rétt með í samanburði veglína yfir Þorskafjörð ytri. A1 leiðin með sína vankanta er gerð að góðri leið í R leiðinni. Það er ekki Gauta Eiríkssonar að meta þetta. Í R leiðinni er fólgin lausn á galla er varðar umhverfislega þætti hvað varðar fallastrauminn og bátaleiðina undir 15 m. hárri brúnni.

A3 leið Vegagerðarinnar er brandari dauðans. Sú leið var ekki með lausn á útfallstæmingunni eða innstraumsflæðinu öllu. Sú leið var ekki í afgreiðsluferli hreppsnefndarinnar. Hún var dæmd frá öllu matsferli í umfjöllun. Hún var ekki með færa leið fyrir Gretti, skip Þörungaverksmiðjunnar, með of lága brú 8 m. undir gólf. 

R leiðin er forhönnuð yfir álinn þar sem hann hefur breikkað og dýpkað aðeins utan við A1 leiðina. Óöryggi manna er að vaxa vegna óútskýrðra mála Vegagerðarinnar á Þ-H leiðinni. Þetta vita "Landverndar"menn og láta finna fyrir sér. Þetta veit Gauti Eiríksson og lætur finna fyrir sér, í hina áttina. 

Skipulagsstofnun þarf að grípa inn í núna og skikka Vegagerðina til að mæla botnstyrkinn í R leiðinni, þar sem állinn hefur dýpkað. Það verður að hafa R leiðina klára um leið og Þ-H vitleysan afhjúpast. Þetta mun fara að verða ljóst með vorinu og Suðurfjarðamenn eiga ekki annað í stöðunni en að biðja Reykhólamenn afsökunar fyrir dónaskapinn og óbilgirnina.

Sjá haltir ganga!

Borgarstjórnarfundur í beinni

Stafnum hélt ég gæti hent
og hraðar stikað fetið
alveg gleymdi að allt er sent
útá Internetið.

Málflutningur makalaus
mitt því kúlið missti
Líf í rugli rak upp haus
og ranghvolfd augun hristi

Hörð varð orrahríðin þá
hóf mér ekki kunni,
en lenti mínum maga á
Miðflokks-maddömunni.


Fórnarlambsvæðingin

Það er ekki að spyrja að Íslendingum.  Eitt vanhugsað orð og vælubíllinn spólar af stað. En yfir hverju er verið að væla? Skammast fólk sín virkilega fyrir að eiga börn með Downs heilkenni?  Við vitum að þeir sem láta eyða fóstrum með þennan genagalla skammast sín en hinir eiga að vera stoltir. Einstaklingur með Downs er með sín persónueinkenni eins og allir aðrir og það er persónuleikinn sem ræður en ekki einhver greindarvísitala. 

Ég ólst upp með móðurbróður sem var ekki bara korter í Downs, hann var rúmlega Downs. Og þegar ég lít til baka þá er ég þakklátur þeirri reynslu. Björn Líndal frændi minn, Bassi, var sérstakur maður , mjög trúaður og gat tekið reiðiköst ef honum líkaði ekki eitthvað í útvarpinu sínu sem hann hafði á sér alla daga.  Öðrum stundum var hann blíður sem lamb. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar Bassi messaði yfir kúnum úti í fjósi , klæddur skrautlegu rúmteppi sem prestskikkju , haldandi á útvarpinu sínu undir hökunni og tónandi í takt við prestinn í útvarpinu.  Ég minnist þess líka, að séra Bjarni Jónsson víxlubiskup, var í sérstöku uppáhaldi hjá honum en sveitapresturinn sem þá var séra Jón Bjarman, átti ekki uppá pallborðið.  Gekk það svo langt, að Bassi tók til sinna eigin ráða einn sunnudag, þegar messað var í Svalbarðskirkju. Án þess að við vissum, læddist hann niður í kirkju með hvellhettubyssuna sína og "skaut" prestinn í miðri guðsþjónustu. Auðvitað varð engum meint af en Bassi var bannfærður í kjölfarið og passað að hann gerði þetta ekki aftur.  Seinna átti hann eftir að heimsækja mig vestur til Ísafjarðar þar sem ég fór með honum í kirkju hjá presti sem hann kunni vel að meta.

Svo mín ráðlegging til forráðamanna þroskaheftra er að láta umræðuna ekki setja sig úr jafnvægi. Þið eruð ekki fórnarlömb. Þið eruð sigurvegarar lítilmennskunnar. Þið þorðuð á meðan aðrir völdu auðveldari leiðir. Ef einhverjir eru með fordóma gagnvart fólki með downs , þá stafar það af þekkingarleysi og hver er þá meiri heimskinginn?  Ég myndi til dæmis aldrei kalla Sigurjón Kjartansson þroskaheftan af virðingu fyrir þroskaheftum.


mbl.is Biðst afsökunar á orðfæri í Ófærð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband